fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Sport

Hefði verið skrýtið að fara líka í KR

Hlynur Bæringsson vildi ekki fara auðveldu leiðina við val á félagsliði

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 28. september 2016 12:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsliðsfyrirliðinn í körfuknattleik, Hlynur Bæringsson, er fæddur í Stykkishólmi, ættaður vestan af fjörðum en ólst upp í Grundarfirði og Borgarnesi. Faðir hans, sem glímdi við alkóhólisma, lést þegar hann var sjö ára. Einstæð móðir hans ól ein upp börnin fjögur – stundum við þröngan kost. Hlynur fékk áhuga á körfubolta sem unglingur og varð fljótt góður. Hann sér bæði eftir því að hafa hafnað tilboði um atvinnumennsku á Spáni þegar hann var 19 ára og að hafa ekki nýtt tímann betur þegar hann var yngri. „Ég hefði getað farið miklu, miklu lengra,“ segir hann í einlægu viðtali við DV. Hann hefur þó afrekað meira en margir aðrir og leiddi körfuboltalandsliðið um helgina á sitt annað Evrópumót í röð – afrek sem fæstir hefðu fyrir nokkrum misserum gert sér í hugarlund. Baldur Guðmundsson settist niður með Hlyni, fjögurra barna föður, sem er snúinn heim eftir sex ár í atvinnumennsku.

„Ég reyni mitt besta til að vera góð fyrirmynd en það er alls ekki þannig að allt sem ég geri endurspegli fullkomna fyrirmynd.“

„Pabbi minn var óreglumaður,“ segir körfuboltamaðurinn Hlynur Bæringsson um uppvaxtarárin sín á Grundarfirði. Hann dó þegar Hlynur var sjö ára en pabba sinn þekkti hann lítið. Hann hafði ekki verið til staðar. Hlynur kippti sér þess vegna lítið upp við fregnirnar. „Hann dó úr alkóhólisma, þó að banameinið hafi verið eitthvað annað,“ segir þessi stóri og stæðilegi landsliðsmaður núna, 27 árum síðar.

Hlynur ólst því upp hjá einstæðri móður sinni í litlu sjávarplássi. „Hún var ein með fjögur börn og stóð sig eins og hetja. Mér fannst ég aldrei líða skort og var aldrei svangur,“ segir Hlynur um æskuárin fyrir vestan. Þau mæðginin eru mjög náin og í góðu sambandi.

Hann segist þó hafa upplifað að í litlu bæjarfélagi úti á landi geti verið munur á því hvernig fólk lítur á mann, eftir því hverra manna maður er; hvort pabbi manns er útigangsmaður eða hátt settur í samfélaginu. „Það á ekki að setja börn í hólf. Það er aldrei auðvelt fyrir börn að alast upp í kringum alkóhólisma. Og hann er víða.“ Á Grundarfirði á hann enga ættingja en marga vini. „Þetta var bæði gott og slæmt,“ segir hann um uppvaxtarárin.

Barist við NBA-stjörnur

Á sunnudaginn varð ljóst, þegar Ísland lagði Belgíu í undankeppni EM, að liðið væri á leið á annað Evrópumótið í röð. Það er í öllum samanburði frábær árangur fyrir ekki stærra land. Á Evrópumótinu í fyrra atti Ísland kappi við fimm af bestu liðum álfunnar. Þó að leikirnir hafi tapast – flestir með mjög litlum mun – vakti frammistaða liðsins mikla athygli.
Fyrirliðinn fékk oft og tíðum það hlutverk að berjast í teignum við leikmenn sem eiga að baki ótrúlegan feril í NBA-deildinni. Nægir þar að nefna Spánverjann Pau Gasol og Þjóðverjann Dirk Nowitzki, en þeir hafa um árabil verið burðarásar í bestu liðum NBA-deildarinnar.

„Hann hitti alltaf“

Hlynur viðurkennir að það hafi verið sérkennilegt að mæta Nowitzki í fyrsta leik. „Hann er einn af mínum uppáhaldsleikmönnum. Ég lít ekki upp til margra íþróttamanna en hann er einn þeirra. Hann hefur alltaf borið sig svo vel; bæði innan og utan vallar. Það vantar stundum í aðra leikmenn í þessari deild.“

Hann segist hafa horft aðdáunaraugum á Nowitzki setja niður hvert skotið á fætur öðru í upphitun. „Hann hitti alltaf. Ég trúði þessu varla. Ég hafði aldrei spilað við menn í þessum gæðaflokki. Ég man að í upphafi leiks setti hann niður eitt skot yfir okkur Loga [Gunnarsson]. Hann sá okkur varla,“ segir hann hlæjandi. „Þetta var mikil upplifun og ég man að það flaug í gegnum höfuðið á mér að þetta hefði nú þrátt fyrir allt verið pínulítið gaman. Það er svo mikill elegans yfir honum. Á þessari stundu – við þessar aðstæður – var þetta mjög sérstakt,“ segir Hlynur en Íslendingar mættu gestgjöfum Þjóðverja fyrir fullri höll í fyrsta leik mótsins. Þjóðverjar unnu með sex stigum, eftir jafnan leik.
Árangurinn var betri en menn þorðu að vona. „Menn voru að gæla við að við gætum haldið jöfnu í einn og einn hálfleik en eftir mótið hugsaði ég með mér að ef allt hefði gengið upp hefðum við jafnvel getað farið upp úr þessum dauðariðli.“ Hann er mjög stoltur af frammistöðunni.

Enn betra en síðast

Í Laugardalshöll á sunnudag var allt undir. Tap hefði getað þýtt að liðið kæmist ekki á EM, en Belgar voru ósigraðir og öruggir um sæti á EM. Eftir erfiða byrjun gerðu strákarnir áhlaup og náðu að jafna leikinn. Þeir sýndu mátt sinn í síðari hálfleik og léku á als oddi. Sigur varð staðreynd og EM-sætið í höfn. „Þetta var frábær dagur og gott partí eftir á,“ segir hann um sunnudaginn. „Það er allt annað að tryggja sig inn með sigri. Þetta var æðislegt síðast en enn betra núna.“
Hlynur sagði eftir EM í fyrra að ekki væri víst að hann spilaði með landsliðinu áfram. En óvæntir erfiðleikar í Svíþjóð höfðu áhrif á þá ákvörðun. „Ég var búinn að eiga leiðinlegan vetur. Félagið mitt [Sundsvall] úti fór í gjaldþrot og það var mikið vesen. Þetta var orðin eins og venjuleg vinna – reyndar verra en mörg störf.“ Fimm ára samningi var rift og Hlynur gerir ekki ráð fyrir að fá greidd þau laun sem hann hafði unnið sér inn. Þar vantar mikið upp á.

Eftir þessa erfiðleika þyrsti þennan mikla keppnismann í að upplifa aðra undankeppni, með vinum sínum í landsliðinu. Hann segir að það að spila með landsliðinu sé allt öðruvísi upplifun en að spila með félagsliði. Enginn fái borgað og enginn sé þess vegna að hugsa um sjálfan sig. „Í klúbbunum verður þú að sýna góða frammistöðu til að fá næstu vinnu. Menn geta talað eins og þeir vilja um að það skipti öllu máli að vinna leikina en staðreyndin er sú að þú færð ekki annan samning ef þú leggur ekki nógu mikið til liðsins.“

„Ég sakna Svíþjóðar mjög mikið.“

Hann upplifir keppni með landsliðinu sem hreina íþróttamennsku. „Eins og það á að vera.“ Í liðinu séu engir egóistar og allir vinni að sameiginlegu markmiði. „Þegar maður er orðinn þetta gamall þá skiptir þetta mann meira máli,“ segir Hlynur sem er 34 ára.

Gullár landsliðanna

Íslensku landsliðin í stærstu boltaíþróttunum, bæði í karla- og kvennaliðum, hafa náð eftirtektarverðum árangri á umliðnum árum. Handboltastrákarnir hafa farið á hvert stórmótið á fætur öðru og bæði kyn í knattspyrnu hafa verið þátttakendur á Evrópumótum. Nú er körfuboltalandsliðið að fara á sitt annað Evrópumót í röð.

Hvernig er hægt að skýra þennan árangur? Hlynur segist oft hafa verið spurður að þessu úti í Svíþjóð. „Ég veit, eftir að hafa rætt við menn í Svíþjóð, að landsliðið skiptir þá minna máli en mig. Aðalstjörnur Svíþjóðar í körfubolta spila ekki með landsliðinu. Ástæðurnar eru misjafnar en allt annað gengur fyrir. Hjá okkur í íslenska landsliðinu er þetta svo mikilvægt að Jón Arnór [Stefánsson] spilaði ótryggður 2014. Það er einsdæmi. Landsliðið skiptir okkur meira máli og samheldnin verður meiri – allavega samanborið við Svía. Og það skilar sér í árangri.“

Hlynur segir að aðstæður til iðkunar hópíþrótta á Íslandi séu góðar og þjálfun á heildina litið líka. Hann hafi svo sem engar einhlítar skýringar á góðu gengi íslenskra landsliða. „Ég er ánægður og stoltur af landinu mínu en það er fín lína á milli þess og að vera með einhvern þjóðrembing. Mér finnst fátt hallærislegra en að halda að maður sé yfir einhverja aðra hafinn. En ég er stoltur af því sem íslensku landsliðin hafa gert.“ Hann segir að handboltalandsliðið hafi verið brautryðjandi og lagt línuna fyrir önnur landslið. „Þeir eru fyrirmyndir í þessu, enda stefna þeir á verðlaun á hverju móti. Þeirra viðmið eru allt önnur og það er í raun litið á það sem skandal ef þeir komast ekki á stórmót. Við erum góðu vön.“

Hann ber þjálfara landsliðsins, Craig Pedersen, vel söguna. Hann sé algjör „körfuboltaheili“ og fljótur að teikna upp lausnir við leik andstæðinganna. Honum hafi tekist að finna fínt jafnvægi á milli frjáls flæðis í leiks liðsins og uppstilltra leikkerfa. „Hann er mjög yfirvegaður og ég hef ekkert nema gott um hann að segja.“

Hlynur er stoltur af því að hafa snúið við blaðinu og klárað ferilinn með stæl.
Er betri maður Hlynur er stoltur af því að hafa snúið við blaðinu og klárað ferilinn með stæl.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Eftirsjá

Hlynur byrjaði tiltölulega seint að æfa körfubolta, 11 eða 12 ára gamall. Hann féll þó strax fyrir íþróttinni og stóð flestum jafnöldrum sínum framar, bæði getulega og líkamlega. „Ég æfði mjög mikið á unglingsárunum. Ég hefði eiginlega ekki getað gert meira.“ Hann sér hins vegar eftir því að hafa ekki verið með hugann við íþróttina þegar hann varð aðeins eldri. „Frá því ég var um það bil nítján ára æfði ég mjög lítið. Ég kom til dæmis ekki inn í lyftingasal fyrr en ég varð fullorðinn – sem er alveg galið,“ segir hann af eftirsjá. „Ef ég hefði æft betur þá hefði ég getað orðið miklu betri – bara ef ég hefði nýtt þessi ár betur. Ég er viss um að ég hafði hæfileika og getu til að fara miklu lengra en ég hef gert.“

Hlynur, sem er rúmir tveir metrar á hæð, var yfirleitt stærstur í æfingahópunum. Hann segir að það hafi ekki endilega alltaf komið sér vel. „Það er ekkert alltaf gott að vera langstærstur. Ferillinn minn hefði spilast öðruvísi ef ég hefði gengið inn í íþróttasal í Serbíu þar sem voru 300 krakkar. Þá hefði ég ekki verið stærstur og verið látinn æfa aðra hluti.“ Hans hlutskipti er yfirleitt að hafa gætur á stærstu leikmönnum andstæðinganna – sem margir eru miklu hærri og þyngri. Hann bætir við að því fylgi bæði kostir og gallar að alast upp í litlum samfélögum. „Ég fékk að láta ljós mitt skína, sem ég hefði kannski ekki fengið annars staðar.“

Hann sér líka eftir því að hafa hafnað atvinnumannstilboði frá liði í efstu deild á Spáni, þegar hann var 19 ára. „Ég man ekki hvort það var vegna þess að ég þorði ekki eða hvort ég stefndi þá á að fara til Bandaríkjanna í háskóla. En árið eftir spilaði ég með Skallagrími.“ Hann segir að þessi ákvörðun hafi ráðið miklu. „Þegar maður æfir með betri leikmönnum – þó að maður sé ekki að spila mikið – þá verður maður betri sjálfur. Ég hefði átt að fara út fyrr.“

Skrautlegur vetur í Hollandi

Hlynur tók tilboði árið 2005, þá 23 ára, frá hollensku liði, Aris Leeuwarden. „Það var skemmtilegur en skrautlegur tími. Klúbburinn var hræðilega illa rekinn. Ég kann margar glórulausar sögur frá Hollandi,“ segir hann sposkur og er um hæl beðinn um dæmi. „Bara fyrstu nóttina þarna úti þá fór liðsfélagi minn á djammið og læsti sig úti. Hann þorði ekki að hringja í stjórnarmennina á fyrsta degi og biðja þá um aðstoð – fullur. Það endaði þannig að hann svaf fyrir utan húsið sitt fyrstu nóttina.“ Hann segir að mikið hafi vantað upp á agann. Menn hafi mætt illa á morgunæfingar og hafi verið duglegir að skreppa í ferðir hingað og þangað. „Við borðuðum mikið á McDonald’s fyrir leiki. Sem er það versta sem þú getur látið ofan í þig fyrir keppni.“ Greining á andstæðingunum hafi engin verið enda gekk liðinu illa. „Við fengum einu sinni vídeóupptöku af mótherja, sem við áttum að horfa á heima. Það var alveg gagnslaust því leikurinn var frá árinu áður og liðið var hvorki með sama þjálfara né sömu leikmenn,“ segir hann og hlær.

„Ég er ánægður og stoltur af landinu mínu en það er fín lína á milli þess og að vera með einhvern þjóðrembing. Mér finnst fátt hallærislegra en að halda að maður sé yfir einhverja aðra hafinn.“

Hann hafði þó gaman af vetrinum í Hollandi og kynntist þar góðu fólki. Um var að ræða fyrsta tímabil liðsins í efstu deild og að þeir leikmennirnir geti ef til vill litið í eigin barm. Liðið hafi síðan tekið stórstígum framförum.

Kynntist konunni í Stykkishólmi

Við tóku fjögur ár í Stykkishólmi þar sem Hlynur lék með Snæfelli. Liðið varð Íslandsmeistari 2010. „Það var ótrúlega góður endir. Við vorum oft búnir að tapa í úrslitum og það var mjög fullnægjandi að ná loksins að vinna. Þessi tími í Hólminum var frábær,“ segir Hlynur en þar skaut hann rótum á annan hátt en þann sem snýr að körfuboltanum. Hann kynntist þar stúlku, Unni Eddu Davíðsdóttur. Þau eiga saman fjögur börn í dag.

Eftir Íslandsmeistaratitilinn í Hólminum benti landsliðsmaðurinn fyrrverandi, Jakob Sigurðarson, þjálfara sínum í Svíþjóð á Hlyn. Úr varð að Hlyni var boðinn samningur. Síðan eru sex ár liðin. „Þetta var frábær tími,“ segir hann um árin úti. Liðið varð Svíþjóðarmeistari á fyrsta tímabili eftir að Hlynur kom. „Við vorum með góðan hóp og frábæran þjálfara, fyrstu tvö árin. Samfélagið er mjög skemmtilegt og það er þægilegt að búa í Svíþjóð. Ég sakna Svíþjóðar mjög mikið.“

Mér finnst ég ekki æðislegur

Á þessum tímapunkti í viðtalinu gengur eldri maður upp að Hlyni, þar sem við sitjum á kaffihúsi, og óskar honum til hamingju með árangurinn. Hann hafi því miður ekki getað horft á liðið vinna Belga, þar sem hann var erlendis, en í Laugardalshöllinni hefði hann svo sannarlega viljað vera. „Þetta var frábært hjá ykkur,“ segir maðurinn áður en hann kveður.

„Ég finn mjög sterkt að það er mikið stress. Fólk ætti að vara sig á því að halda að grasið sé grænna hinum megin.“

Hlynur hefur aldrei séð hann áður. „Mér finnst þetta ekki auðvelt,“ segir Hlynur um þá athygli sem hann fær fyrir að vera fyrirliði landsliðs sem nær góðum árangri. „Ég reyni mitt besta til að vera góð fyrirmynd en það er alls ekki þannig að allt sem ég geri endurspegli fullkomna fyrirmynd. Þetta er stundum erfitt. Ég næ ekki að venjast þessu.“

Hann segist oft efast um sjálfan sig, að hann sé þess virði að vera fyrirmynd einhvers. „Ég hef staðið mig sæmilega í því að vera fyrirmynd á síðustu árum en ég var það ekki þegar ég var 22 ára.“ Hann prísar sig sælan yfir því að athyglin og árangurinn hafi ekki verið eins góður þá. Hlynur segir að þetta hlutverk virðist henta mörgum íþróttamönnum. Hann hafi hins vegar aldrei átt auðvelt með þetta. „Ég er ekki oft stoppaður úti á götu, en það hefur þó aukist síðustu tvö til þrjú árin,“ segir hann aðspurður. „Það er allt í lagi, þó að mér finnist þetta hálf skrýtið. En þetta á bara ekki við mig. Mér finnst ég ekki svo æðislegur.“ Hann segist þó hafa skilning á því að fólk vilji heilsa upp á hann – og að ungir iðkendur líti upp til hans. „Fólk vill bara vera „nice“. Ég óska fólki sjálfur til hamingju þegar það hefur náð góðum árangri. Þannig að ég kann alveg að meta þetta.“

Hlynur er fluttur heim til Íslands eftir sex ára dvöl í Svíþjóð. Hann segist upplifa það mjög sterkt að hér sé allt á fullu. „Það eru allir að græða og það er afskaplegur hraði í samfélaginu,“ segir hann um samanburðinn á löndunum. Hann hafi þó ekki búið í Stokkhólmi heldur í Norður-Svíþjóð, þar sem hraðinn er kannski minni. „Núna eru allir að elta eitthvað. Ég er svolítið hræddur við það – og maður sogast einhvern veginn inn í það. Ég finn mjög sterkt að það er mikið stress. Fólk ætti að vara sig á því að halda að grasið sé grænna hinum megin.“

Hlynur segist í grunninn vera frjálshyggjusinnaður en að hann hafi þokast nær miðjunni í Svíþjóð. „Heilbrigðiskerfið á að sjálfsögðu að vera fyrir alla. Og börn eiga aldrei að þurfa að líða fyrir eitthvað sem þau hafa ekki stjórn á – eins og fyrir efnahag foreldra sinna eða hegðun þeirra. Öll börn eiga rétt á að fá tækifæri til að blómstra. Hér eiga líka allir að geta notað þá grunnþjónustu sem við sem samfélag stöndum undir.“ Hann segir að það sé glórulaust ef Ísland, með allar þær auðlindir sem landið hefur; fiskinn, vatnið, hreina loftið og túrismann, geti ekki staðið vel að heilbrigðis- og skólamálum. Þá sé eitthvað að. „Hér ætti enginn að líða skort.“

Fjölmenningarsinni

Svíþjóð hefur tekið við hlutfallslega fleiri flóttamönnum en flest önnur ríki. Í umræðunni er stundum talað um reynslu Svía af innflytjendum í neikvæðu ljósi. Hlynur segir að neikvætt umtal um útlendinga sé því miður oft meira áberandi en það jákvæða. Hann telur að útlendingar sem sest hafa að í Svíþjóð hafi auðgað sænskt samfélag. Hann tekur sem dæmi að innflytjendur hafi í sumar tekið á móti dóttur sinni. Með því á hann við að flestir hafi aðlagast samfélaginu vel og bætt það. „Auðvitað skapast stundum vandamál, sérstaklega hefur það gerst í sumum hverfum í Malmö. En það er líka fullt af jákvæðum hlutum.“

Tíminn í Hollandi var á köflum skrautlegur. Leikmenn fengu sér oft McDonald's fyrir keppnisleiki.
Lítill agi Tíminn í Hollandi var á köflum skrautlegur. Leikmenn fengu sér oft McDonald's fyrir keppnisleiki.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hlynur er í grunninn fjölmenningarsinni og telur að þeir sem mest séu mótfallnir innflytjendum séu þeir sem minnst hafi séð af heiminum. „Það er til dæmis lítið um rasisma á meðal íþróttamanna, sem ferðast út um allt. Fólk sem talar verst um útlendinga er minnst í útlöndum sjálft.“ Hlynur vill að við Íslendingar hjálpum þeim sem við getum hjálpað. „Að sjálfsögðu eigum við að taka á móti fólki sem á bágt. Ef við getum hjálpað fleirum þá eigum við að gera það. Að sjálfsögðu geta orðið einhverjir árekstrar, á sama hátt og ef við myndum setjast að í framandi landi. Ég er alltaf hlynntur því sem getur sameinað fólk; hvort sem það er trú eða þjóðerni. Því færri hlutir sem skilja okkur að, því ólíklegra er að við reynum að drepa hvert annað. Ég er frekar fyrir það sem sameinar fólk en sundrar, bæði hvað varðar minni málefni og stærri. Mér finnst það falleg hugsjón að geta farið hvert sem ég vil í heiminum – til að vinna eða ferðast – og að alls staðar sé vel tekið á móti mér.“

Vill kynnast dóttur sinni

En nú er hann kominn heim og segist aldrei hafa verið betri í körfubolta. Hann samdi við Stjörnuna en segir að aðrir kostir hafi staðið honum til boða. Hann hafi fengið fyrirspurnir frá Finnlandi, Danmörku og Sviss, án þess að vera að leita. Með fjögur börn leist honum ekki á að flytja til nýs lands fyrir níu mánaða samning. Hlynur og Unnur eiga níu ára stúlku, sex ára tvíbura (stúlku og strák) og eina nýfædda stúlku. „Mér leist ekki á að flytja frá Svíþjóð til nýs lands fyrir einhvern níu mánaða samning. Ég er svolítið búinn með þann pakka. Fyrir fjölskyldumann er gott að búa í Svíþjóð því kerfið er sniðið að þörfum þínum.“

Hann vonast til þess að geta sinnt börnunum sínum betur nú þegar hann er fluttur heim. Íslensku liðin æfi mun minna en þau sænsku svo tími til annarra hluta verður meiri. „Ég þarf að fara að kynnast yngstu dóttur minni. Ég hef lítið getað verið með henni,“ en Elísabet Edda fæddist í júní. „Í sumar hef ég alltaf verið í bænum en Unnur með börnin fyrir vestan. Það hefur mætt svolítið mikið á henni en vonandi get ég verið meira til staðar í vetur.“

Samningar renna út

Þessi sex manna fjölskylda er að koma sér fyrir í Garðabænum. Hann segir að það sem Stjarnan hafi haft fram að færa hafi heillað hann, þó að lið eins og KR hafi líka komið til greina. Jón Arnór Stefánsson, sá íslenski leikmaður sem lengst hefur náð á erlendri grundu, samdi nýlega við KR en liðið hefur borið höfuð og herðar yfir önnur lið að undanförnu. Hlynur segir aðspurður að það hefði verið skrýtið að ganga líka í raðir KR. „Mér fannst svolítið eins og þá hefði ég verið að velja auðveldu leiðina. Það var alveg faktor.“ Fleira hafi þó komið til, svo sem framtíðarbúseta fjölskyldunnar. Þeim hjónunum líst vel á að ala börnin upp í Garðabæ – þó að samningurinn við Stjörnuna renni auðvitað út eins og samningum hættir til.

Honum finnst það ekki skref niður á við hvað ferilinn áhrærir að koma heim frá Svíþjóð, þó að deildin hér sé ekki eins góð og sú sænska. Að mörgu leyti sé íslenska deildin betri en sú sænska, þó að fjármagnið sé minna. „Hér er sjónvarpsþáttur um deildina, fjölmiðlar eru áhugasamir og landsliðið nær að skapa mikla stemningu. „Ég held, og ég vona, að það sé gaman að spila hér. Við höfum svo margt sem Svíar hafa ekki, þótt þeir séu með sterkari lið.“

Haukur Helgi Pálsson er burðarás í landsliðinu, 24 ára gamall.

Þjálfun orðin betri og framtíðin björt

Í pistli árið 2011 gagnrýndi Hlynur körfuknattleiksþjálfun á Íslandi og sagði að ekki væri nógu mikið lagt upp úr taktík og leikskilningi. Hann segir við DV að mikið hafi breyst til batnaðar. Upp sé komin ný kynslóð af þjálfurum sem hafi nýjar hugmyndir. Hann bendir líka á að erfitt sé að bera aðstæður íslenskra þjálfara meistaraflokksliða saman við þjálfara erlendra liða sem starfi í tveggja til þriggja manna teymum. „Við erum að miklu leyti að standa okkur ágætlega.“ Hann segir að hér vanti kannski þekkinguna til að þjálfa mjög hávaxna leikmenn en það sé alltaf að batna líka.

Hann telur að framtíð íslensks körfuknattleiks sé mjög björt, jafnvel þó að nokkrir lykilmenn í landsliðinu séu komnir vel yfir þrítugt. „Menn halda stundum að þeir séu ómissandi en ég held að hér sé bjart framundan. Haukur Helgi [Pálsson] er þegar orðinn besti maðurinn í landsliðinu og svo höfum við unga stráka eins og Martin [Hermannsson] og Tryggva Snæ [Hlynason],“ segir Hlynur og hann telur að Tryggvi verði frábær leikmaður þó að hann sé nýbyrjaður að æfa. „Ég gæti nefnt fleiri. Elvar Friðriksson er líka ungur eins og Ægir Þór [Steinarsson]“, en Hlynur telur að framlag hans sé stundum vanmetið. „Ég efast um að fólk geri sér grein fyrir hversu mikið Ægir Þór Steinarsson gerir fyrir liðið. Hann byrjar svo margt fyrir okkur á báðum endum vallarins.“ Hann nefnir líka framtíðarlandsliðsmenn sem ekki eru í landsliðshópnum núna, svo sem Ragnar Nathanelsson, Jón Axel Guðmundsson og Kára Jónsson. „Framtíðin er mjög björt.“

Hlynur telur að þeir ungu leikmenn sem taki þátt í EM muni búa að því allan ferilinn. Það sé eitthvað sem þeir eldri í landsliðinu hafi ekki fengið að upplifa á yngri árum.

Líka stoltur

Þótt þessi stóri og stæðilegi Grundfirðingur og landsliðsfyrirliði sjái eftir einu og öðru er hann líka stoltur af því sem hann hefur áorkað. Hann segir að það að leika sinn 100. landsleik á dögunum hafi gert hann mjög stoltan. „Það hefði örugglega engan grunað þetta þegar ég byrjaði að æfa – enda byrjaði ég seint. Það er líka ansi skemmtilegur hópur manna sem hefur náð 100 leikjum.“ Þeirra á meðal eru Teitur Örlygsson og Valur Ingimundarson, leikmenn sem hann leit mjög upp til sem ungur maður.

Hlynur er líka stoltur af því að hafa snúið við blaðinu og byrjað að æfa eins og maður. „Ég hefði alveg getað haldið áfram og gert þetta á hálfum hraða. Ég er stoltur af því að hafa tekið mér tak og klárað ferilinn vel. Ég segi hiklaust að ég er betri leikmaður í dag, 34 ára, en ég var 26 ára. Það er ekki algengt en ég er 100 prósent viss.“

„Ég veit ekki hvar ég væri“

Hlynur hrósar happi yfir því að hafa kynnst konunni sinni og stofnað með henni fjölskyldu. Hann segist ekki vita á hvaða stað hann væri í lífinu ef ekki hefði komið til þess. Fíkn sé sterk í fjölskyldunni. „Ég er í meiri áhættuhópi en næsti maður, maður sem er ekki með þessi gen. Ég hef bæði haft íþróttir og fjölskyldu til að halda mig frá þessu,“ segir hann spurður hvort hann hafi einhvern tímann átt bágt með áfengi. „Ég veit ekki hvar ég væri. Ég er ekkert viss um að ég væri í góðum málum – ég stórefast reyndar um það – ef ekki væri fyrir fjölskylduna og íþróttir.“

„Ég er viss um að ég hafði hæfileika og getu til að fara miklu lengra en ég hef gert.“

Hann heldur áfram. „Maður sér þetta allt í kringum sig. Þegar ég var unglingur var ég kannski aðeins of mikið á djamminu – stundum hefði ég mátt æfa meira í stað þess að fara á ball í Hreðavatnsskála,“ segir hann og hugsar til baka. „Ég vissi alltaf af þessum genum enda er erfitt að fá fleiri víti til varnaðar en ég fékk í æsku.“ Árið 2007 eignaðist hann sitt fyrsta barn og við það urðu ákveðin þáttaskil. „Sem betur fer þá fór maður eftir það sjaldnar út á lífið og reyndi að hugsa aðeins betur um sig. Svo hef ég alltaf haft annan fótinn í Hólminum og hef átt stuðningsnet þar; tengdafjölskylduna. Öll fjölskylda hennar Unnar er þar. Þau hafa reynst mér vel.“

Sér mynstrið í ættinni

Föðurhlutverkið á vel við Hlyn. Eitt af markmiðum hans er að standa sig sem faðir. „Ég hef gaman af börnunum og það gefur mér ótrúlega mikið að vera með þeim; sjá þau vaxa og dafna. Ég er mikill fjölskyldumaður og ég held að það sé að hluta til vegna þess hvernig þetta var með pabba minn. Ég sé alveg mynstrið í minni ætt, þar sem alkóhólisminn er víða. Þegar menn eru ekki fjölskyldumenn þá eru þeir ekki alltaf í góðum málum. Ég hef séð hversu mikilvægt það er að eiga sterka fjölskyldu að.“

Hann segir að sjálfur hafi hann farið á mis við margt, vegna föður síns. „Það er alveg hola fyrir ungling að eiga engan pabba til að tala við. Það er eitthvað sem ég vil veita mínum börnum. Mamma stóð sig vel og allt það en það hefði breytt ýmsu að eiga pabba að; sem hefði verið einhvers konar fyrirmynd. Það vantaði alveg hjá mér. Það hefði verið gott að hafa einhvern heilsteyptan karakter í því, með mömmu. Ég missti af þessu feðgasambandi, sem getur verið svo flott.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Breiðablik hefur áhuga á Benedikt Warén

Breiðablik hefur áhuga á Benedikt Warén
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Fjarvera Hareide í dag vekur athygli – Þorvaldur lætur ekki ná í sig til að ræða framtíðina

Fjarvera Hareide í dag vekur athygli – Þorvaldur lætur ekki ná í sig til að ræða framtíðina
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Rosalegir sautján dagar hjá Arne Slot – Sex erfiðir og áhugaverðir l eikir

Rosalegir sautján dagar hjá Arne Slot – Sex erfiðir og áhugaverðir l eikir
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Segir frá rauðu flaggi í fari Ten Hag – Tóku eftir því þegar þeir hittu hann í byrjun tíma hans hjá United

Segir frá rauðu flaggi í fari Ten Hag – Tóku eftir því þegar þeir hittu hann í byrjun tíma hans hjá United
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Norska undrabarnið ætlar ekki að færa sig nema að honum verði lofaður spiltími

Norska undrabarnið ætlar ekki að færa sig nema að honum verði lofaður spiltími
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Dregið í umspilið í dag – Mikið undir fyrir íslenska landsliðið

Dregið í umspilið í dag – Mikið undir fyrir íslenska landsliðið
433Sport
Í gær

Romano uppljóstrar því hvaða stöðu Amorim vill kaupa í fyrst

Romano uppljóstrar því hvaða stöðu Amorim vill kaupa í fyrst
433Sport
Í gær

Fékk á sig fúkyrðaflaum fyrir klæðnað í jarðarför Liam Payne – Sagan er hins vegar falleg og hreyfir við fólki

Fékk á sig fúkyrðaflaum fyrir klæðnað í jarðarför Liam Payne – Sagan er hins vegar falleg og hreyfir við fólki