Mikil sölu- og framleiðsluaukning hefur verið hjá ÖRNU ehf – mjólkurvinnslu í Bolungarvík, síðustu vikur og mánuði. Neytendur hafa tekið vörunum vel og kunna greinilega að meta þá viðbót á mjólkurmarkaði, nýsköpun og frumkvæði sem ARNA ehf hefur einsett sér að koma til skila og sinna af kostgæfni.
Móttökur neytenda við gríska jógúrtinu frá ÖRNU hafa verið frábærar og full ástæða er til áframhaldandi þróunar þeirrar vörulínu. Því er stefnt að fjölgun í grísku jógúrtfjölskyldunni nú í september.
Eins og margir hafa orðið varir við á Facebook hefur ARNA ehf að undanförnu kallað eftir vestfirskum aðalbláberjum. Nú er kominn allgóður lager aðalbláberja og stefnt að því að koma með hágæða haustvöru sem sameinar bragðgæði og hollustu bláberjanna og laktóasafríu mjólkurvörunnar. Þessi vara verður aðeins til í takmörkuðu upplagi og verður í boði á meðan birgðir endast. Vonandi taka neytendur vel í þessa nýbreytni, þannig að hollusta haustsins geti orðið árlegur viðburður í framtíðinni og fylgt okkur inn í veturinn.
ARNA ehf. framleiðir nú 25 vörunúmer. Allar vörurnar eru laktósafríar. Í framleiðsluferlinu hefur sætan mjólkinni – tvísykran mjólkursykur – verið klofin í tvær einsykrur – galaktósa og glúkósa – á sama hátt og mannslíkaminn vinnur á mjólkursykri. Ekki allir einstaklingar hafa þann hvata, sem þarf til að kljúfa mjólkursykurinn, auk þess sem hæfileikinn minnkar yfirleitt með auknum lífaldri fólks. Þess vegna er talað um mjólkuróþol, sem lýsir sér helst í óþægindum í maga. Mismunandi er hvað mjólkuróþol leggst þungt á mannfólkið. Margir þola mjólkurvörur í litlum mæli meðan aðrir sýna sterk óþolsviðbrögð af litlu magni. Þessi framleiðsluaðferð þýðir einnig að hægt er að lágmarka alla íblöndun sætuefna í mjólkurvörunum, en halda hámarks bragðgæðum.
Laktósafríar mjólkurvörur ÖRNU eru því hágæða mjólkurvörur fyrir alla – sérstaklega þá sem eru með mjólkuróþol.
Í myndarekkanum hér að neðan gefur að líta hluta af sístækkandi vöruúrvali ÖRNU.