fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024

Tónleikaveisla Guns N´ Roses: Íslendingar sungu afmælissönginn fyrir Slash

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 25. júlí 2018 19:00

Ljósmyndir: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Að sjá burðarásana þrjá, Axl Rose, Slash og Duff McKagan, spila saman á ný var eitthvað sem bjartsýnustu Guns N´Roses aðdáendur þorðu ekki að láta sig dreyma um. Hvað þá á Íslandi, á smekkuðum Laugardalsvelli. Í rúma þrjá klukkutíma og í fínu veðri í þokkabót!

 

Óvænt kombakk

Saga Guns N´ Roses er ein sú merkilegasta í rokksögunni. Þeir komu upp úr hármetalnum og urðu nánast yfir nótt að stærsta bandi heims þegar þeir gáfu út Appetite for Destruction. Þetta var vandaðra og betra band en önnur í sama geira, Mötley Crue, Poison, Quireboys og fleiri. Síðan lenti þeim harkalega saman við grunge-rokkið og sérstaklega Nirvana. Slagur þessara tveggja banda var í raun bardagi hugmyndastefna og hármetallinn var á leiðinni út. Engu að síður gáfu Guns N´ Roses út tveggja platna meistaraverkið Use Your Illusion og héldu sínum sessi í rokkheiminum.

En síðan hófst niðurlægingarskeiðið. Enn hef ég ekki hitt neinn sem er tilbúinn að verja Spaghetti Incident og hin langa bið eftir Chinese Democracy varð að mesta brandara rokksins. Brandara sem pönkhljómsveitin The Offspring ætlaði að toppa með því að stela nafninu árið 2003. Upprunalegu meðlimir Guns N´ Roses voru horfnir nema Axl og allir voru búnir að afskrifa bandið.

Not in this lifetime túrinn, sem hófst árið 2016 og hefur gengið sigurför um heiminn, kom öllum að óvörum. Mætti líkja þessu við þegar leikarinn Sylvester Stallone gerði Expandables myndirnar og bæði nýja Rambó og Rocky eftir að flestir voru búnir að afskrifa hann í Hollywood.

Vel merktir

Brain Police opnuðu tónleikana en þegar greinahöfundur mætti á svæðið voru seinna upphitunarbandið, Tyler Bryant & the Shakedown, að ljúka sér af, en það er ungt og blúsað rokkband frá Bandaríkjunum sem fylgir Guns N´ Roses um heiminn. Aðdáendurnir streymdu inn og biðröðin náði upp á Suðurlandsbraut. Hún gekk þó hratt og vel fyrir sig og aðdáendur í feikna góðu skapi, margir í snjáðum og ábyggilega áratugagömlum Guns N´ Roses bolum, leðurjökkum og með rauða tóbaksklúta um höfuðið.

Við blasti risavaxið sviðið sem stóð eins og skrímsli á öðrum enda vallarins með þremur risaskjáum. Barir og matsölustaðir út um allt og bæði stæðið og stúkurnar fylltust smám saman. Ölvun var nokkur, sérstaklega hjá eldri kynslóðinni, en gæsla mikil og lögreglan vel sýnileg.

Um klukkan átta rúllaði svo myndband af vígalegum skriðdreka og Laugardalsvöllur beið með öndina í hálsinum eftir að aðalnúmer kvöldsins stigi á svið.

 

Gítarsólóið lifir

Hljómsveitin byrjaði á tveimur öruggum slögurum af Appetite for Destruction, It´s So Easy og Mr. Brownstone. Þá voru aðdáendur komnir í svo góðan gír að titillag Chinese Democracy hljómaði meira að segja vel. Axl var ekki mikið að tala milli laga heldur var prógrammið keyrt í gegn, enda þurfti að koma 32 lögum að.

Axl kann þá list að halda fólki í stuði og líkt og góðum frontmanni sæmir veifaði hann, benti og brosti til einstakra áhorfanda. Hann er líka prótótýpan af rokkstjörnu sem skiptir reglulega um leðurjakka, hatta og slæður. Viðvera Axl Rose er sjónarspil út af fyrir sig.

Hitinn og þunginn af tónleikunum sjálfum féll hins vegar á Slash, sem hefur sennilega verið í sömu fötum síðan árið 1985. Slash afsannaði það að gítarsólóið sé dautt listform og stóran hluta af tónleikunum var hann að leika sér og áhorfendur að meðtaka. Þetta hefur verið mikil manndómsvígsla fyrir yngra fólkið og reynt á athygli þeirra en mikið óskaplega kunnu þeir af eldri kynslóðinni að meta þetta. Gítarsólóið er nefnilega hornsteinn rokks og róls.

Ó nei!

Guns N´ Roses komu öllum sínum slögurum fyrir í prógramminu, meira að segja þeim lengstu af Use Your Illusion, Estranged, Coma og November Rain. Salurinn kunni þó best við hittarana af Appetite for Destruction, Welcome to the Jungle, Sweet Child O´Mine og Paradise City.

Í eitt skipti tók salurinn andköf því að eftir flutning á Yesterdays bað Axl áhorfendur um að hjálpa sér.

Ó nei…..

Voru þeir að fara að gera þetta?…….

Voru þeir að fara að taka fjandans víkingaklappið?…..

Það mátti heyra saumnál detta.

En til allrar hamingju þá var Axl bara að biðja fólk um að syngja afmælissönginn fyrir Slash sem hafði orðið 53 ára gamall deginum áður og vitaskuld sungu allir fyrir hann. Engu að síður vofði draugur víkingaklappsins yfir öllum tónleikunum en sem betur fer voru þeir of kúl fyrir það.

Hrokaleysi

Tónleikarnir voru sannkölluð tónlistarveisla og ábreiður spilaðar sem manni hefði ekki órað fyrir að myndu hljóma. Country lagið Witchita Linesman, Wish You Were Here eftir Pink Floyd, Black Hole Sun eftir Soundgarden, pönklagið Attitude eftir Misfits og The Who slagarinn The Seeker í uppklappi. Þetta ber merki um hrokaleysi og virðingu fyrir tónlistarsögunni, sem maður hefði ekki búist við eftir að hafa lesið öll viðtölin við Axl og félaga í gegnum tíðina þar sem þeir rifu kjaft við allt og alla.

Úthaldið er einnig aðdáunarvert. Eftir rúma þrjá klukkutíma var undirritaður algjörlega farinn í bakinu á að standa og horfa. En þeir, hálf sextugir mennirnir, hlaupandi um, stökkvandi og syngjandi úr sér lungun

Ég á ekki von á því að sjá neitt í líkingu við þetta nokkurn tímann aftur á Íslandi. Þetta var stadium-rock veisla, með sprengingum, flugeldum, sjö manna vel stilltri hersveit sem kláraði vopnabúr sitt yfir Laugardalsvöll. Og flestir fóru hálfhaltir en brosandi út af vellinum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember
Pressan
Fyrir 7 klukkutímum

Maðurinn sem sviðsetti dauða sinn og yfirgaf konu og börn vill ekki segja hvar í Evrópu hann er

Maðurinn sem sviðsetti dauða sinn og yfirgaf konu og börn vill ekki segja hvar í Evrópu hann er
Eyjan
Fyrir 10 klukkutímum

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Breiðablik staðfestir komu Valgeirs

Breiðablik staðfestir komu Valgeirs
Eyjan
Fyrir 12 klukkutímum

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?
Fókus
Fyrir 12 klukkutímum

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2