Neil Basu, yfirmaður hryðjuverkadeildar Lundúnalögreglunnar, sagði á borgarafundi í Amesbury að eitrið geti verið virkt í allt að 50 ár að sögn sérfræðinga. Það væri ekki hættulegt ef það væri geymt í lokuðum umbúðum. Hann sagði að lögreglan væri í raun að leita að nál í heystakk núna þegar leitað væri að eitrinu.
Dawn Sturgess, 44 ára, lést af völdum eitursins i vikunni og unnusti hennar, Charlie Rowley, er enn á sjúkrahúsi og er ástand hans sagt alvarlegt. Lögreglan getur ekki enn sagt með fullri vissu hvort málin tengist en Basu sagði á fundinum að miðað við hversu sjaldgæft þetta eitur er og að það sé bannað af alþjóðasamfélaginu þá séu vægast sagt litlar líkur á að tvö mál, þar sem þetta eitur kemur við sögu, komi upp í fámennri enskri sýslu án þess að þau tengist.