Halldór er af hinni þekktu Engeyingaætt í móðurlegg. Móðir hans var Kristjana Benediktsdóttir, systir Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra úr Viðreisnarstjórninni. Faðir hans var Lárus Blöndal, bókavörður Landsbókasafnsins. Hann er alinn upp í Reykjavík, á Laugavegi 66, sem var eitt af óðulum Engeyinga eftir að þeir fluttu í land. Halldór segir:
„Þann 6. apríl árið 1906 strandaði þilskipið Ingvar frá Þingeyri á skerjunum milli Viðeyjar og Skerjaness í ofsaveðri og 20 manns létust. Tyrfingur sem stýrði bátnum var bróðir Bjarna Magnússonar sem ég kallaði afa minn. Slysið hafði svo mikil áhrif á Engeyinga að þeir fluttu í land og langamma mín, Ragnhildur Ólafsdóttir, keypti bæði Laugaveg 18 og 66 þar sem hún var með fjós. Ég var alinn upp í þeim fjölskyldugarði sem þar var.“
Þetta var mikið menningarheimili og íslenskuheimili og ekki að furða að Halldór sé hagyrðingur. Lárus var magister í íslensku og hlaut meðal annars fálkaorðuna fyrir störf sín og móðurafi Halldórs, Benedikt Sveinsson, gaf út Íslendingasögurnar. Halldór segist sjálfsagt hafa verið ágætisdrengur en ekki var hann hneigður til skólagöngu.
„Þegar ég fór í menntaskólann þá féll ég í þriðja bekk hér syðra og móðir mín dó þá um veturinn. Amma mín, Guðrún Pétursdóttir, taldi að skólastjórinn, Þórarinn Björnsson skólameistari á Akureyri, gæti komið mér til manns og þess vegna var ég sendur norður.“
Það hefur verið mikið áfall fyrir ungan dreng?
„Já, þú getur rétt ímyndað þér,“ segir Halldór. „Það er auðvitað mikið áfall að missa móður sína, það þarf ekkert að ræða það. Hún átti fimm börn og það yngsta barnungt sem var mjög sárt. Móðir mín var lengi veik af krabbameini. Það var tekið af henni brjóstið og okkur var gefin von um að það hefði komist fyrir krabbann en síðan tók hann sig upp aftur og þá réðist ekki neitt við neitt.“
Hafði þetta áhrif á þína skólagöngu?
„Ég ætla nú ekkert að kenna því um, ég bara stóð mig ekki nógu vel. Ég var ungur en fékk mér í staupinu, lærði ekki og var að spekúlera í öðrum hlutum. En ég var ekkert að hugsa um hvað ég hvað ég vildi verða í framtíðinni.“
Námsárangurinn batnaði ekki fyrir norðan en hann minnist þeirra ára hins vegar með hlýju. Þar kynntist hann góðum vinum og Renötu Kristjánsdóttur, fyrrverandi eiginkonu sinni, sem hann eignaðist tvær dætur með en þau skildu árið 1967.
Halldór hafði ungur áhuga á stjórnmálum og á sinni skólagöngu tók hann virkan þátt í málfundum. Stjórnmálaþátttakan hófst þó ekki hjá Sjálfstæðisflokknum heldur Þjóðvarnarflokknum, sem var klofningsflokkur út úr Sósíalistaflokknum og sérstaklega beint gegn herstöðinni í Keflavík. Hann var þá aðeins fimmtán ára gamall. Halldórs minnist þess með bros á vör:
„Eldri bræður okkar Ragnars Arnalds voru þá að stofna Bandalag ungra þjóðvarnarmanna og slagur var um formanninn. Þeir báðu okkur Ragnar að skrá okkur til að veita þeirra manni stuðning. Þetta endaði á því að við sátum stofnfund Þjóðvarnarflokksins en lengra náði sú saga ekki því að ég var ekki á móti varnarliðinu, ég gerði þetta fyrir stóra bróður.“
Halldór og Ragnar voru skólabræður í Laugarnesskólanum og þar stofnuðu þeir stjórnmálaklúbb með Styrmi Gunnarssyni, Magnúsi Jónssyni og Jóni Baldvini Hannibalssyni. Þeir héldu fundi og deildu um pólitík og bókmenntir.
„Það eru enn þá til gamlar fundargerðir frá þessum árum. Þessi hópur hefur haldið saman allar götur síðan en Magnús er látinn. Þetta er samrýmdur hópur.“
Saga hvalveiða við Íslandsstrendur nær langt aftur í aldir en lengst af voru það útlendingar sem sáu um stórhvalaveiðar. Þessar veiðar voru bannaðar árið 1913 en leyfðar á ný á fjórða áratugnum en voru þá í höndum Íslendinga sjálfra. Í upphafi gengu veiðarnar illa en á sjötta áratugnum hófst gullöld íslenskra hvalveiða. Það var einmitt á þeim tíma sem Halldór hóf að starfa í Hvalfjarðarstöðinni.
Fyrsta vertíðin sem Halldór fór á var árið 1954 en þá var hann aðeins fimmtán ára gamall vinsugutti. Alls fór hann á fjórtán vertíðir næstu tuttugu árin og síðustu árin starfaði hann sem hvalskurðarmaður og flensari.
„Ég varð reynslunni ríkari og myndi segja að ég hafi orðið að manni í hvalstöðinni þar sem ég kynntist flestum hliðum vinnslunnar. Þetta var erfiðisvinna unnin á vöktum og mismikið eftir feng. En við vildum vinna mikið og við vorum komnir þangað til að þéna peninga. Það var töluvert upp úr þessu að hafa.“
Halldór segir að passað hafi verið upp á að allt kjöt nýttist til manneldis en í upphafi hafi grófasta kjötið hins vegar verið flutt út til Englands sem hundamatur. Til að halda gæðum afurðanna hafi það sem bátarnir máttu veiða verið takmarkað. Það kjöt sem selt var á heimamarkaði var fíngert og af smáum hval, mjög vinsælt og seldist alltaf upp.
Síðustu árin var kjötið flutt til Japan og Japanir komu í stöðina til að kenna verkun.
„Þá lærðum við að verka og borða hvalgarnir, soðnar í fötu. Þær voru ágætar á bragðið, minntu á kjúkling. Þeir kenndu okkur einnig að verka partinn aftur við sporðinn, sem er nú ekki góður nema maður láti lýsið leka úr. Japanarnir kenndu okkur að borða þetta hrátt með HP sósu sem var mjög gott. Þeir nýta allt af skepnunni.“
Á áttunda áratugnum fóru gagnrýnisraddir gegn hvalveiðum að verða háværar og lauk því með banni árið 1986. Halldór hefur lengi verið einn af dyggustu stuðningsmönnum þess að hvalveiðar séu leyfðar og segir að það verði alltaf til þeir sem séu á móti.
„Við veltum vöngum yfir því hversu lengi hvalveiðar yrðu leyfðar hér. Það var mjög skrýtið hvernig staðið var að banninu á sínum tíma og rökin ekki fyrir því. En ég er mjög fylgjandi því að fylgst sé með hvalastofnunum, rétt eins og fiskistofnunum, út frá langtímasjónarmiðum. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það þrengist um þá sem veiða hval hér við land, hvort sem það er hrefna eða stórhveli.“
Getur orðið sátt um veiðarnar og geta þær verið arðbærar?
„Þær eru arðbærar, annars væru menn ekki að standa í þessu. Það er hins vegar hópur sem gerir allt í sínu valdi til að ófrægja hvalveiðar. Svo er tvískinnungur í þessu. Erum við ekki frumbyggjar og veiðarnar þá frumbyggjaveiðar? Eða eru þeir bara til í Ameríku?“
Á þessum árum starfaði Halldór við ýmislegt. Hann var kennari, vann við endurskoðun og var blaðamaður hjá Morgunblaðinu. Hjá Morgunblaðinu sat hann sinn fyrsta þingflokksfund Sjálfstæðisflokksins árð 1961 hjá Ólafi Thors og hefur hann setið á öllum þingum síðan ef undanskilið er árið 1978.
Núverandi eiginkonu sinni, Kristrúnu Eymundsdóttur sem þá var kennari í Verzlunarskólanum, giftist hann árið 1969 en hann hafði þekkt hana frá barnæsku þar sem hún bjó einnig á Laugaveginum. Tveimur árum síðar eignuðust þau saman son.
Árið 1971 var hann beðinn um að gefa kost á sér til Alþingiskosninga og varð hann við því. Allan áttunda áratuginn var hann varaþingmaður og kom inn flest þing. Hann var mjög nálægt því að vera kjörinn árið 1974 og loks landskjörinn árið 1979. Halldór sat fyrir Norðurlandskjördæmi eystra og sætinu sleppti hann ekki fyrr en árið 2007.
Halldór gegndi ýmsum stöðum á þingi og sat í Evrópuráði. Þegar Davíð Oddsson myndaði Viðeyjarstjórnina með Jóni Baldvini varð Halldór landbúnaðar og samgönguráðherra. Í stjórn Davíðs og Halldórs Ásgrímssonar missti Halldór landbúnaðarráðuneytið en hélt samgöngumálunum og þar varð hann mjög áberandi enda voru stór mál í deiglunni. Landið var að netvæðast, Póstur og sími aðskildir og göngin undir Hvalfjörð opnuð.
Hverju ertu stoltastur af?
„Af mörgum málum sem ég kom að er ég stoltastur af Háskólanum á Akureyri en það var mjög erfiður róður. Ég var yfir háskólanefndinni og Sverrir Hermannsson var þá menntamálaráðherra. Sverrir vildi að sjávarútvegsfræði yrði kennd fyrir norðan, við gerðum okkur grein fyrir að viðskiptafræði yrði að vera kennd og svo vildi Gauti Arnþórsson læknir að hjúkrunarfræðideild yrði stofnuð. Við börðumst fyrir þessu en andstaðan var mikil. Sem dæmi líkti einn þingmaður Alþýðuflokksins skólanum við minkabú. Það var á síðasta snúningi við gerð fjárlaga sem ég náði að koma þessu í gegn eftir samtal við þáverandi fjármálaráðherra, Þorstein Pálsson, í anddyri þingflokksherbergisins.“
Af öðrum málum sem Halldór er ánægðastur með eru Ólafsfjarðargöngin sem einnig stóðu knappt því Framsóknarmenn voru á móti en þau voru kláruð vorið 1991. Önnur og þekktari göng voru opnuð í tíð Halldórs sem samgönguráðherra, Hvalfjarðargöngin. En síðastliðin miðvikudag voru nákvæmlega tuttugu ár síðan þau voru opnuð fyrir bílaumferð. Halldór gangsetti síðustu sprenginguna og keyrði fyrstur í gegn.
„Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi samgönguráðherra, hafði náð í gegn lögum um einkaframkvæmd á gerð Hvalfjarðarganga og ég tók við því kefli. Það var samt erfitt að ná því máli í gegn. Ýmsir voru á móti því og ég vil ekki gera þeim til háðungar að rifja það upp.“
Árin 1980 til 1983 klofnaði Sjálfstæðisflokkurinn og stuðningsmenn Gunnars Thoroddssonar fóru í ríkisstjórn en stuðningsmenn formannsins, Geirs Hallgrímssonar, voru í andstöðu. Halldór segist vitaskuld hafa staðið meir Geir en að þetta hafi verið erfiðir tímar í flokknum og reynt á vinskap.
„Við Pálmi Jónsson höfðum verið mjög nánir en hann varð ráðherra í þessari stjórn með Gunnari. Skýringin á þessari stjórn var taumlaus metnaður Gunnars til að verða forsætisráðherra og hann hafði mjög þéttan hóp með sér. Ugglaust slitnaði vinskapur milli einhverra en ekki allra.“
Var erfitt að sætta menn eftir þetta?
„Við urðum nú vildarvinir aftur ég og Pálmi Jónsson, og vináttan rofnaði aldrei alveg. En auðvitað var þetta erfitt. Þessi klofningur sem er í gangi núna, með Viðreisn, er af allt öðrum meiði. Milli okkar var ekki djúp gjá í skoðunum. Friðjón Þórðarson var sá eini úr stjórninni sem kom á þingflokksfundi til okkar en hann varð að víkja af fundum þegar mál tengd Alþingi voru rædd.“
Þú varst talinn ansi beittur þingmaður?
„Ég veit ekkert um það,“ segir Halldór kíminn. „Auðvitað reyndi maður í stjórnarandstöðu að beita hörku og ég efast ekki um að ég hafi stundum gengið of langt. En grunnhugsun mín í pólitík hefur alltaf verið sú sama og alltaf legið skýrt fyrir.“
Halldór háði rimmur í stjórnmálunum og nefnir sérstaklega Jón Baldvin Hannibalsson, sinn gamla skólafélaga, en þeir deildu mikið um landbúnaðarmál þegar Halldór var yfir málaflokknum en Jón utanríkisráðherra.
„Hann var ósáttur við mína stefnu og við rifumst á ríkisstjórnarfundum. Hann vildi opna landamærin og hafði ekki skilning á því að við þurfum að reka hér sjálfstæðan landbúnað og verjast búfjársjúkdómum. Þetta gera aðrar þjóðir líka.“
Annar rammur andstæðingur var Steingrímur J. Sigfússon.
„Ég man eftir einu atviki með hann, haustið 2000 þegar ég var þingforseti. Þá var ég á leiðinni heim úr þinginu en frétti að forsvarsmenn Öryrkjarbandalagsins væru á leið niður í þing en þá voru húsnæðismál öryrkja í deiglunni. Ég áttaði mig á að það yrði gerður uppsláttur og fór aftur niður í þing og tók við stjórn fundarins. Ríkissjónvarpið var þá mætt á svæðið og Steingrímur fór í pontu. Ég spurði Steingrím hvort hann ætti mikið eftir af ræðunni og hann sagði: „Já, mjög mikið.“ Þá stöðvaði ég fundinn fyrir matarhlé.“
Halldór segir að þrátt fyrir rimmurnar hafi hann og Steingrímur verið ágætis kunningjar enda báðir hagyrðingar.
„Besta þingvísan sem ég orti var um Steingrím. Forsagan er sú að í Þistilfirði, heimasveit Steingríms, hafði verið hrútakyn mjög gott og frægasti hrúturinn hét Pjakkur. Vísan er eftirfarandi:
Var í holti hrútur vænn,
en hann er dauður,
Steingrímur er stundum grænn,
og stundum rauður.“
Var lýjandi að standa í þessu alla þessa áratugi?
„Nei, ég hafði gaman af því að vera í pólitík. Það er samt erfitt að lenda milli tannanna á fólki og ef maður veit að ekki er vel um mann talað allt um kring eins og stundum kom fyrir. Það gat verið lýjandi og haft áhrif á heilsuna.“
Varstu einhvern tímann ósáttur við stefnu Sjálfstæðisflokksins?
„Auðvitað var ég missáttur við stefnu flokksins, annars væri ég eitthvað bilaður. Í ákveðnum málaflokkum er alltaf mikill slagur, eins og til dæmis í samgöngumálunum. Þegar ég hætti á þingi 2007 vissi ég ekki betur en að búið væri að ganga frá því að leggja veginn niður með Jökulsá á Fjöllum niður í Kelduhverfi frá Goðafossi. En það er ekki búið enn og klárast kannski ekki á næstu árum. Það er einfaldlega vegna þess að Norður Þingeyjarsýsla er svo langt frá Reykjavík, þá má ekkert gera fyrir hana. Ég var ekki ánægður með hvernig Sturla Böðvarsson tók á þeim málum og sagði að hann hefði misskilið orðið hringvegur. Hans skilningur á því hugtaki væri hringvegur í kringum Snæfellsjökul en ekki landið allt.“
Margir halda að Halldór sé Norðlendingur, bæði af alþýðlegu fasi hans og hagmælsku og þeirri staðreynd að hann sat sem þingmaður fyrir Norðurlandskjördæmi eystra og sem landbúnaðarráðherra. Vissulega er Halldór Reykvíkingur en hjarta hans slær fyrir norðan.
„Ég beitti mér mikið fyrir málefnum Norðurlands og það á sálina í mér. Börnin mín eru alin þar upp að hluta til. Þegar sól fer að hækka á lofti þá fer mig að langa norður því að dagurinn lengist hraðar og vorin eru fallegri og hlýrri en hér.“
Stærsta samöngumálið sem Halldór fékkst við voru hvorki Hvalfjarðargöngin né einstaka vegaframkvæmdir því að á níunda áratugnum var netvæðingin að hefjast. Í hans ráðherratíð var ríkisfyrirtækinu Pósti og síma skipt upp í tvö hlutafélög og Síminn síðar einkavæddur.
„Við sáum þá þróun í löndunum í kringum okkur að ríkisrekinn landsími væri úreltur. Þetta olli því að okkar fyrirtæki átti í erfiðleikum með að halda sama samstarfi við útlönd og áður. Þannig að það gerðist eiginlega að sjálfu sér að við urðum að einkavæða landsímann. Síðan átti að byggja nýjan landspítala fyrir peningana en það hefur gengið allt of hægt. Ég vildi reyndar að hann yrði byggður á öðrum stað en ekki verður hægt að hverfa frá því héðan af.“
Halldór segir að uppskipting Pósts og síma hafi gengið tiltölulega snuðrulaust fyrir sig en annað hafi gilt um netvæðinguna sjálfa og margir hafi verið skammsýnir í þeim efnum.
„Fólk hafði lítinn skilning á að Póstur og sími myndi standa að netvæðingunni og hélt að hægt væri að reka þetta í einhverjum bílskúrum. Það var af því að Pétur Þorsteinsson, skólastjóri á Kópaskeri, kom fyrstur með netið hingað. Ég varð svo fyrsti ráðherrann til að lenda í netárás eftir að ég ákvað að gjaldskrá fyrir landið allt yrði sú sama.“
Sástu það fyrir að netið yrði jafn stór þáttur í lífi fólk og síðar varð raunin?
„Við vissum að það yrði og aðeins spurning hversu hratt. Þetta minnir mig á þegar góðvinur minn Páll Pétursson ráðherra sagði að Íslendingar hefðu ekkert við litasjónvarp að gera. Auðvitað sagði hann þetta í hálfkæringi og hann vissi rétt eins og allir aðrir að Íslendingar myndu fá litasjónvarp á endanum. Fjarskiptin voru að springa út.“
Eftir ráðherratíðina tók Halldór að sér sæti forseta Alþingis og gegndi þeirri stöðu í sex ár. Halldór kláraði sinn þingferil vorið 2007, þetta fræga ár fyrir bankahrunið. Síðan þá hefur ekki farið mikið fyrir honum á opinberum vettvangi en hann hefur þó starfað í félagsstarfi eldri Sjálfstæðismanna og heldur þar reglulega ræður.
Varstu feginn að sleppa við hrunið í þinginu?
„Nei ég var ekkert feginn því og hefði alveg verið til í að fást við það. Það koma alltaf erfiðir tímar eins og á áttunda áratugnum þegar verðbólgan fór upp úr öllu valdi, spariféð gekk til þurrðar og verkamannabústaðarkerfið leið undir lok.“
Hvernig hefði verið hægt að afstýra hruninu?
„Ég vildi ekki ganga í Schengen og var andvígur því í ríkisstjórn. Ég var ekki í ríkisstjórn þegar bankarnir voru seldir og hef aldrei skilið hvernig að þeim málum var staðið. Reynslan sýndi að þar hlupum við á okkur. Við hefðum aldrei átt að heimila opnun Icesave-reikninga í Hollandi og Bretlandi þannig að þeir yrðu á ábyrgð okkar Íslendinga. Mín vegna hefði Landsbankinn mátt stofna sjálfstæðan banka erlendis, en ekki sem útibú. En ábyrgðin er auðvitað mest þeirra sem leyfðu þetta.“
Þær stjórnir sem sátu fyrir hrun og sérstaklega Davíð Oddsson hafa fengið mikla gagnrýni fyrir bankasöluna og fleira. Finnst þér Davíð hafa fengið sanngjarnan dóm samfélagsins?
„Við stjórnmálamenn fáum alltaf sanngjarnan dóm frá vinum okkar en rangan frá pólitískum andstæðingum nema að um persónulega vináttu sé að ræða. Ég tala til dæmis vel um þingferil Ragnars Arnalds í Alþýðubandalaginu. Ég get kannski sagt ýmislegt um feril Steingríms J. ef mér sýnist, þó við séum nú ágætis vinir,“ segir Halldór og skellir upp úr.
Halldór er ennþá virkur í stjórnmálum þó að ekki fari lengur jafn mikið fyrir honum. Hann er formaður eldri Sjálfstæðismanna, í miðstjórn flokksins og skrifar reglulega í Morgunblaðið um málefni líðandi stundar. Hann hefur heimild til að sitja þingflokksfundi en er nú að mestu hættur að nenna því.
Ertu að leiðbeina þingmönnunum?
„Já en ég hef ekki fylgst með því hvort þeir fari mikið eftir því. En ég reyni að verða þeim að liði.“
Hvernig lýst þér á þessa stjórn sem nú situr?
„Mér lýst ekkert illa á hana en það eru ýmis vandamál sem steðja að í þjóðfélaginu, til dæmis launamálin. Frá því að ég man eftir mér hafa alltaf komið upp erfiðleikar í launamálum og boginn spenntur of hátt. Við búum nú við að kaupmáttur hefur vaxið meira en nokkru sinni fyrr og verðbólga svosum engin. Ef við höldum rétt á spilunum getum við búið í haginn.“
Er þetta ekki kjararáði að kenna?
„Þegar ég byrjaði réði þingið þessu sjálft og ég vildi halda því. Sum mál eru þess eðlis að þau verða ávallt pólitísk. Alþingismenn geta ekkert skorast undan því. Það var rangt af Jóhönnu Sigurðardóttur að lækka laun þingmanna og æðstu embættismanna því að það er erfitt að leiðrétta það á nýjan leik. Svo er kjararáð tugga sem hver tekur upp eftir öðrum. Eitt sinn gátu þingmenn ekki lifað af sínum launum. Bjarni Benediktsson fékk greitt fyrir að skrifa Reykjavíkurbréf, Jóhann Hafstein fékk greitt fyrir leiðara í Vísi, síðan sátu launaðir verkalýðsforingjar, forstjórar, blaðamenn, sýslumenn, kennarar og fleiri á þingi.“
Halldór verður áttræður í ágúst og hann hefur nú meiri tíma fyrir áhugamálin, sér í lagi menninguna. Nýlega var hann kjörinn forseti Hins íslenska fornritafélags. Þessa dagana les hann mest fornritin og kveðskap. Þá er hann í hagyrðingafélaginu Braga.
Árið 2000 greindist Halldór með krabbamein í ristli og gekkst undir hnífinn í þrígang.
„Ég varð aldrei veikur, eða kenndi mér aldrei meins. Það gekk blóð niður með hægðum og ég sagði lækninum mínum það. Honum fannst það ótrúlegt því að ég væri nýbúinn í skoðun. Í annarri skoðun fann hann meinið og var það skorið í burtu. Seinni aðgerðirnar voru til að laga og síðan hefur ekkert þurft að hugsa um þetta.“
Síðan hefur hann verið með stóma en krabbameinið hefur ekki tekið sig upp að nýju. Eftir aðgerðina fór minnið aðeins að förlast en að öðru leyti er heilsan fín.