fbpx
Sunnudagur 01.desember 2024
Fréttir

Ástir, slagsmál og vín – Ofbeldið í menningu Íslendinga

Þér að segja – Einar Kárason skrifar

Ritstjórn DV
Föstudaginn 23. september 2016 09:47

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig áflog og ofbeldi virðist í fljótu bragði setja mjög sterkan svip á menningu okkar þjóðar að fornu að nýju, og eitt sinn var ég beðinn um að setja á blað hugleiðingu um sjálfa „karlmennskuna“ í okkar kúltúr, og þá í tengslum við að sjálfur þáverandi biskupinn yfir Íslandi hafði í útvarpsprédikun mælt með því að menn reyndu að rækta sín karlmennskugildi, samfélaginu til heilla. Ollu þau ummæli eins og við mátti búast nokkurri úlfúð, vegna eðlilegra kvenfrelsis- og jafnréttissjónarmiða. En ég held að við ættum ekki að vera að dæma gamalreynd og sígild orð og hugtök úr leik þótt tímarnir breytist; „drengskapur“ er til að mynda fyrirbæri sem stundum vill gleymast en er eigi að síður brýnt þótt upp séu runnir nýir tímar.

Ég man að fyrir nokkrum árum barst í tal að ljóð Jóhannesar úr Kötlum „Land míns föður“ gæti þénað vel fyrir þjóðsöng, í stað þeirra geimferðalegu kveinstafa sem við nú höfum fyrir slíkt, en þá upphófust þær mótbárur að Ísland væri ekki bara „land míns föður“ líka land mæðra vorra. Sem er auðvitað satt og rétt, en ég mun eigi að síður halda áfram að líta á eyju vora sem mitt föðurland, rétt eins og íslenskan verður áfram móðurmálið. Og svo er rétt að minna á að ýmis kynjatengd hugtök virðast að fornu hafa gilt jafnt um allt fólk; má þar nefna að Bergþóra okkar í Njálu var ekkert minna en „drengur góður“ samkvæmt þeirri ágætu bók.

„Höggva mann og annan“

En nóg um það. Við vorum að tala um karlmennsku. Auðvitað er erfitt að skilgreina hvað átt er við og eflaust er það eitthvað sem breytist með tímanum. Hugmyndir Íslendinga um karlmennsku eru eins og margt annað sóttar mjög í fornsögurnar, og loddi þá vilji og hæfileiki til að drepa aðra menn og limlesta allmjög við hugtakið; einhver frægasta karlmennskuhvöt bókmenntanna er vísan sem Egill Skallagrímsson orti á unglingsaldri fyrir móður sína og nær hámarki í lokaorðum þar sem hann heitir því að „halda svo til hafnar / höggva mann og annan“.

Að tengja slagsmál og limlestingar við karlmennsku virðist reyndar hafa verið lífseigt til skamms tíma, ekki síst ef maður skoðar gamlar frásagnir um sveitaböll og gleðskap fram yfir miðja síðustu öld, því þar er því oft lýst að fjörið hafi fyrst náð hámarki þegar menn brettu upp skyrtuermar og létu hendur skipta; hnefar smullu á kjálkum og menn voru látnir snýta rauðu; tennur fuku og nef brotnuðu og menn lágu í öngviti; ég man eftir sjóara sem ég hitti fyrir þrjátíu árum og gumaði af því að vera „alltaf fyrstur úr skyrtunni eftir böll“ (men sviptu sér úr jakkanum þegar hnefar áttu að tala) – hans hugmynd um fullkomna sælu var á sinn hátt eitthvað í ætt við lýsingar Ásatrúar á eilífri vist í Valhöll þar sem menn eru drepnir á hverjum degi en rísa til nýrra bardaga næsta morgun. Sígild íslensk dægurlög enduróma þennan hugmyndaheim: um gamanið á vertíð í Eyjum var sungið um 1960:

„Er mæta þeir margir
þá er slegist þar
það er mest gaman
segja stelpurnar.“

 Og í lofsöng um karlmennið Gústa í Hruna söng sjálfur Haukur Morthens:

„Það var karl sem að kunni að
kyssa, drekka og slást!
Enda sagð’ann það oft: Það er ánægjan mín;
ástir, slagsmál og vín.“

Að hokra að kvenfólki

Þessi ofbeldishugmynd er held ég mjög að láta undan síga í nútímahugmyndum um karlmennsku; Gústi í Hruna væri nú á dögum afgreiddur sem hver annar handrukkari; væri trúlega kominn á Litla-Hraun og fyrirlitinn af flestum.

En „ástir, slagsmál og vín“ sagði Gústi; ætli kvensemin sé líka tengd karlmennskunni órjúfanlegum böndum? Nei, ég held að það hljóti að vera breytilegt eins og annað, því að hreinræktaðasta karlmennskulýsing íslenskra fornsagna, Þorgeir Hávarsson sem segir frá í Fóstbræðrasögu, og Laxness dýpkaði í Gerplu; hann sem var svo mikið karlmenni að hann lagði fæð á fóstbróður sinn fyrir að hafa bjargað lífi sínu er hann hékk í njólanum í Hornbjargi og sífellt er vitnað til. Og Þorgeir Hávarsson semsé, hann var svo mikið karlmenni að hann leit ekki við kvenfólki heldur þótti það lítilmannlegt að „hokra að konum“.

En hvað er þá karlmennska í nútímaskilningi? Kannski má þar til dæmis nefna hæfileikann til að láta ekki koma sér úr jafnvægi, taka því sem dynur yfir án þess að tapa skýrri hugsun; um það eiga fornsögurnar auðvitað hrein og ómenguð dæmi, eins og þegar sagt er um Gunnar á Hlíðarenda að honum hafi hvorki brugðið við sár né bana. Það er sagt í þeim stíl okkar gömlu ritsnillinga að draga hvergi undan, en um þetta atriði myndi eflaust gilda í nútímanum að menn sem kjósa að vera í sviðsljósinu láti sér ekki bregða þótt um þá sé talað; að menn ættu að geta tekið vondri gagnrýni með glotti á vör; má vera kalt reyndar. „Teinréttur, þótt sitthvað gengi á“, segir Gylfi Ægis í Minningu um mann. „Eigi skal haltur ganga meðan báðir fætur eru jafnlangir,“ sögðu gömlu mennirnir. Og karlmennska má það líka heita að kveinka sér ekki þótt einhver finni upp á að spauga með mann; hlæja bara með og láta sem ekkert sé.

Brotnir efrigómar

Eins og ég nefndi hér að framan þá er nokkuð áberandi í bókartextum, munnlegum frásögnum og allskyns söngvum og dægurvísum frá liðinni öld, þessi mikla hrifning á áflogum og slagsmálum sem hreinni skemmtun og lífsfyllingu. Ég er búinn að nefna Gústa í Hruna og líka hvað stelpunum þótti gaman að áflogum strákanna á vertíð í Eyjum samkvæmt gömlum slagara, en dæmin eru mýmörg fleiri. Lagið góða „Sveitaball“ sem Ómar Ragnarsson söng við ómældar vinsældir endurspeglar þetta líka:

    „Sveitaball, já allir töffar elska sveitaball    á bílum glanna þeir úr borginni    og bokkunni, þeir hampa hátt    sinn mikla mátt þeir sýna meyjunum    og slást og slarka og sláni margur síðar skreið    svo draujað dauðum heim, svo dáldið sjatni í þeim    því annars yrði mamma reið, og kallinn alveg knall …“

Og þar fram eftir götunum. Hið sama gilti um ritaðar frásagnir; ég las eitt sinn bók eftir Stefán Jónsson fréttamann og hinn ágæta rithöfund þar sem skemmtanalíf í sjávarþorpum er rannsakað hringinn í kringum landið og sér í lagi skoðað hvernig menn haga slagsmálum á böllum; því fyrr sem áflog hófust og því harðari sem þau voru, því hærra þótti það menningarstig; mig minnir að Neskaupstaður hafi haft vinninginn samkvæmt þeirri úttekt og að þar hafi þótt sérstakt virðingarmerki að vera með brotinn efrigóm eftir kjaftshögg (þetta var á þeim árum þegar falskar tennur þóttu eiginlega taka hinum upprunalegu fram, og þegar fátt þótti fínna en að fá falskar í fermingargjöf, og var kallað að „láta smíða uppí sig“). Að menn gætu trauðla talað af því efrigómurinn skrollaði í tveimur pörtum var með öðrum orðum sérstakt karlmennskutákn og órækur vitnisburður um hugdirfð í landlegupústrum með tilheyrandi líkamsmeiðingum – sama fyrirbæri er lýst í frábærum skáldsögum Steinars Sigurjónssonar frá svipuðum tíma, til að mynda bókinni „Hamingjuskipti“ þar sem aðalpersónan, akurnesíski rotarinn sem mig minnir að heiti Toni, gengur einmitt um með þverbrotinn plastgóm uppí sér.

En kannski föttuðu menn ekki djókinn?

Það er að sama skapi mjög trúlegt að þessar seinni tíma hugmyndir um barsmíðar sem skemmtun séu að einhverju leyti í það minnsta innblásnar af okkar miðaldabókmenntum, eins og reyndar flest í okkar menningu ef að er gáð. En þá er hins að gæta að hetjuskapur tengdur ofbeldi og djöfulskap í Íslendingasögum er kannski miklu tvíræðari en við blasir í fljótu bragði; kannski voru höfundar þeirra að dást að flestu öðru en hinni yfirborðslegu standardhugmynd um karlmennsku og vopnfimi. Við nefndum áðan kappana Þorgeir og Þormóð úr Fóstbræðrasögu, en í seinni tíð hafa æ fleiri gert sér ljóst að þeir eru af hálfu höfundar þeirrar bókar fyrst og fremst grínfígúrur, á borð við Don Kíkóta hinn sjónumhrygga á horbykkjunni Rósínante, og fylgdarmanninn kubbslega Sansjó á asnanum. Egill Skallagrímsson hefur verið mörgum fyrirmynd um hreysti, eins og ég hef meðal annars fjallað um á þessum vettvangi í skrifum um frábæra ævisögu Stefáns Jónssonar fréttamanns um Pétur Hoffmann, en líka Egill er þegar sagan um hann er grandskoðuð í löngum köflum nokkurskonar skrípakall, og það sama hálftröllin faðir hans og afi.

Og svo má skoða sjálfan Gretti sterka Ásmundarson, hetjuna ógurlegu. Grettir hefur að vísu flest til að bera sem prýða má eina hetju: hann er allra manna sterkastur og fríðastur, hann er orðheppinn, skáldmæltur og af góðum ættum. En sagan er reyndar ekki um það. Heldur þvert á móti: Grettissaga er nokkurskonar stúdía á þeirri áleitnu þversögn að það er sitthvað gæfa og gjörvileiki; forskotið sem þeir hafa sem eru jafn vel af Guði gerðir og kappinn í sögunni dugir gjarnan ekki, því að lífið verður eigi að síður að ógæfu. Grettir snýr niður óvini sína, menn og drauga, en innri demóna getur hann aldrei sigrað; hann ræður ekki við skapsmuni sína og það hrekur hann í tilveru utangarðsmanns. Og í útlegðinni kvelst hann af einmanaleika, myrkfælni, auk þess sem hann saknar svo sárt mömmu sinnar og að mega ekki vera hjá henni. Það var nú hans karlmennska og hetjuskapur; „okkar samlanda“ Grettis Ásmundarsonar frá Bjargi í Miðfirði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Fjölskylduharmleikurinn á Tenerife líklega útkljáður fyrir íslenskum dómstólum

Fjölskylduharmleikurinn á Tenerife líklega útkljáður fyrir íslenskum dómstólum
Fréttir
Í gær

Böðullinn sem hengdi Eichmann er látinn: Var þjakaður af martröðum mánuðum saman

Böðullinn sem hengdi Eichmann er látinn: Var þjakaður af martröðum mánuðum saman
Fréttir
Í gær

Bolli segist ekki hafa komið nálægt auglýsingunum gegn Degi

Bolli segist ekki hafa komið nálægt auglýsingunum gegn Degi
Fréttir
Í gær

Ari Hermóður ákærður fyrir fjárdrátt frá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur

Ari Hermóður ákærður fyrir fjárdrátt frá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur
Fréttir
Í gær

Guðmundur snýr baki við Viðreisn: „Ég get ekki áttað mig á því hver stefnan er“

Guðmundur snýr baki við Viðreisn: „Ég get ekki áttað mig á því hver stefnan er“
Fréttir
Í gær

Pútín segir að Rússar muni gera tilraunir með ný ofurhljóðfrá flugskeyti

Pútín segir að Rússar muni gera tilraunir með ný ofurhljóðfrá flugskeyti