Eftir flotta orgeltónleika Kitty Kovács síðastliðinn fimmtudag og tvenna stórglæsilega tónleika Winfrieds Bönig organista Kölnardómkirkju um helgina heldur Alþjóðlegt orgelsumar í Hallgrímskirkju áfram með fjórum spennandi tónleikum í þessari viku, Loreto Aramendi frá San Sebastian á Spáni og ný íslensk verk, þar á meðal einn frumflutningur:
Miðvikudaginn 11. júlí kl. 12 syngur kammerkór Hallgrímskirkju, Schola cantorum, íslenskar og erlendar kórperlur eftir Jón Nordal, Sigvalda Kaldalóns, Byrd, Mendelssohn, Sigurð Sævarsson, Bruckner og Händel í bland við íslensk þjóðlög. Tónleikagestum er boðið í kaffi og spjall við meðlimi kórsins að tónleikunum loknum. Miðaverð 2.500 kr.
Fimmtudaginn 12. júlí kl. 12 leika Pamela De Sensi flautuleikari og Steingrímur Þórhallsson organisti Neskirkju nýleg verk eftir Steingrím fyrir þverflautu, altflautu, bassaflautu, kontrabassaflautu og orgel, þar á meðal er einn frumflutningur. Miðaverð 2.000 kr.
Laugardaginn 14. júlí kl. 12 leikur Loreto Aramendi, aðalorganisti hins fræga Cavaillé-Coll orgels Santa Maria basilíkunnar í San Sebastian á Spáni, verk eftir Bach, Ligeti, Cabanilles, Duruflé ásamt Pílagrímakór Wagners úr Tannhäuser sem Franz Liszt umritaði fyrir orgel. Miðaverð 2.000 kr.
Á seinni tónleikum sínum, sunnudaginn 15. júlí kl. 17 leikur Loreto Aramendi verk eftir Buxtehude, Rachmaninoff, Saint-Saëns, Fauré, Cabanilles, Tournemire ásamt Litanies eftir Jehan Alain og Funérailles eftir Liszt. Miðaverð 2.500 kr.
Miðasala í Hallgrímskirkju opnar klukkutíma fyrir hverja tónleika en einnig má kaupa miða á midi.is.
Dagskrá vikunnar má sjá í heild sinni hér fyrir neðan:
Miðvikudagur 11. júlí kl. 12 Schola cantorum
Efnisskrá:
Íslenskt þjóðlag, úts. Róbert A. Ottósson Vinaspegill
Íslenskt þjóðlag, úts. Hjámar H. Ragnarsson Stóðum tvö í túni
Jón Nordal *1926 Smávinir fagrir
Sigvaldi Kaldalóns 1881-1946 Á Sprengisandi
Úts. Jón Ásgeirsson
William Byrd 1540-1623 Ave verum corpus
Sigurður Sævarsson *1963 Nunc dimittis
Felix Mendelssohn-Bartholdy 1809-1847 Herr, nun lässest du
Anton Bruckner 1824-1896 Locus iste
Georg F. Händel 1685-1759 Dagur er nærri
Schola cantorum, kammerkór Hallgrímskirkju, hefur frá upphafi hlotið mikla athygli fyrir fágaðan og tæran söng sinn. Kórinn var valinn „Tónlistarflytjandi ársins 2016” á Íslensku tónlistarverðlaununum í mars 2017 og hefur unnið til verðlauna í erlendum keppnum og komið fram á tónleikum í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Ítalíu, Spáni, Þýskalandi, Frakklandi, Japan, Sviss og Bandaríkjunum. Schola cantorum var útnefndur Tónlistarhópur Reykjavíkurborgar 2006, tilnefndur til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2007 og Íslensku tónlistarverðlaunanna 2013. Kórinn hefur frá upphafi leikið mikilvægt hlutverk í íslensku tónlistarlífi og frumflutt verk eftir fjölda íslenskra tónskálda auk þess að flytja tónlist allra stíltímabila með og án hljóðfæraundirleiks, m.a. í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Alþjóðlegu barokksveitina í Hallgrímskirkju (áður Den Haag), Björk, Sigurrós o.fl. Kórinn kom einnig fram á 5 tónleikum á tónlistarhátíðinni Reykjavík Festival í Walt Disney Hall í Los Angeles í apríl 2017, þ.s. söngur kórsins hlaut einróma lof í allri umfjöllun stórblaða svo sem New York Times, LA Times o.fl. Stjórnandi kórsins frá upphafi er Hörður Áskelsson.
Fimmtudagur 12.júlí kl. 12 Pamela De Sensi flauta og Steingrímur Þórhallsson orgel
Efnisskrá:
Steingrímur Þórhallsson *1974
Fanfare yfir Af himnum ofan boðskap ber, 2017 /
Fanfare on Vom Himmel hoch da komm ich her
Dialogus fyrir kontra-, bassa, alt- og þverflautu, 2015
Hugleiðing fyrir altflautu og orgel, frumflutningur
Fantasía yfir Vor Guð er borg á bjargi traust, 2017
Pamela De Sensi stundaði nám í flautuleik á Ítalíu og lauk MA í flautuleik árið 2000 og MA í kammertónlist frá listaháskólanum S Cecilie í Róm árið 2003, sama ár og hún flutti til Íslands. Hún hefur sótt fjölda meistaranámskeiða og tónleikar hafa borið hana víða um heim, til margra landa Evrópu en einnig til Bandaríkjanna og Mexíkó. Hér á Íslandi hefur hún komið reglulega fram m.a. á tónlistarhátíðum í Skálholti, á Menningarnótt og Listahátíð. Þá hefur henni verið boðið að halda tónleika á vegum bandarísku flautuleikarasamtakanna í New York, þrisvar á alþjóðlegu flautuhátíðinni Flautissimo í Róm, síðast 2015 og í ár á International Low Flute Festival í Washington DC þar sem hún flutti íslenska tónlist við góðan orðstír. Pamela lék með flautuhóp á nýjustu plötu Bjarkar UTOPIA.
Steingrímur Þórhallsson hlaut sína fyrstu tónlistarmenntun á Húsavík. Í Reykjavík lauk hann píanókennaranámi við Tónlistarskólann í Reykjavík og kantorsprófi frá Tónskóla þjóðkirkjunnar árið 1998 með Martein H. Friðriksson sem aðalkennara. Sama haust fór hann til framhaldsnáms til Rómar og hann tók þar lokapróf, Magistero di organo, sumarið 2001 frá Kirkjutónlistarskóla páfagarðs.
Árið 2002 var Steingrímur ráðinn til Neskirkju þar sem hann er organisti og kórstjóri jafnframt því að starfa með ýmsum tónlistarhópum á Íslandi.
Seinni ár hefur Steingrímur einbeitt sér meira að tónsmíðum. Vorið 2012 lauk hann námi í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands og núna í vor lauk hann M.mus í tónsmíðum frá skólanum og var lokaverkefni hans, Hulda, tónverk fyrir sópran, barnakór, kór og hljómsveit frumflutt í maí. Hann hefur komið fram á fjölda tónleika, bæði hér og erlendis, t.d. á Alþjóðlegum orgelsumrum í Hallgrímskirkju þar sem hann hefur m.a. frumflutt eigin tónverk.
Laugardagur 14. júlí kl. 12 Loreto Aramendi organisti Santa Maria basilíkunnar í San Sebastian á Spáni
Efnisskrá:
Richard Wagner 1813‒1883
Pílagrímakórinn úr Tannhäuser, umritun F. Liszt 1811‒1886
Johann Sebastian Bach 1685‒1750
György Ligeti 1923‒2006
Coulée, 2. æfing fyrir orgel, 1969
Juan Cabanilles 1644‒1712
Batalla Imperial
Maurice Duruflé 1902‒1986
Theme et variation sur le Veni Creator, op. 4
Sunnudagur 15. júlí kl. 17 Loreto Aramendi organisti Santa Maria basilíkunnar í San Sebastian
Efnisskrá:
Dietrich Buxtehude 1637‒1707
Tokkata í F-dúr, BuxWV 156
Franz Liszt 1811‒1886
Funérailles
úts. Louis Robilliard *1939, nr. 7 í poétiques et religieuses, 1849
Sergei Rachmaninoff 1873‒1943
Prelúdía í cís-moll, úts. Louis Vierne 1870‒1937
Camille Saint-Saëns 1835-1921
Danse macabre, op. 40, 1874, úts. Louis Robilliard
Gabriel Fauré 1845‒1924
Úr Pelléas et Mélisande,úts. Louis Robilliard:
I Prélude
III Sicilienne
Jehan Alain 1911‒1940
Litanies
Juan Cabanilles 1644‒1712
Corrente italiana
Charles Tournemire 1870‒1939
Choral Improvisation “Victimae Paschali”
Loreto Aramendi er prófessor við F. Escuderois tónlistarháskólann í San Sebastian og aðalorganisti Santa María del Coro basilíkunnar þar sem hún leikur á Cavaillé-Coll orgel fra 1863. Frá árinu 2014 hefur hún tekið þátt í endurbyggingu nokkurra orgela bæði í Frakklandi og á Spáni. Árið 2015 gaf hún út tvo diska hljóðritaða við Cavaillé-Coll orgelið í kirkjunni hennar og árið 2017 gaf hún aftur út tvo diska hljóðritaða við Cavaillé-Coll orgelið í Saint Ouen of Rouen Abbey með umritunum Louis Robilliards. Hún hóf tónlistarnám sitt við Tónlistarskólann í San Sebastian, hafnarbæ rétt fyrir sunnan landamæri Spánar og Frakklands. Hún stundaði framhaldsnám í orgelleik fyrst við Tónlistarháskólann í Bayonne, Frakklandi og síðan í Lyon þar sem kennarar hennar voru m.a. Jean Boyer og J. Von Oorttmeren. Seinna bætti hún einnig við sig fimm ára námi í píanó- og semballeik við Þjóðartónlistarháskólann í París. Þá sótti hún meistaranámskeið, m.a. hjá Radulescu, W. Jansen og Claudio Brizzi. Þá er hún einnig með prófgráðu í sálfræði frá Háskóla Baskahéraðsins (UPV).
Loreto Aramendi hefur komið fram á alþjóðlegum tónlistarhátíðum, víða um Evrópu auk Bandaríkjanna og Argentínu. Hún heldur einleikstónleika en kemur jafnframt fram með mismunandi hljóðfærahópum sem orgelleikari, píanóleikari eða semballeikari. Auk þess hefur hún starfað með basknesku sinfóníuhljómsveitinni í mörg ár og m.a. hljóðritað tvo diska með hljómsveitinni.