Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, veitti Piu Kjærsgaard, forseta danska Þjóðarþingsins stórkross hinnar íslensku fálkaorðu þegar hann fór í opinbera heimsókn til Danmerkur í fyrra. Þetta kemur fram á heimasíðu forsetaembættisins.
Kjærsgaard sem er fyrrverandi formaður og stofnandi Danska þjóðarflokksins var gestur á hátíðarþingfundi Alþingis á Þingvöllum í gær. Komu Piu hefur verið harðlega mótmælt vegna afstöðu hennar til innflytjenda. Til marks um það sniðgekk þingflokkur Pírata fundinn. Þá yfirgaf Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, fundinn þegar Kjærsgaard hélt ræðu.
Guðni veitti Piu orðuna í janúar á síðasta ári í tilefni af opinberri heimsókn forsetans til Danmerkur. Fálkaorðan er oftast veitt samkvæmt tillögu orðunefndar en þó getur forseti veitt orðuna án aðkomu hennar.