Aurelio De Laurentiis, forseti Napoli, var ákveðinn í því að selja miðjumanninn Jorginho til Chelsea í sumar.
Jorginho gekk í raðir Chelsea frá Napoli í gær en hann kostar enska félagið 53 milljónir punda.
Manchester City var lengi talið vera að tryggja sér leikmanninn fyrir 44 milljónir punda og hafði náð samkomulagi við Napoli.
De Laurentiis sagði Jorginho hins vegar að hann þyrfti að fara til Chelsea eftir að betra boð hafði borist í miðjumanninn.
De Laurentiis fór svo langt og hótaði Jorginho því að hann þyrfti annars að klára samninginn sinn á Ítalíu en hann átti tvö ár eftir.
Þessi litríki forseti hefur oft komist í fréttirnar fyrir svipuð mál en hann pælir mikið í smáatriðum og gerir allt til þess að græða peninga.