Jóhann Berg Guðmundsson mun líklega koma reglulega við sögu hjá liði Burnley á tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni. Jóhann hefur fest sig í sessi undir stjórn Sean Dyche hjá Burnley eftir að hann kom til félagsins frá Charlton Athletic árið 2016.
Fróðlegt verður að fylgjast með Jóa Berg og félögum hans á leiktíðinni en liðið hafnaði í sjöunda sæti deildarinnar á síðasta tímabili.
Burnley á síðustu leiktíð:
Sæti: 7
Mörk skoruð: 36
Mörk fengin á sig: 39
Skot að meðaltali í leik: 9,9
Gul spjöld: 65
Rauð spjöld: 0
Heppnaðar sendingar: 70,5 %
Burnley hefur leikið vonum framar undanfarin tvö tímabil undir leiðsögn Dyche sem tók við liðinu árið 2012. Knattspyrnan sem hinir fjólubláu spila er ekki mikið fyrir augað en liðið nær árangri og sannaði það á síðustu leiktíð.
Ef líkja ætti íslenska landsliðinu við lið í ensku úrvalsdeildinni þá yrði það Burnley. Liðið er með stóra stráka innanborðs sem eru tilbúnir að „deyja fyrir klúbbinn.“
Lykillinn:
Burnley hóf síðustu leiktíð af krafti og liðið virkaði ósigrandi á köflum. Þetta sýndu þeir með því að vinna ótrúlegan 3-2 sigur á þáverandi Englandsmeisturum Chelsea í fyrsta leiknum.
Eftir tap gegn West Bromwich Albion í annarri umferð spilaði liðið sex leiki án þess að tapa en nokkrir þannig kaflar komu upp á leiktíðinni þar sem liðið var alltaf líklegt til þess að ná í stig.
Lykillinn að góðu gengi Burnley í vetur er skipulag og agaður varnarleikur. Liðið fékk aðeins á sig 39 mörk á síðustu leiktíð og til samanburðar fékk stórlið Arsenal á sig 51 mark og Everton, sem endaði sæti neðar en Burnley, fékk á sig 58. Dyche fær leikmenn sína til þess að leggja allt í sölurnar.
Vopn liðsins:
Burnley er með hæfileikaríka leikmenn innanborðs sem kunna vel að spila flottan fótbolta en liðið nýtir sér þó fremur önnur vopn. Leikmenn á borð við Chris Wood, Ashley Barnes og Sam Vokes eru eitraðir innan teigs og munu háir boltar spila stórt hlutverk á leiktíðinni. Wood reyndist sérstaklega öflugur fyrir Burnley á síðustu leiktíð eftir að hafa komið frá Leeds og skoraði hann 11 mörk fyrir liðið í 26 leikjum.
Varnarlína Burnley er gríðarlega sterk. Þeir James Tarkowski og Ben Mee voru frábærir saman og nú hefur liðið fengið Ben Gibson frá Middlesbrough sem mun styrkja liðið enn frekar. Markvörðurinn Nick Pope er einnig partur af varnarlínu liðsins en hann bjargaði liðinu margoft og var verðlaunaður með sæti í enska landsliðshópnum á HM í sumar.
Jóhann Berg Guðmundsson:
Jóhann hentar leikstíl Burnley fullkomlega og mun hann spila stórt hlutverk á leiktíðinni. Íslenski landsliðsmaðurinn er ekki þekktur fyrir það að skora mörg mörk en hann gerði alls tvö í deildinni á síðasta tímabili. Hann lagði hins vegar upp átta mörk fyrir liðið og átti alls 213 fyrirgjafir í 35 leikjum.
Það sem hentar Jóhanni hvað best er einfaldleikinn í leikstíl Burnley. Hann er kantmaður sem gerir einfalda hluti mjög vel og er með eitraðan vinstri fót, hvort sem hann sé notaður til þess að skjóta að marki eða gefa á samherja.
Tölfræði Jóhanns á síðustu leiktíð:
Leikir: 35
Mörk: 2
Stoðsendingar: 8
Sendingar: 805
Fyrirgjafir: 213
Heppnaðar fyrirgjafir: 30%
Skot: 54
Skot á mark: 18
Jóhann er ekki aðeins fammúrskarandi knattspyrnumaður heldur fellur hann vel að hugmyndafræði Dyche og það hefur sýnt sig. Jóhann hleypur mjög mikið fyrir sitt lið og gerir fá mistök í leikjum.
Hann spilar stórt hlutverk bæði varnarlega og sóknarlega og verður að öllum líkindum fastamaður í liðinu á komandi tímabili.
Staðan á leikmannahópnum:
Burnley hefur ekki styrkt leikmannahópinn mikið í sumar og kannski engin ástæða til eftir frábært tímabil. Dyche veit hvað hentar honum best or leitar iðulega til enskra leikmanna. 14 leikmenn í aðalliði Burnley eru enskir og aðeins sjö leikmenn í eru ekki breskir. Jóhann er hluti af þeim fámenna hópi.
Liðið festi kaup á framherjanum Matej Vydra fyrr í sumar en hann spilaði síðast með Derby County og var öflugur markaskorari. Fróðlegt verður að sjá hvernig Vydra stendur sig því hann er ekki jafn hávaxinn og aðrir framherjar Burnley og hann býr einnig yfir meiri hraða. Kaupin á Vydra minna þó óþægilega mikið á kaup liðsins á Nahki Wells síðasta sumar. Wells skoraði grimmt fyrir Huddersfield en kom aðeins níu sinnum við sögu hjá Burnley.
Ben Gibson er leikmaður sem mun eflaust hjálpa til varnarlega en hann var keyptur frá Middlesbrough í sumar og á að baki 185 deildarleiki fyrir liðið.
Leikmenn inn:
Vinnie Steels (York City) – Á frjálsri sölu
Ben Gibson (Middlesbrough) – Keyptur
Joe Hart (Man City) – Keyptur
Matej Vydra (Derby County) – Keyptur
Leikmenn út:
Dean Marney – Samningslaus
Scott Arfield – Samningslaus
Tom Anderson – Samningslaus
Chris Long – Samningslaus
Josh Ginnelly – Samningslaus
Conor Mitchell (St. Johnstone) – Lán
Aiden Stone (Lancaster City) – Lán
Spá fyrir tímabilið 2017/2018:
Það er erfitt að spá Burnley betra gengi en á síðustu leiktíð er liðið kom öllum á óvart og hafnaði í sjöunda sæti og vann sér inn þáttöku í Evrópudeildinni. Ástríðan hjá leikmönnum Burnley er meiri en hjá flestum öðrum og er því ómögulegt að spá liðinu falli.
Ef allar hliðar eru skoðaðar er líklegt að liðið endi tímabilið um miðja deild eða í 11. sæti deildarinnar. Önnur lið hafa styrkt sig meira en Burnley í sumarglugganum en eins og áður kom fram eru fá lið með jafn þéttan og vel skipaðan hóp og Dyche og félagar.