Um fátt hefur verið meira rætt í dag en rannsóknina sem mun sýna að allt áfengi sé óhollt, hversu lítið sem það er. Það hefur verið talað um aðrar rannsóknir sem sýna eitthvað annað, svo almenningur er sjálfsagt litlu nær. En það þarf enginn að segja manni annað en að vínandi sé yfirleitt meinóhollur til inntöku – nema þá kannski í afar litlum skömmtum. Við erum þá ekki að tala um rauðvínsglas sem er næstum þriðjungur úr flösku, heldur kannski eins og matskeið eða fingurbjörg.
En áfengi er menningarfyrirbæri. Eins og oft hefur verið sagt er óhugsandi að það hefði verið leyft ef það hefði verið fundið upp í gær. Það hefur hins vegar fylgt mannkyninu frá alda öðli. Viðbrögð sumra samfélaga við því hafa reyndar verið bann, líkt og er í íslamstrú.
Það sem er kannski furðulegast við áfengið er tvískinnungurinn. Það er varað við neyslu þess og almennt þykir rétt að halda ungmennum eins lengi og hægt er frá því að drekka. En á sama tíma er gengdarlaus hvatning til víndrykkju í samfélaginu. Áfengisdýrkun má kalla það. Við getum til dæmis tekið hina nýlegu Mathöll á Hlemmi (sjá mynd). Hún er starfrækt í strætisvagnaskýli. Þar fer um fjöldi manns á hverjum degi, líka börn og unglingar. En það koma þangað inn er eins og að koma í stórt vínhús. Alls staðar eru áfengisflöskur og bjórkranar á áberandi stað – og skilti þar sem greint er frá sölu drykkjanna.
Tóbak sem var einu sinni viðfang svipaðrar dýrkunar á Vesturlöndum – með fólki að starfi og leik reykjandi – er hins vegar kirfilega horfið ofan í læstar ósýnilegar hirslur. Samt vitum við að áfengi veldur sjúkdómum og dauða og er einn stærsti áhrifaþátturinn þegar kemur að ofbeldi, nauðgunum, vanrækslu barna og eyðilögðum heimilum.