„Ég er gæinn sem ber virðingu fyrir kúnnanum og læt hann ganga fyrir í góðu umhverfi, hittir mig aldrei á tjúttinu eða í neinu rugli, bara solid buisness. Enda koma allir aftur ánægðir.“ Svona hljómar ein fjölmargar fíkniefnaauglýsinga sem birtast á spjallrás í smáforritinu Telegram.
Um er að ræða spjallforrit sem er helsti vettvangur fíkniefnasölu á Íslandi. Í umræddir auglýsingu býður sölumaðurinn lyfið Oxycontin til sölu. Lyf sem hefur slæfandi áhrif og getur í of stóru magni valdið dauða. Umrætt lyf er talið hafa átt þátt í að draga til dauða sum þeirra fjölmörgu ungmenna sem hafa látist á árinu.
Telegram er smáforrit sem notendur nýta í samskipti sín á milli. Í forritinu er hægt að fá aðgang að sérstökum svæðum og samkvæmt heimildum DV eru fjölmargar rásir hér á landi sem einungis eru ætlaðar til sölu á fíkniefnum. Afar auðvelt er að verða sér úti um aðgang á rásirnar og telja þær flesta fleiri en 1000 meðlimi. Raunar má segja að forritið sé nær eingöngu notað til þessa á Íslandi. Helsti kostur þess er að það tryggir nafnleynd betur en önnur sambærileg forrit.
Blaðamaður DV útbjó aðgang á síðuna en hér að neðan má sjá nokkur dæmi um þær vörur sem eru til sölu. Allar myndirnar eru nýjar, frá síðasta sólarhring. Auglýsingar á þeim tíma telja þúsundum, þó vissulega sé mikið um endurtekningar á sömu auglýsingu. Notendurnir rásanna virðast vera á öllum aldri en símanúmer fylgja flestum auglýsingum. Fíkniefni, lyf og sterar eru meðal þess sem í boði er.