Jakobínuvaka 2018 -menningardagskrá til heiðurs Jakobínu Sigurðardóttur skáldkonu (1918-1994), verður haldin í Iðnó laugardaginn 25. ágúst kl. 15.
Á dagskránni eru erindi um skáldkonuna og verk hennar, upplestur úr völdum verkum og enn fremur verður flutt tónlist við ljóð hennar.
Jakobína Sigurðardóttir var fædd árið 1918 í Hælavík á Hornströndum, elst þrettán systkina. Hún fór ung að heiman og vann fyrir sér í Reykjavík og á Suðurlandi. Árið 1949 tók hún saman við Þorgrím Starra Björgvinsson bónda í Garði í Mývatnssveit.
Eftir Jakobínu liggja fjórar skáldsögur, þrjú smásagnasöfn, kvæðabók, minningar og ævintýri fyrir fullorðna. Ljóðabókin var endurútgefin, svo alls komu út ellefu bækur eftir skáldkonuna. Að auki birtust bæði ljóð og smásögur í tímaritum og blöðum, auk fjölmargra blaðagreina og útvarpserinda. Einnig samdi hún leikþátt fyrir Alþýðuleikhúsið á Akureyri. Hún var í tvígang tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir skáldsögurnar Dægurvísu og Lifandi vatnið – – –. Sumar bóka hennar hafa verið þýddar bæði á Norðurlöndum og utan þeirra.
Framlag Jakobínu til íslenskra bókmennta er umtalsvert og hún var til dæmis meðal fyrstu rithöfundanna sem gerðu módernískar formtilraunir í skáldsagnaskrifum. Umfjöllunarefni hennar voru af ýmsum toga en meðal þeirra helstu má nefna stéttabaráttu og -skiptingu, náttúruvernd, stöðu kvenna, mikilvægi þess að axla samfélagslega ábyrgð og ýmiss konar vandamál og árekstra sem koma upp í samskiptum fólks.
Nánari upplýsingar um Jakobínuvöku 2018, Jakobínu sjálfa og verk hennar má finna hér.