fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fókus

Halldór Blöndal vann á sumrin í hvalstöðinni: „Skrýtið hvernig staðið var að banninu á sínum tíma og mér fundust rökin fyrir því ekki standast“

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 15. júlí 2018 11:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Halldór Blöndal var lengi vel einn af mest áberandi stjórnmálamönnum landsins. Hann var landbúnaðar- og samgönguráðherra í fjögur ár, síðan samgönguráðherra í önnur fjögur ár og þingforseti í sex. Hann var þekktur fyrir sitt alþýðlega fas, hagmælsku en gat einnig verið beittur þegar á þurfti að halda. Kristinn ræddi við Halldór um uppvaxtarárin, árin í hvalstöðinni, stjórnmálin og hvað hann hefur verið að bralla síðan þingmennskunni lauk.

Þetta er brot úr stærra viðtali í DV

 

Saga hvalveiða við Íslandsstrendur nær langt aftur í aldir en lengst af voru það útlendingar sem sáu um stórhvalaveiðar. Þessar veiðar voru bannaðar árið 1913 en leyfðar á ný á fjórða áratugnum en voru þá í höndum Íslendinga sjálfra. Í upphafi gengu veiðarnar illa en á sjötta áratugnum hófst gullöld íslenskra hvalveiða. Það var einmitt á þeim tíma sem Halldór hóf að starfa í Hvalstöðinni.

Fyrsta vertíðin sem Halldór fór á var árið 1954 en þá var hann aðeins fimmtán ára gamall vinsugutti. Alls fór hann á fjórtán vertíðir næstu tuttugu árin, þekkti öll störf á planinu og var flensari mörg síðustu árin.

„Ég varð reynslunni ríkari og myndi segja að ég hafi orðið að manni í hvalstöðinni. Þetta var erfiðisvinna unnin á vöktum og auðvitað mismikið eftir því sem veiddist. En við vildum vinna mikið. – við vorum komnir þangað til að þéna peninga. Það var mikið upp úr þessu að hafa.“

Halldór segir að þess hafi verið gætt að afurðirnar nýttust sem best. Þess vegna máttu bátarnir ekki koma inn nema með tvær langreyðar í einu og ef ég man rétt urðu bátarnir að koma í land innan 20 tíma frá því þær voru skotnar.Fyrstu árin var megnið af kjötinu selt sem hundafóður til Bretlands nema af minnstu hvölunum. Af þeim voru bestu bitarnir teknir og seldir hér heima. Þetta kjöt þótti herramannsmatur og seldist jafnharðan. Síðan bönnuðu Englendingar innflutning á hvalafurðum en þá fundust markaðir í Japan.

„Japanir sendu menn upp hingað til að kenna okkur verkun og meðhöndlun á hvalkjötinu. Þeir nýttu hvalinn miklu betur en við. Það er til marks um það að aftasti bitinn á hvalnum aftur við sporðinn er kallaður „tail-meat“ og Japönum þykir hann því betri sem hann er feitari svo að lýsið rennur úr honum. Við Íslendingarnir vildum ekki sjá hann og fleygðum honum í pottana. Sagt var að kílóið af „tail-meati“ kosti jafnmikið og lítri af wisky , – það skildum við. Og merkilegt nokk! „Tail-meat“ er mjög gott hrátt og borðað með HP-sósu. Svo borða Japanir hvalgarnir. Ekki treysti ég mér til að velja þær, en einhvern tíma gátum við flensararnir ekki stillt okkur um að smakka á þeim, – stungum þeim ofan í fötu og suðum á planinu. Og þær smökkuðust vel, líkastar kjúkling.“

Á 8. áratugnum fóru gagnrýnisraddir að verða háværar gegn hvalveiðum og lauk því með banni árið 1986. Halldór hefur lengi verið einn af dyggustu stuðningsmönnum þess að hvalveiðar séu leyfðar og segir að það verði alltaf til þeir sem séu á móti.

„Auðvitað veltum við vögnum yfir því hvort eða hversu lengi hvalveiðar yrðu leyfðar hér. Það var mjög skrýtið hvernig staðið var að banninu á sínum tíma og mér fundust rökin fyrir því ekki standast. En ég er mjög fylgjandi því að fylgst sé með hvalastofnunum, rétt eins og fiskstofnunum, og að þá sé horft til langs tíma. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það þrengist um þá sem veiða hval hér við land, hvort sem það er hrefna eða stórhveli.“

Getur orðið sátt um veiðarnar og geta þær verið arðbærar?

„Þær eru arðbærar, annars væru menn ekki að standa í þessu. Það eru hins vegar nógir til að ófrægja hvalveiðar. Og svo hafa aðstæður breyst. Hvalaskoðun er orðin öflug atvinnugrein og hefur sums staðar komið í stað þorskveiða eins og á Hauganesi við Eyjafjörð. Ég beitti mér fyrir að hrefnuveiðar yrðu bannaðar í Eyjafirði og fékk bágt fyrir hjá ágætum hrefnuveiðimanni, góðum vini mínum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir