Íslensk náttúra mun leika stórt hlutverk í væntanlegu tónlistarmyndbandi kanadísku stórstjörnunnar Avril Lavigne, sem tekið var upp hérlendis á dögunum. Lavigne gaf síðast út plötu árið 2013 og síðasta lag hennar, „Fly“ kom út í apríl 2015. Ef marka má Instagram-síðu söngkonunnar bíða fjölmargir aðdáendur hennar um allan heim í ofvæni eftir nýju efni frá henni.
Leikstjóri myndbandsins er breski leikstjórinn Elliot Lester. Hann er þekktur fyrir kvikmyndir á borð við Blitz (2011) sem skartaði Jason Statham í aðalhlutverki, og myndarinnar Aftermath (2017), með goðsögninni Arnold Schwarzenegger í aðalhlutverki. Lester hefur einnig tekið upp tónlistarmyndbönd í hjáverkum og á Instagram-síðu hans má sjá fjölmargar myndir frá Íslandi sem og af honum og Lavigne í ótilgreindu kvikmyndaveri.
Meðal annars birtir leikstjórinn myndir frá Vík í Mýrdal, Sólheimajökli og Hveragerði auk fallegra mynda af norðurljósunum. Avril Lavigne tilkynnti opinberlega árið 2016 að hún væri að vinna að nýrri plötu. Síðan hefur lítið heyrst og því er með öllu óráðið hvenær Íslandsmyndband stjörnunnar lítur dagsins ljós.