Reyni Traustason þekkja flestir Íslendingar enda einn þekktasti blaðamaður landsins í gegnum tíðina og var árum saman ritstjóri DV. Reynir hefur nýlega sent frá sér smásagnasafnið Þorpið sem svaf. Reynir er afar ritfær maður og hefur skrifað nokkrar áhugaverðar og vinsælar bækur, ævisögur og viðtalsbækur. Það kemur engu að síður nokkuð á óvart að hann spreyti sig á smásagnagerð en hann hefur hingað til ekki verið bendlaður við skáldskap. Sumar sögur í nýju bókinni hafa þó verið lengi í smíðum.
Sögurnar í bókinni gerast allar í sama þorpinu en um leið og bókin dregur upp fjölbreyttar mannlýsingar er undirtónninn hápólitískur: „Bókin er einskonar uppgjör mitt við það tímabil þegar ég bjó á Flateyri og kvótakerfið varð byggðinni að falli. Þetta eru örlagasögur fólks sem treysti á sjóinn og fiskinn til að lifa af. Ég skrifaði sögurnar á rúmlega 20 árum. Niðurstaða mín er sú að þegar peningar eru annarsvegar þá er flest falt. Þá eru fáir menn sem standast freistingar. Lifandi fiskur varð að söluvöru og þorpin sátu eftir í sárum. Sögurnar eiga það sammerkt að vera byggðar á raunveruleika en þó skáldað allt um kring. Þá reyndi ég að hafa þær áhugaverðar og skemmtilegar aflestrar til að ná til fólks,“ segir Reynir.
Blaðamaður hefur lesið fjórar sögur í bókinni og þrátt fyrir hina sterku þjóðfélagsádeilu er pólitíkin ekki allsráðandi í þeim sögum heldur skemmtilegar mannlýsingar og mjög góður húmor. Við kynnumst manni sem eyðir hlutabréfainneign sinni og eiginkonu sinnar í rándýran húsbíl í óþökk eiginkonunnar og óttast mjög viðbrögð hennar þegar hann kemur heim á bílnum. Sagt er frá miðaldra rokkara sem tekur saman við kornunga prestsdóttur og við kynnumst broslegum tilraunum piparsveins til að komast yfir kvonfang, sem gengur illa þó að hann sé búinn að koma rækilega undir sig fótunum með vinnuhörku og sparsemi.
Mjög hefur verið vandað til útgáfunnar og stórfínar teikningar eftir Reyni Torfason prýða mjög bókina og vekja upp skemmtilegan fortíðarblæ úr lestrarbókum í gagnfræðaskólum fyrri tíðar, þar sem teikningar í ekki óáþekkum stíl prýddu sögukafla og smásögur.
Skrifar líka gegn Hvalárvirkjun
„Sumar sögurnar eru frá togaraárunum mínum og í sjálfu sér ópólitískar. Nýjasta sagan byggir á reynslu minni frá seinustu fjórum sumrum í Árneshreppi þar sem verið er að skipuleggja gríðarlega aðgerð gegn náttúrunni. Sökkva skal heiði og þurrka upp fossa svo kanadískt stórfyrirtæki og sumargestur í Ófeigsfirði nái sínu fram. Sumir ganga svo langt að segja að vilji sé til þess að nauðga náttúrunni með Hvalárvirkjun. En sagan „Gullið í heiðinni“ er auðvitað skáldsaga en byggð á því sem er að gerast. Sögurnar eru hápólitískar en samt að mestu leyti um fólk sem var dæmt til að tapa fyrir auðvaldinu,“ segir Reynir.
Hér er hægt að kaupa bókina en hún er að sjálfsögðu líka til sölu í öllum helstu bókaverslunum.