Geir Jón Þórisson, fyrrum yfirlögregluþjónn og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, er ómyrkur í máli í garð Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra, í Stundinni. Hann segist ekki geta treyst Sigríði vegna þess hvernig hún hefur staðið að löggæslumálum:
„Það er ekki hægt að treysta svona fólki til að halda utan um svona mikilvægt málefni, svo ég tali um hana sérstaklega. Hún heldur því fram að það fjármagn sem hafi verið sett til viðbótar í lögregluna hafi orðið til þess að byggja hana upp. Staðreyndin er sú að þetta fjármagn eru menn að nota til að greiða undir halla síðustu ára. Það er búið að draga svo mikið úr löggæslunni frá hruni að hún er ekki búin að ná sér eftir það. Lögreglumönnum byrjaði að fækka þegar embættin voru sameinuð því þá var strax byrjað að skera niður. Rúm 80% af fjárheimildum embættanna fer í að greiða laun og eina leiðin til að ná endum saman er að fækka mannskap og það er það sem er búið að vera að gera. Þetta er svo einfalt dæmi að ég skil ekki að ráðherra átti sig ekki á þessu og tali þvert gegn staðreyndum. Menn eru frekar að flýja úr lögreglunni en hitt. Ég hef verið í flokknum í um 50 ár, minnugur þess að það hefur alltaf verið aðalsmerki Sjálfstæðisflokksins að tryggja öfluga og góða löggæslu. Nú finnst mér allt annað bera við. Ég átta mig ekki á þessu,“
segir Geir Jón við Stundina.
Hann kaus ekki Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum vegna þess að honum þótti dómsmálaráðherra koma illa fram við lögreglumann frá Blönduósi sem vikið var úr starfi þegar hann átti stutt eftir í eftirlaun:
„Í dag hefur það ekki lagast eftir að hafa séð hvernig dómsmálaráðherra kemur fram í garð löggæslunnar á Íslandi.“
Sigríður hefur haldið því fram að aldrei hafi jafn miklum fjármunum verið varið til löggæslumála og nú og birti dómsmálaráðuneytið súlurit á vef stjórnarráðsins því til staðfestingar í gær, þar sem hvergi kom fram að hvaða tilefni súluritið var birt, né í hvaða samhengi.
Ljóst þykir þó að um innlegg frá ráðherra er að ræða, í þá miklu umræðu sem skapast hefur um málið, enda standast fullyrðingar Sigríðar ekki skoðun, líkt og Stundin hefur bent á. Hefur þetta vakið furðu og reiði margra innan lögreglunnar og nefndi Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna að 2,8 milljarða vantaði inn í tölur ráðherra, milljarða sem hefðu horfið eftir hrun.
Í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi frá því í fyrra, kemur fram að draga hafi þurft úr starfsemi lögreglu á öllum sviðum:
„Á árum áður ríkti einsleitni í fámennu samfélagi Íslendinga og einangrun landsins veitti visst skjól gagnvart alþjóðlegri skipulagðri brotastarfsemi en slíku er ekki til að dreifa í dag. Lögreglunni hefur ekki verið gert kleift að fylgja eftir þróun og breytingum samfélagsins. Frumkvæðislöggæsla krefst mannafla og fjármuna til lengri tíma. Í stað þess að lögreglumönnum væri fjölgað til þess að efla frumkvæðislöggæslu á sviði afbrotavarna fækkaði lögreglumönnum stórlega frá árinu 2007 og draga þurfti úr starfsemi lögreglu á öllum sviðum. Þessi skortur á frumkvæðislöggæslu gerir það að verkum að lögreglan fylgir ekki nægilega vel samfélagsþróun og býr þannig ekki yfir nauðsynlegri getu til að takast á við breytingar sem fylgja t.a.m. alþjóðavæðingu og skipulagðri glæpastarfsemi þvert yfir landamæri.“
Þar kemur einnig fram að: