Sænsk yfirvöld ætla að hella 40.000 lítrum af poppkorni í Eystrasalt í næstu viku. Ekki er um gjörning eða listviðburð að ræða. Poppkornið á að nota við æfingu á viðbrögðum gegn olíumengun. Það er ekki svo gott að nota olíu við slíkar æfingar því hún mengar jú. En poppkornið er aftur á móti umhverfisvænt og því þykir henta vel að nota það.
Æfingin fer fram á sænsku yfirráðasvæði í Eystrasalti og í Karlskrona en um alþjóðlega æfingu er að ræða.
„Olíuflekkurinn“ sem þátttakendur eiga að glíma við verður sem sagt 40.000 lítrar af poppkorni og hafa þátttakendurnir, sem eru frá ríkjum við Eystrasalt, 36 klukkustundir til að hreinsa það upp úr sjónum.