Sausage Party
Ja hérna hér. Það er eiginlega ekki annað hægt að segja um þessa mynd. Maður ímyndar sér að Seth Rogen og vinir hans hafi fengið sér vel í pípu þegar þeir fengu hugmyndina, sem snýst í stuttu máli um vörur í stórmarkaði sem allar eru gæddar skynjun. Pulsurnar eru strákar og brauðin stelpur, sem er augljós brandari en tekinn svo langt að hann verður fyndinn.
Á einhvern undarlegan hátt fangar pulsupartíið þá Trump-tíma sem við lifum betur en margar aðrar myndir.
Við erum hér komin ansi langt frá teiknimyndum Disney. Myndin er bæði „splatter“-mynd og klámmynd, en með matvörur í öllum aðalhlutverkum með vessa sem leka í allar áttir. Hver einasta persóna er steríótýpa, súrkálin eru nasistar, tabaskósósurnar eru svo miklir Mexíkanar að sumir vilja vafalaust byggja múr í kringum þá og hér eru jafnvel arabi og gyðingur sem eru alltaf að rífast. Í kringum þetta tekst svo að tvinna endalausa orðaleiki sem eru flestir ágætir.
Ofan á allt er boðskapurinn þó mikilvægur. Trúarbrögðin eru til þess fallin að láta fólk sætta sig við vonlausa stöðu í stað þess að reyna að breyta henni. Og jafnvel þó að maður sjái í gegnum þau dugir ekki að segja öðrum hvað þeir eru vitlausir, heldur á að ganga á undan með góðu fordæmi og færa rök fyrir máli sínu.
Í raun hefði þetta alveg gengið upp sem barnvænleg Pixar-mynd með heimspekilegu ívafi, en í staðinn er farin sú leið að raða inn blótsyrðum og klúrum bröndurum. Sem er ágætt líka. Á einhvern undarlegan hátt fangar pulsupartíið þá Trump-tíma sem við lifum betur en margar aðrar myndir. Og tekst að gera eitthvað nýtt í leiðinni.