fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fókus

Ólafur Símon smíðar örsmáar fígúrur sem hafa vakið heimsathygli – „Konan segir að ég sé eins og górilla að gera skurðaðgerð á mýflugu“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 28. júlí 2018 08:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ólafur Símon Ólafsson er vígalegur útlits, sannkallaður víkingur, sem hefur það að aðalstarfi að elda mat handa gestum Sigló Hótel og Hannes Boy á Siglufirði. Í frítímanum situr hann í kjallaranum á heimili sínu og smíðar örsmáar fígúrur, sem vakið hafa heimsathygli og af og til semur hann ljóð. Það má því með sanni segja að Óli Símon sé skapandi frá morgni til kvölds.

Óli Símon er fæddur og uppalinn á Siglufirði, kominn af listafólki og hefur alltaf teiknað og málað. Hann lærði myndmennt og sótti kvöldskóla hjá Örlygi Kristfinnssyni. Síðan flutti hann til Reykjavíkur og  lærði heilbrigðis-, iðnaðar- og vélaverkfræði sem hann lauk þó ekki. „Ég ætla ekki að klára af því ég nenni ekki að sitja á skrifstofu og reikna út föll, þótt ég eigi auðvelt með það. Ég þrífst ekki nema vera að gera eitthvað í höndunum.“

Það var fréttamiðillinn Trölli.is á Siglufirði sem vakti fyrst athygli á þessu grúski Ólafs í kjallaranum. En hvað er það sem Óli Símon er að grúska í kjallaranum? Jú, þar smíðar hann fíngerðar fígúrur, oftast frá grunni, módel sem aðdáendur Nexus-búðarinnar og Warhammer ættu að kannast vel við. „Þetta er herkænskuspil sem heitir Warhammer 40.000 og á einmitt að gerast árið 40.000,“ segir Óli Símon. Heilmikil fræði eru á bak við spilið eins og oft vill verða, fígúrur, bækur, heimasíða svo fátt sé nefnt.

Fígúrurnar eru stríðsmenn, sem kallast Orkar. „Þeir eru brútal gaurar sem smíða alls kyns tæki og tól úr engu, peningarnir þeirra eru tennur andstæðinganna, „súper grotesk“ víkingar, eini tilgangur þeirra er stríð, þeir bara verða að berjast, og sá sem er búinn að slást mest, hann er stærstur og sterkastur og ræður. Þannig er þeirra samfélag.“

Óli Símon býr langflest módelin til sjálfur, oft með því að nota ýmsa hluti úr hinum og þessum ósamsettu módelum, sem hann breytir og bætir á ýmsa vegu, og sumt smíðar hann alveg frá grunni. Það tekur hann 40–100 klukkustundir að smíða hvert módel. Nýlega keypti hann Volkswagen-dótabíl á Aliexpress og setti á hann byssur og alls kyns hernaðardót til að hann félli inn í Warhammer-samfélagið, en þar gilda strangar reglur um hvað má og hvað ekki varðandi magn og gerð vopna og búnaðar. Málningarvinnan er líka stór og mikilvægur þáttur og sem dæmi málar hann hlutina með penslum sem sumir ná ekki nema einum tíunda úr millimetra í breidd. Óli Símon notar líka leir, gítarstrengi, þykkan pappír og allt mögulegt í módelin.

 

Í versluninni Nexus í Nóatúni má sjá módel Óla Símonar, en verslunin er styrktaraðili hans. „Við Gísli og Júlli, eigendur Nexus, erum góðir vinir. Ég eldaði matinn í öllum stórafmælum Gísla, brúðkaupi Júlla, mála svo módel fyrir þá og jú, flísalagði baðherbergið í Nexus og líka heima hjá þeim. Eitthvað verður maður að gera við tímann,“ segir Óli Símon og hlær. Þegar blaðamaður andvarpar yfir vinnugleði Óla Símonar og spyr hvort hann búi yfir fleiri tímum í sólarhringnum en aðrir, svarar hann kankvís: „Ofvirkir sofa lítið.“

Það var kona Óla Símonar, Guðrún Helga Kjartansdóttir, sem hvatti hann til að að gera Instagram-síðu, „og segja já við svona umfjöllun ef til þess kæmi,“ segir hann. „Ég vildi bara hafa þetta allt út af fyrir mig, en er ánægður með það núna að ég hlustaði á hana, sem ég geri nú alltaf og hún á mig. Við erum alveg jin og jang.“

Á Instagramsíðunni er Óli Símon þegar kominn með 5.600 fylgjendur sem telst nokkuð gott, miðað við hve viðfangsefnið er sérhæft. Warhammer Official Instagram síðan er til samanburðar með 52 þúsund fylgjendur. Einnig var nýlega umfjöllun um Óla Símon hjá Warhammer Official, sem kallast „Hobbyist Focus,“ sem gæti útlagst sem Fókus á áhugamanninn og þykir mikil viðurkenning að fá slíka umfjöllun.

Þau hjónin fluttu á Siglufjörð til að prófa, keyptu hús, sem þau gjörsamlega endurgerðu að sögn Óla Símonar og eru bara í skýjunum. „Það er svo rólegt og gott á Sigló að maður hefur mikinn tíma fyrir sjálfan sig sem færi í ys og þys í borginni, ég bjó þar í 16 ár. Ég endaði sem kokkur á Sigló eins og pabbi sálugi, hver hefði trúað því fyrir 25 árum!

Þú verður að skella þér á Siglufjörð, helst um hávetur, yndislegt í hríðarbyl og líka í kyrrðinni á fallegri vetrarnótt,“ segir Óli Símon við blaðamann DV. Greinilega góður tími á fallegum stað til að dunda sér við einstakt handverk.

Yrkir ljóð byggð á eigin reynslu

Óli Símon yrkir einnig ljóð, sem spottin eru af reynslu hans og segist hann stundum yrkja til að losa um innri spennu. „Ég er frummaður með stórt hjarta,“ segir Óli Símon. Frumflutti hann nokkur ljóð laugardaginn 21. júlí síðastliðinn í Ljóðasetri Íslands á Siglufirði.

á myrkum vetri mara liggur
mennina hún brýtur
sært og opið sjálfið liggur
stoltið góða þrýtur

gef’mér styrk í gegnum daginn
get ei sjálfur barist
vil ei vera vondi gæjinn
vonin hefur farist

biðla ég til bestu vina
berjið ei á mér
bakvið þykka brynju lina
bíð ég eftir þér

í veikum mætti vil ég rísa
verja tilvist þína
viltu grýttan veginn lýsa
vernda sálu mína

Ljóð sem Óli Símon samdi til eiginkonunnar. „Mér þykir voða vænt um það. Hún er allavega alltaf skotin í mér, þannig að ég hlýt að vera að gera eitthvað rétt.“
Hér er líkan sem Óli Símon smíðaði, á móti þetta gula og svo fullmálað.

Metallinn ræður ríkjum við módelsmíðina. „Sumir vilja hafa frið og ró þegar þeir eru að einbeita sér, en hér er það metallinn sem gildir!“
„Ég ætla að gá hvort konan eigi myndir af mér í kokkagallanum, hún á allar eðlilegu myndirnar af mér, ég á bara þær þar sem ég er ekki til friðs sem er samt oftast,“ segir Óli Símon þegar blaðamaður falaðist eftir mynd af honum í daglega starfinu.

Facebooksíða Óla Símons.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Guðrún gaf Helga Jean súludans í afmælisgjöf – Allir stoppuðu og horfðu

Guðrún gaf Helga Jean súludans í afmælisgjöf – Allir stoppuðu og horfðu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Svava Kristín lenti í slysi á unglingsaldri – „Ég get ekki orðið hlaupari en ég get gert margt annað“

Svava Kristín lenti í slysi á unglingsaldri – „Ég get ekki orðið hlaupari en ég get gert margt annað“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hefur enn ekki leyft börnum sínum að horfa á Home Alone

Hefur enn ekki leyft börnum sínum að horfa á Home Alone