Arnór Sighvatsson, sem á dögunum lét af starfi aðstoðarseðlabankastjóra lögum samkvæmt, hefur ekki sagt alveg skilið við bankann. Hann mun koma tímabundið aftur til starfa í haust til þess að ljúka ýmsum verkefnum. „Það var um það rætt þegar Arnór lét af embætti í sumar að það þyrfti að fá hann í viss verkefni síðar. Nú er um það samkomulag að hann taki að sér tiltekin skýrsluskrif sem hann byrjar væntanlega á í haust og að vinnan við þau geti staðið yfir fram á árið 2019,“ segir Stefán Jóhann Stefánsson, upplýsingafulltrúi Seðlabanka Íslands, í skriflegu svari til blaðsins.
Fáir þekkja starfsemi Seðlabanka Íslands betur Arnór Sighvatsson. Þegar hann kvaddi bankann fyrr á árinu hafði hann unnið þar samfleytt í 28 ár. Hann hóf þar störf árið 1990 eftir að hafa lokið doktorsprófi í hagfræði frá Northern Illinois University sama ár. Arnór tók við stöðu aðalhagfræðings og framkvæmdastjóra hagfræðisviðs bankans árið 2004 og var settur aðstoðarseðlabankastjóri í febrúar 2009. Fyrst til bráðabirgða en síðan var hann formlega skipaður í embættið til fjögurra ára í júlí sama ár.
Arnór var endurskipaður aðstoðarseðlabankastjóri til fimm ára í apríl 2013. Lögum samkvæmt getur hver einstaklingur aðeins verið skipaður tvisvar í embættið og því lauk Arnór störfum í lok júní.
Staðan var auglýst fyrr á árinu og að lokum skipaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Rannveigu Sigurðardóttur sem aðstoðarseðlabankastjóra. Rannveig hefur frá árinu 2009 starfað sem aðstoðarframkvæmdastjóri hagfræði- og peningastefnusviðs Seðlabanka Íslands og verið ritari peningastefnunefndar, ásamt því að vera staðgengill aðalhagfræðings bankans.