iPhone ljósmyndaverðlaunin (IPPAAWARDS) voru afhent þann 18. júlí síðastliðinn og er það í 11. sinn. Sigurvegarar í ár voru valdir úr þúsundum innsendra mynda frá yfir 140 löndum og voru flokkar vinningsmynda 18 talsins. Myndirnar mátti taka með iPhone eða iPad, ekki var heimilt að breyta þeim með filterum eða Photoshop.
Aðalverðlaunin í ár hlýtur Jashim Salam frá Bangladesh. Myndin sýnir hóp Róhingja flóttamanna í búðum í Bangladesh sem horfa á eitthvað rétt fyrir utan myndarammann, kvikmynd um heilsu og hreinlæti.
Sigurvegarar fyrir fyrstu, önnur og þriðju verðlaun voru Alexandre Weber frá Sviss fyrir mynd af Baiana brasilískri konu, Huapeng Zhao frá Kína fyrir myndina Auga fyrir auga og Zarni Myo Win frá Mjanmar fyrir myndina Ég vil leika.
Fyrstu, önnur og þriðju verðlaun í flokkunum 18 eru veitt til ljósmyndara um allan heim, meðal annars Argentínu, Ástralíu, Bandaríkjunum, Brasilíu, Bretlandi, Ekvadór, Filipseyjum, Finnlandi, Frakklandi, Írak, Írlandi, Ítalíu, Kanada, Kína, Líbanon, Mjanmar, Oman, Póllandi, Rúmeníu, Rússlandi, Singapúr, Spáni, Sýrlandi, Sviss, Taiwan, Tyrklandi og Úkraínu.
Stofnandi IPPAAWARDS Kenan Aktulun segir „Notendur iPhone eru orðnir virkilega góðir í sjónrænum sögum. Myndirnar í ár eru tæknilega áhrifamiklar og margar þeirra eru mjög persónulegar.“
Sjá má fleiri myndir á heimasíðu IPPAAWARDS.