Vill uppræta ólgu innan flokksins með lýðræðislegum hætti
Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins greindi frá því í kvöldfréttatíma RÚV að hann ætli að bjóða sig fram til embættis formanns flokksins.
Mikil spenna hefur verið innan flokksins undanfarið og verður framboðið eflaust ekki til þess að minnka hana.
Sigurður Ingi segir að margir hafi skorað á hann að bjóða sig fram. Nú ætli hann að láta verða af því.
Það er því óhætt að segja að það stefni í spennandi formannsslag í Framsóknarflokknum á flokksþingi sem fer fram eftir viku.
Sigurður Ingi viðurkennir sömuleiðis að mikil ólga hafi verið í flokknum að undanförnu og að hann teldi rétt að leysa úr því með lýðræðislegum hætti og leyfa flokksmönnum að kjósa um formann.