Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.
Um það leyti sem Steinunn var að hefja sinn feril í hernum rann upp 11. september 2001, hinn örlagaríki dagur þegar farþegaþotum var flogið inn í Tvíburaturnana í New York. Hún og félagar hennar voru að læra að keyra hertrukka þegar sjónvarpi var skyndilega rúllað inn og kennari þeirra sagði að verið væri að ráðast á Bandaríkin.
„Ég hélt að þetta væri plat. Að þetta væri hluti af æfingunni því að í búðunum brjóta þjálfararnir okkur niður andlega og byggja svo aftur upp. En síðan var ljóst að þetta var að gerast í alvörunni. Hann reyndi að hughreysta okkur en ég var alveg að skíta í buxurnar af hræðslu við að fara í stríð. Ég skráði mig ekki í herinn til þess að berjast í stríði heldur til að sjá fyrir dóttur minni. Þegar seinni flugvélin lenti á byggingunni varð allt svart og hvítt og ég hugsaði bara: Ó sjitt.“
Varstu hrædd við að fara í bardaga?
„Ó já. Ég vissi ekkert hvort ég myndi sjá barnið mitt aftur. Aftur á móti var ég búin að vera svo lengi frá fjölskyldunni heima á Íslandi að ég hugsaði voða lítið um hana.“
Steinunn tók hins vegar ekki þátt í innrásinni í Afganistan sem hófst í kjölfarið á árásinni á Tvíburaturnana. Hún ferðaðist um heiminn og var á herstöðvum á Filippseyjum, Japan, Dúbaí og víðar.
Árið 2003 lýsti George W. Bush forseti því yfir að Bandaríkin og bandalag viljugra þjóða myndu ráðast inn í Írak og steypa einræðisherranum Saddam Hussein af stóli. Það ár fór Steinunn í fyrri túr sinn þangað og kynntist bardögum á eigin skinni. Hún var þá í deild sem heitir EOD, sem fer fyrst inn og sér um að taka í sundur allar sprengjur sem finnast. Í deildinni voru um 400 karlmenn en aðeins tvær konur.
„Þetta var erfitt því flugvélarnar okkar og annar búnaður var alltaf að bila. Við þurftum að tjasla þessu öllu saman með alls konar leiðum, notuðum límband og hvað sem við fundum. Birgðavélarnar voru risastórar, með skriðdrekum, trukkum, Hummer-jeppum og öðrum mjög þungum tækjum. Ég bað til guðs að við myndum komast á leiðarenda.“
Steinunn segir að það hafi gengið mjög fljótt og vel að steypa stjórnarher Saddams Hussein. Bandaríkjaher sé það vel æfður og með svo mikið af öflugum vopnum að ómögulegt hafi verið að stöðva hann. En í kjölfarið fylgdu bardagar við skæruliða sem drógust mjög á langinn. Steinunn keyrði þá sjúkrabíl í svokallaðri læknahersveit.
„Bíllinn hét Christine, eins og bíllinn úr sögu Stephens King sem drap alla,“ segir Steinunn kímin.
Helstu verkefnin voru að koma hermönnum til aðstoðar og í læknishendur. Einnig vann sveitin fyrir heimamenn eins og hægt var. Á þessum tíma sá hún alls kyns hrylling.
„Það var mjög sorglegt að fara inn á spítalana þarna því skæruliðarnir notuðu börn til að finna jarðsprengjur. Þarna voru mörg börn sem höfðu misst útlimi. Ég man sérstaklega eftir einni ungri stúlku sem við hefðum getað bjargað ef við hefðum mátt flytja hana til Bandaríkjanna. Við gátum ekkert gert fyrir hana þarna því við vorum ekki með öll tól eða lyf. En landsstjórnin í Írak gaf ekki leyfi og hún er örugglega ekki lengur á lífi greyið,“ segir Steinunn og í fyrsta skiptið í samtalinu breytist tónninn í rödd hennar. Það tekur augljóslega á að rifja upp slíka reynslu.