Oft koma sterkir pakkar í ódýrum umbúðum. Frá leikstjóranum sem tók upp hina frábæru Tangerine á iPhone-símann sinn kemur vönduð og hreinskilin túlkun á fátækt í Bandaríkjunum. The Florida Project segir frá mæðgum í erfiðum aðstæðum og er sagan sögð frá sjónarhorni sex ára stelpu að nafni Moonee.
Áhorfandinn er gerður að flugu á vegg á meðan trúverðugleikinn og tilgerðarleysið tröllríður öllu. Enginn fiðluleikur er til staðar og hvergi melódrama í augsýn. Þvert á móti kemur á óvart hversu hress og fyndin útkoman er, að vísu þangað til blákaldur veruleiki aðstæðna ýtir sögunni í myrkari og átakanlegri áttir.
Úrvinnslan er hins vegar fagleg út í gegn og leikur krakkanna í myndinni er til hreinnar fyrirmyndar. Moonee er æðisleg persóna og einnig vinnur Willem Dafoe virkilega vel úr aukahlutverkinu sem tryggði honum Óskarstilnefningu fyrr á þessu ári. Þegar á botninn er hvolft er hér á ferð frábær mynd sem sýnir að sumir foreldrar læra seint af fyrri aðstæðum og á stórfínan máta er varpað upp spurningum úr hinu daglega lífi: Hvers eiga til dæmis börnin að að gjalda fyrir akvarðanir foreldranna og hvar er línan dregin?