Joseph Le Goff smíðaði skútuna sjálfur – Lagði af stað frá Portúgal þann 7. júlí
Neyðarsendirinn sem fannst suðvestur af Grindavík í morgun tilheyrir frönsku seglskútunni Red Heol sem skráð er í hafnarborginni Brest á vesturströnd Frakklands. Skipstjóri skútunnar, hinn 63 ára gamli Joseph Le Goff, hugðist sigla frá Portúgal til Azoreyja og lagði hann af stað þann 7. Júlí. Áætlað var að siglingin tæki rúma viku.
Eitthvað virðist hafa farið úrskeiðis því síðan þá hefur ekkert spurst til Josephs. Franskir fjölmiðlar hafa fjallað um málið nokkuð reglulega síðustu vikur og mánuði og í byrjun september var greint frá því að skipverjar á flutningaskipi hefðu komið auga á skútuna þar sem hún var á reki um 900 sjómílur austur af Nýfundnalandi.
Veður á svæðinu var slæmt sem varð til þess að skipverjar treystu sér ekki til að kanna ástand hennar betur. Ekki var vitað hvort Le Goff væri enn um borð. Mynd var tekin og staðfesti bróðir Le Goff að um væri að ræða samskonar skútu og bróðir hans hafði siglt, að því er fram kom í frétt France Info.
Í frétt Le Télégramme þann 24. ágúst síðastliðinn kom fram að Le Goff væri vanur siglingum og hann hefði smíðað skútuna, sem var ellefu metrar á lengd, að mestu sjálfur. „Bróðir minn var vanur siglingum með fjórtán ára reynslu,“ sagði bróðir hans, Jean-Yves Le Goff, og bætti við að hann hefði áður siglt einn til Azoreyja. Jean bætti við að bróðir hans hefði ávallt sent honum smáskilaboð þegar hann lagði af stað úr höfn. „Hann sagði mér hvert hann ætlaði og hversu lengi hann hugðist sigla,“ sagði hann. Í smáskilaboðunum kom fram að Joseph hugðist taka átta daga í að sigla til Azoreyja og hann myndi láta hann vita þegar hann kæmi aftur til hafnar. Það var í síðasta skipti sem Jean heyrði í bróður sínum.
Í frétt Le Télegramme var nokkrum kenningum varpað fram; að Joseph hefði fallið fyrir borð eða veikst skyndilega. Skútuna hafi rekið um Norður-Atlantshaf í kjölfarið og neyðarsendir ekki farið af stað strax. Þann 16. ágúst síðastliðinn var skipulagðri leit að skútunni hætt. Veður var gott þegar Joseph lagði af stað frá Portúgal.
Í tilkynningu sem Landhelgisgæslan sendi frá sér í morgun segir að stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hefði fengið neyðarboð frá neyðarsendi skútunnar. Þetta var klukkan 04.46 í morgun en eins og að framan greinir lagði skútan af stað frá Portúgal þann 7. júlí síðastliðinn. Að því er fram kemur í tilkynningunni hafði ekkert spurst til skútunnar fyrr en í morgun að neyðarboðin bárust og gáfu þau til kynna að þau kæmu skammt austur af Grindavík.
„Þá þegar var þyrla Landhelgisgæslunnar send á vettvang og fór hún í loftið um hálfsex í morgun. Rétt fyrir klukkan sex fann áhöfn þyrlunnar neyðarsendinn upp í fjöru austur af Hópsnesi. Seig sigmaður þyrlunnar niður og sótti sendinn. Engin önnur vegsummerki fundust þá á vettvangi og var því ákveðið að bíða birtingar með áframhaldandi leit og óskaði Landhelgisgæslan einnig eftir aðstoð björgunarsveita á svæðinu til að ganga fjörur,“ segir í tilkynningunni.
Á áttunda tímanum í morgun hélt björgunarsveitin í Grindavík af stað til leitar. Rétt um klukkan 08:40 fannst brak sem talið er vera úr skútunni og verður leit nú haldið áfram. Þyrla Landhelgisgæslunnar er nýfarin aftur á vettvang til frekari leitar.