Reykjavík Fringe Festival er haldin í fyrsta sinn á Íslandi núna í vikunni, dagana 4.-8. júlí. Fjöllistahátíðin býður meðal annars upp á leiklist, dans, uppistand, spuna, kabarett, sögustundir, myndlistarsýningar, kvikmyndir, fyrirlestra, námskeið, drag, innsetningar, tónlist, ljóðalestra og fleira.
Fyrirmynd hátíðarinnar er Edinborgar-Fringe hátíðin sem haldin var í fyrsta skipti árið 1947. „Upprunalega var þetta þannig að það er listahátíð í Edinborg en þar voru einhverjir listamenn sem voru ekki á henni og ákváðu að setja upp sína eigin listahátíð í galleríum og kaffihúsum. Með hverju árinu sem leið bættist alltaf í hópinn og nú taka mörg þúsund manns þátt á hátíðinni og um 50.000 sýningar fara fram á hverju ári,“ segir Nanna Gunnars, sem er einn aðalskipuleggjenda hátíðarinnar.
Hátíðin virkar ekki eins og venjuleg listahátíð þar sem einhver stjórnar því hver sýnir og sótt er um heldur geti hver sem er sett upp sýningu. Meira en 50 listamenn/hópar taka þátt og halda yfir 130 sýningar á 5 dögum á 11 staðsetningum víðs vegar um miðborg Reykjavíkur.
Opnunarkvöld Reykjavík Fringe var haldið á Hlemmi Square í gærkvöldi og var fullt út úr dyrum. Myndir frá kvöldinu eru teknar af Sveinlaugu Sigurðardóttur.
Sérstakt forsýningarkvöld verður haldið annað kvöld, þriðjudaginn 3. júlí kl 20:30 í Tjarnarbíó þar sem flestallir listamenn hátíðinnar munu kynna atriðin sem þau eru með á 2 mínútum. Aðgangur er ókeypis á þessa þriðjudags veislu.
Verkin sem verða á Reykjavík Fringe koma hvaðanæva að og eru meðal annars frá Íslandi, Bandaríkjunum, Svíþjóð, Þýskalandi, Bretlandi, Brasilíu, Kanada, Ástralíu og Ísrael. Flestar sýningar fara fram á ensku, en einnig eru sýningar á íslensku ásamt sýningum sem fara ekki fram á töluðu máli, svo sem myndlistarsýningar, innsetningar og dansverk.
Sem dæmi um verk má nefna spunasýningu Improv Iceland, eins dags tónlistarveislu sem fer fram á Dillon, fjölmargar uppistandssýningar, sérstaka dragsýningu Drag-súgs,ljóðaslamm keppni og dansverkið All the Sisters in Me. Kassinn er leikhúsverk í sýndarveruleika, Miss Mokki býður upp á námskeið fyrir byrjendur í burlesque, á Smut Slam segja áhorfendur sannar kynlífssögur á sviði, Dömur & herra verða með kabarett sýningu en umtalaðasta sýning hátíðarinnar er American Single þar sem leikkona fer á stefnumót við áhorfanda úr salnum.
Elísabet Jökulsdóttir stýrir leiklestri, kattagöngutúrar eru í boði, hægt er að hlýða á hljóðverkið Vættir sem krefst þess að þú mætir með þinn eigin síma eða skella sér í heimahús þar sem verðlaunasýningin Phone Whore fer fram fyrir takmarkaðan áhorfendafjölda. Í lok hátíðar er svo hægt að ferðast aftur í tímann með að stíga inn í Rauða skáldahúsið.
Dagskrá Reykjavík Fringe Festival má sjá í heild sinni á heimasíðu hátíðarinnar og á Facebook.
Miðasala fer fram á Tix.is en passi fyrir alla hátíðina er á 9.900 kr. Einnig er hægt að kaupa miða á einstaka sýningar bæði á Tix og við hurð.