Um 40 svartþrestir drápust
Tugir fugla féllu af himni og drápust í útverfi Boston í Bandaríkjunum á fimmtudag. Þá drapst að minnsta kosti einn köttur á sama svæði auk þess sem annar veiktist heiftarlega. Enginn virðist vita með fullkominni vissu hvað nákvæmlega gerðist.
Boston Globe fjallaði um þennan óvenjulega atburð á vef sínum í morgun. Þar segir að íbúi í Dorchester hafi haft samband við dýraverndaryfirvöld eftir að kötturinn hennar veiktist skyndilega. Hann lá ósjálfbjarga úti á götu og fjölmargir fuglar lágu skammt frá kettinum. Þegar starfsmenn dýraverndar borgarinnar komu á vettvang féllu fuglar af himni og úr trjám í nágrenninu. Allt í allt er talið að hátt í 50 fuglar hafi veikst og þar af drápust um 40.
Borgaryfirvöld rannsaka nú málið og beinist hún meðal annars að því hvort mengun á svæðinu eigi hlut að máli, eitrað hafi verið fyrir dýrunum eða hvort vírus sé um að kenna. Fuglarnir sem drápust voru svartþrestir en aðrir fuglar á svæðinu virðast ekki hafa veikst.
Ekki er talin ástæða fyrir fólk á svæðinu til að hafa áhyggjur, en íbúar eru þó hvattir til að fylgjast með og tilkynna strax til yfirvalda ef sambærilegt tilvik kemur aftur upp.