Þann 26. júní síðastliðinn var flaggað um allt land, enda afmælisdagur Guðna Th., forseta okkar, og stórafmæli í þokkabót, 50 ára. Sá dagur mun þó líklega hafa aðra þýðingu í framtíðinni fyrir Ástu Hrafnhildi Garðarsdóttur, sem fylgt hefur þjóðinni í fjölmörg ár, sem blaðamaður, ritstjóri Séð og heyrt, kennari í Garðabæ og síðast en alls ekki síst, sem Ásta og Keli í Stundinni okkar. Þennan dag fékk hún fyrsta ömmubarnið í heiminn og getur því bætt nýju hlutverki á ferilskrána sína.
„A true lady is never late, she just arrives in her own sweet time,“ segir Ásta á Facebook-síðu sinni. „Undurfalleg óræð blanda foreldra sinna. „Samt alveg eins og amma sín“, hefði langamman staðhæft á innsoginu og drepið í um leið … mér sýnist hafa stytt upp.“
Foreldrar ömmubarnsins eru elsti sonur Ástu, Garðar B. Sigurjónsson, handboltakappi með Stjörnunni, nemi til löggildingar fasteignasala og fyrrverandi blaðamaður á Séð og heyrt. Barnsmóðir hans er kærastan og Eyjamærin, Sandra Dís Pálsdóttir, sem starfar á 101 hárhönnun. Þau kynntust á sínum tíma þegar Garðar bað um frí á Séð og heyrt til að skreppa í klippingu og settist í stólinn hjá Söndru, sem heillaði hann upp úr handboltaskónum, um leið og hún græjaði hár hans. Segir Garðar það næstbestu ákvörðun sína að hafa farið í klippingu og heillast af Söndru og þá bestu að hafa tekið skrefið og boðið henni út.
Við óskum hinum nýbökuðu foreldrum og ömmu innilega til hamingju með nýja fjölskyldumeðliminn.