Innipúkinn verður haldinn í 17. sinn í miðborg Reykjavíkur um verslunarmannahelgina. Miðasala hófst á föstudag og skipuleggjendur hátíðarhaldanna tilkynntu fyrstu listamennina og hljómsveitirnar sem koma fram á hátíðinni í ár.Hátíðin fer að sjálfsögðu að stærstum hluta fram innandyra og það er því engin ástæða til að hafa áhyggjur af veðurspá á Innipúkanum.
Dagskráin í ár er einstaklega glæsileg fjölbreytt, en meðal þeirra listamanna sem koma fram á hátíðinni eru: Jói P x Króli, Svala, Logi Pedro, GRL PWR (Salka Sól, Elísabet Ormslev, Karitas Harpa, Karó, Stefanía Svavars og Þuríður Blær) og Mugison sem snýr aftur og leikur á hátíðinni eftir margra ára fjarveru.
Aðaltónleikadagskráin fer að sjálfsögðu fram innandyra, að þessu sinni á tónleikastöðunum Húrra og Gauknum sem liggja við Naustin í Kvosinni. Þar verður boðið verður upp á fjölbreytta tónleikadagskrá föstudags-, laugardags- og sunnudagskvöld, 3.-5. ágúst.
Líkt og undanfarin ár er ráðgert að standa fyrir ókeypis götuhátíðardagskrá yfir hátíðardagana í nálægð við tónleikastaðina. „Vonandi verður hægt að loka götunni milli Hafnarstrætis og Tryggvagötu fyrir bílaumferð eins og undanfarin ár, en annars er verið að skoða aðra möguleika. Á götuhátíðinni má gera má ráð fyrir gamalreyndum púka-dagskrárliðum á borð við pöbbkviss Innipúkans og árlegum listamarkaði, ásamt plötusnúðum og veitingasölu,“ segir Ásgeir Guðmundsson, einn aðstandenda Innipúkans. „Síðustu ár hefur verið uppselt á Innipúkann – og því um að gera tryggja sér miða í tíma.“
Á meðal þeirra listamanna sem koma fram á Innipúkanum eru:
– Bjartar sveiflur
– Bríet
– GDRN
– Geisha Cartel
– GRL PWR
– Hatari
– JóiPé x Króli
– Logi Pedro
– Mugison
– Prins Póló
– Rari Boys
– Svala
– Sykur
– Une Misère
– Yung Nigo Drippin
Fleiri nöfn verða tilkynnt á næstu vikum.
Miðasala á hátíðina er nú hafin á Tix.is og armband á hátíðina gildir alla helgina bæði á Húrra og Gaukinn. Einnig er hægt að kaupa miða inn á stök kvöld. Götuhátíðardagskráin sem fram fer yfir daginn er ókeypis og opin öllum.