fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
433

Íslendingaliðin í ensku úrvalsdeildinni: Cardiff City

Victor Pálsson
Laugardaginn 11. ágúst 2018 14:00

Fall gæti orðið raunin hjá Aroni og félögum

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Enska úrvalsdeildin hefst um helgina og knattspyrnudeild DV, 433 mun fylgjast grannt með gangi mála. Þrír Íslendingar leika með úrvalsdeildarliðum, Aron Einar Gunnarsson hjá Cardiff, Gylfi Sigurðsson hjá Everton og Jóhann Berg Guðmundsson hjá Burnley. 433 greinir stöðu liðanna þriggja, mikilvægi Íslendinganna innan þeirra og spáir fyrir um lokasæti.

 

CARDIFF CITY

Það verður áhugavert að fylgjast með Cardiff City á leiktíðinni sem er að hefjast í ensku úrvalsdeildinni. Með liðinu leikur landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson og hefur gert undanfarin sjö ár eftir að hann var keyptur frá Coventry. Cardiff hafnaði í öðru sæti Championship-deildarinnar á síðustu leiktíð og tryggði sér því beint sæti í úrvalsdeildinni og slapp við umspil. Liðið komst síðast í úrvalsdeildina árið 2013 en féll ári síðar eftir afar slæmt gengi.

 

Cardiff á síðustu leiktíð:

Sæti: 2

Mörk skoruð: 69

Mörk fengin á sig: 39

Skot að meðaltali í leik: 14

Gul spjöld: 82

Rauð spjöld: 1

Heppnaðar sendingar: 59,4%

 

Það er ljóst að Cardiff menn eiga erfitt verkefni fyrir höndum í vetur og verður liðið að passa sig á að gera ekki það sama og fyrir fjórum árum. Á fyrri hluta deildarkeppninnar þá tókst liðinu aðeins að sigra þrjá leiki sem kostaði félagið á endanum sætið í deildinni.

Neil Warnock er stjóri Cardiff en hann er kannski þekktastur fyrir það að starfa í neðri deildunum. Warnock vill að sínir menn geri allt til þess að ná í stig þó að það sé aðeins eitt. Honum er alveg sama hvernig liðið fer að því sem getur verið jákvætt.

Lykillinn:

Mikið þarf að ganga upp hjá Cardiff ef liðið ætlar að halda sér í deild þeirra bestu. Á síðustu leiktíð fengu leikmenn liðsins dæmd á sig 82 gul spjöld sem er áhyggjuefni fyrir þá. Leikmenn komast ekki upp með eins mikið í úrvalsdeildinni og í neðri deildunum. Warnock þarf því að hafa betri stjórn á sínum mönnum.

Vörnin mun spila stóran þátt í gengi liðsins á leiktíðinni. Þeir Sean Morrison og Sol Bamba voru frábærir aftast þegar liðið tryggði sér sæti í efstu deild.

Óvíst er hver mun skora mörkin fyrir Cardiff en liðið mun væntanlega treysta á Kenneth Zohore. Hann skoraði þó aðeins níu deildarmörk á síðustu leiktíð og tólf tímabilið áður.

Leikmenn Cardiff þurfa að spila sem ein liðsheild enda lítið um stjörnur hjá félaginu og ekki hægt að treysta á að einstaka leikmenn vinni leiki upp á sitt einsdæmi með heimsklassa frammistöðu. Fyrst og fremst þarf varnarleikurinn að vera traustur og svo þarf að nýta föstu leikatriðin.

 

Vopn liðsins:

Megin vopn Cardiff til að byrja með verður að vera Warnock sjálfur. Hann þarf að sannfæra leikmenn sína um að þeir séu nógu góðir fyrir efstu deild því að eins og er eru ekki margir leikmenn Cardiff í „úrvalsdeildarklassa“.

Warnock er enginn taktískur snillingur en hann á það til að gera ótrúlegustu hluti með lítið á milli handanna. Liðið notaðist mikið við 4-3-3 leikkerfið á síðustu leiktíð en það mun að öllum líkindum ekki virka í úrvalsdeildinni. Kerfið er of sóknarsinnað fyrir lið með þessa leikmenn innanborðs.

Warnock gæti skoðað það að nota leikkerfið 4-5-1 og beitt skyndisóknum. Cardiff eiga fljóta menn fram á við sem gætu refsað mörgum liðum deildarinnar. Hraður og varnarsinnaður fótbolti virðist vera eina vopnið sem getur bjargað Cardiff en liðið er ekki að fara að yfirspila önnur lið í keppninni.

 

Aron Einar Gunnarsson:

Aron er ekki með fyrirliðabandið hjá Cardiff en hann er samt fyrirliði. Hljómar furðulega en er engu að síður staðreynd. Hann hefur verið hjá liðinu í sjö ár og á að baki 258 leiki fyrir liðið og hefur skorað 24 mörk. Fáir láta jafn mikið í sér heyra og þessi litríki miðjumaður sem er að sjálfsögðu fyrirliði íslenska landsliðsins.

Cardiff menn verða að treysta á að okkar maður haldist heill og hann mun þá væntanlega spila stórt hlutverk þegar liðið berst fyrir því að halda sér í efstu deild. Liðið þarf einmitt á leikmönnum eins og Aroni að halda. Það er aldrei neitt eftir á vellinum þegar lokaflautið heyrist.

Hægt er að fullyrða og hóta Cardiff því að ef Aron spilar ekki mikið í vetur þá mun liðið falla rakleiðis niður um deild. En Warnock er mikill aðdáandi Arons og veit hversu mikilvægur hann er. Aron heur sýnt það með landsliðinu að hann kann vel við að kljást við stærstu stjörnur heims sem Cardiff ættu að nýta sér og vonandi helst hann meiðslalaus í vetur.

 

Tölfræði Arons á síðustu leiktíð:

Leikir: 20

Mörk: 1

Stoðsendingar: 1

 

Aron er í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum og leikmönnum Cardiff og var hann valinn besti leikmaður liðsins fyrir árið 2017 af báðum þessum hópum. Það segir mikið um framlag hans og mikilvægi.

Aron hefur einnig reynslu úr úrvalsdeildinni. Hann lék alls 23 deildarleiki þegar Cardiff var þar fyrir fjórum árum.

 

Staðan á leikmannahópnum:

Cardiff keypti ekki mest í sumar en liðið hefur þó fengið til sín sex leikmenn sem eiga að styrkja hópinn.

Josh Murphy var keyptur frá Norwich, Greg Cunningham frá Preston, Bobby Reid frá Bristol City og markvörðurinn Alex Smithes frá Queens Park Rangers. Þetta eru engar stórstjörnur og hafa hinir nýliðarnir, Fulham og Wolves, styrkt sig mun meira og eytt háum fjárhæðum í leikmenn.

Það verður spennandi að sjá miðjumanninn Victor Camarasa en hann kom til liðsins frá Real Betis. Harry Arter þekkir deildina þá inn og út en hann var fenginn á láni frá Bournemouth.

Erfitt að sjá hvaðan mörkin eiga að koma. Markahæsti leikmaður liðsins á síðustu leiktíð var hinn fyrrnefndi Zohore sem gerði aðeins níu mörk. Það hefði einnig verið betra fyrir liðið að kaupa fleiri leikmenn með reynslu úr efstu deild og eins og eru horfurnar ekki góðar.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að aðeins þrír leikmenn hafa yfirgefið félagið og það er oft sagt að of margar breytingar skapi vandræði.

Leikmenn inn:

Josh Murphy (Norwich) – Keyptur

Greg Cunningham (Preston) – Keyptur

Alex Smithies (QPR) – Keyptur

Bobby Reid (Bristol City) – Keyptur

Victor Camarasa (Real Betis) – Lán

Harry Arter (AFC Bournemouth) – Lán

 

Leikmenn út:

Greg Halford – Samningslaus

Omar Bogle (Birmingham City) – Lán

Lee Camp (Birmingham City) – Lán

 

 

Spá fyrir tímabilið 2018/2019:

Því miður fyrir Aron þá er líklegt að Cardiff fari beint niður í Championship. Liðið er einfaldlega ekki með nógu góða leikmenn til þess að halda sæti sínu í efstu deild og margt þarf að ganga upp til að fall verði ekki raunin.

Möguleiki Cardiff liggur í jafnteflunum. Ef liðinu tekst að sækja nokkur dýr stig hér og þar er aldrei að vita hvernig taflan gæti litið út á næsta ári. Á blaði er liðið hins vegar á leið beint niður og spáum við því að Cardiff endi tímabilið á botni deildarinnar í 20. sæti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Benoný á leið til Englands

Benoný á leið til Englands
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Adam Ægir í ítarlegu viðtali: Hæðir og lægðir á fyrstu mánuðunum erlendis – „Eins og staðan er núna er alveg erfitt að labba um göturnar“

Adam Ægir í ítarlegu viðtali: Hæðir og lægðir á fyrstu mánuðunum erlendis – „Eins og staðan er núna er alveg erfitt að labba um göturnar“