fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2024
Fókus

Ekkert nema Ólympíuleikar

Spenna og dramatík á skjánum

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 16. ágúst 2016 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er ekkert í sjónvarpinu annað en Ólympíuleikar,“ sagði kunningjakona mín andvarpandi. Ég viðurkenni að ég hef hugsað á þessum nótum. Samt hef ég gaman af Ólympíuleikum. Af einhverjum ástæðum hef ég þó ekki fylgst með leikunum þetta árið, fyrr en í fyrradag en þá fór að leita á mig sú hugsun að ég gæti verið að missa af einhverju merkilegu. Þá fór ég að horfa. Ég kom inn í miðjan leik Frakka og Króata í handbolta þar sem stuðningsmenn Króata sýndu svo mikil tilþrif á áhorfendapöllunum að ég ákvað samstundis að halda með sama liði og þeir. Leikurinn var æsispennandi og Króatar unnu. Ég var svo ánægð með þessa tilraun mína til Ólympíuáhorfs að ég endurtók leikinn stuttu síðar og horfði á fimleika kvenna. Fimleikar kvenna eru reyndar uppáhaldskeppnisgrein mín á Ólympíuleikum og ég man fjarska vel eftir hinni rússnesku Olgu Korbut og hinni rúmensku Nadiu Comăneci. Báðar stórkostlegar en Olga var alltaf mitt eftirlæti því hún var svo sjarmerandi og tilfinningaríkur keppandi, ljómaði af gleði þegar hún vann, sem hún gerði yfirleitt, og grét sárt þegar hún tapaði. Nú horfði ég á keppni á tvíslá og fyrsti keppandinn sem ég sá var hin rússneska Alya Mustafina sem getur greinilega allt. Hún lék listir sem ég vissi að hefðu samstundis drepið mig hefði ég reynt að leika þær eftir, sem myndi reyndar aldrei hvarfla að mér – maður þekkir takmörk sín. Hin glæsilega Mustafina stóð uppi sem sigurvegari.

Ég var orðin ansi lukkuleg með Ólympíuáhorfið mitt. Það eina sem skyggði á var grunur um að ég hefði byrjað að horfa of seint og misst af miklum afrekum. En það þýðir ekki að harma tækifærin sem maður missti af vegna eigin sinnuleysis heldur gera betur. Ég ákvað að verða dyggur sjónvarpsaðdáandi þá daga sem eftir eru af Ólympíuleikunum. Ég hvet aðra til að gera það sama.

Ég horfði svo seinna um kvöldið á endursýningu á helstu viðburðum dagsins og þar á meðal var 10 kílómetra hlaup karla. Þar datt einn keppandinn og í sönnum anda jafnaðarstefnunnar ákvað ég að halda með honum. Og viti menn, minn maður stóð upp, tók á sprett og sigraði. Svona á lífið að vera! Ég ljómaði eins og sólin. Þannig lauk vel heppnuðu Ólympíukvöldi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Beverly Hills höll Bennifer formlega komin í sölu – Sjáðu myndirnar

Beverly Hills höll Bennifer formlega komin í sölu – Sjáðu myndirnar
Fókus
Fyrir 5 dögum

Eddie Vedder segist hafa verið hætt kominn – Pearl Jam hættu við tónleika í London sem margir Íslendingar ætluðu á

Eddie Vedder segist hafa verið hætt kominn – Pearl Jam hættu við tónleika í London sem margir Íslendingar ætluðu á
Fókus
Fyrir 5 dögum

Leikarinn steinrunninn á meðan myndband af eftirmála voðaskotsins var spilað

Leikarinn steinrunninn á meðan myndband af eftirmála voðaskotsins var spilað