Það virðist vera hluti af því að vera stjórnmálamaður verða fyrir barðinu á dómstól götunnar,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins. Hún kveðst ætíð hafa haft þykkan skráp og hann þykkni með hverju árinu sem hún tekur þátt í pólitík. Sá skrápur kemur sér vel þegar kemur að persónuárásum á samfélagsmiðlum og á athugasemdakerfum fréttamiðla.
„Ég er hlynnt því að almenningur veiti stjórnmálamönnum aðhald en skítkast og persónuárásir er annað mál og klárlega samfélagsmein,“ segir Áslaug Arna í samtali við nýjasta tölublað Nýs lífs. „Til að mynda fékk ég morðhótun í síðustu viku og ekki í fyrsta sinn.“
Áslaug segist að sjálfsögðu ætla að kæra hótunina. „En það skrítnasta í þessu er líklega hvað ég kippi mér lítið við þetta. Ég les takmarkað það sem er um mig sagt í kommentakerfunum en þegar kemur einhver hrúga af kommentum þá kíki ég stundum á þau.
Margir tjáðu sig um ummæli Áslaugar Ernu fyrir nokkrum misserum þegar hún var formaður Heimdallar og tjáði sig um sölu áfengis í matvöruverslunum. Segist hún auðveldlega hafa getað kært mörg þeirra ummæla.
„Í dag er mér alveg sama um ósanngjörn ummæli en öðru máli gegnir um ömmu mína og vinkonur mínar sem taka þau virkilega nærri sér. Það má ekki gleyma því að persónuníð gagnvart annarri manneskju hefur áhrif á svo miklu fleiri en bara hana.“