fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fókus

Þingmaður Miðflokksins með sjaldgæft krabbamein: „Svona áfall kemur ekki endilega fram í sálarlífinu strax“

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 22. júní 2018 20:00

Anna Kolbrún Árnadóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Miðflokkurinn er ekki orðinn eins árs gamall en hefur engu að síður unnið tvo góða kosningasigra. Ein þeirra sem stendur í fremstu víglínu flokksins er Anna Kolbrún Árnadóttir, en hún var kjörin á Alþingi í haust.

Kristinn hjá DV ræddi við Önnu um jafnréttismálin sem eru henni svo kær, erfiðan skilnað við Framsóknarflokkinn og baráttuna við illvíga og sjaldgæfa tegund af krabbameini.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV:

Hikandi við framboð vegna krabbameins

Anna Kolbrún kom inn í þingstörfin eftir mjög erfiðan kafla í sínu lífi en hún hefur barist við illvígt og sjaldgæft krabbamein undanfarin sjö ár. Þann 1. apríl árið 2011 lét hún skoða sig á spítala vegna verkja í öndunarfærum og hélt að hún væri með lungnabólgu.

„Þá greindist ég með brjóstakrabbamein sem var þannig staðsett að ég gat ekki farið í aðgerð og auk þess hafði það dreift sér, bæði í lungun og eitla. Nítján dögum síðar var ég komin í lyfjameðferð.“

Hvernig varð þér við að fá þessar fréttir?

„Það var rosalegt áfall og ég var einmitt að ferma dóttur mína daginn áður en ég hóf lyfjameðferðina. En svona áfall kemur ekki endilega fram í sálarlífinu strax heldur koma hin andlegu eftirköst oft fram löngu seinna. Ég er enn þá í lyfjameðferð, fór síðast í fyrradag, og er því búin að vera að kljást við þetta í sjö ár.“

Anna Kolbrún er á svokölluðum líftæknilyfjum sem hafa ekki jafn erfiðar aukaverkanir og lyfin sem hún hefur áður verið á. Í fyrri lyfjameðferðum hefur hún orðið svo veikburða að hún gat varla stigið fram úr rúminu og í þessari löngu baráttu hefur hún veikst mjög alvarlega í tvö skipti. Í annað skiptið var kominn vökvi í kringum hjartað og hún þurfti að fara til Reykjavíkur í aðgerð. Í hitt skiptið fékk hún miklar bólgur í kringum raddböndin og missti raddstyrkinn. Anna Kolbrún er hreinskilin og einlæg kjarnakona og hún er furðu brött þegar hún lýsir þessu.

„Ég fór í aðgerð til að láta laga hálsinn varanlega. Það er mjög skemmtilegt að segja frá því að ég er með Goretex í hálsinum. Það var sett til að fylla upp í því að annað raddbandið er alveg lamað, annað hvort vegna taugaskemmdar eða æxlis. Þessar bólgur hafa verið að hjaðna núna en áhyggjur mínar í ræðustól eru þær hvort að fólk sjái að það lekur hor eða eitthvað þannig, af því að maður er alltaf með slímhimnurnar í klessu, það eru alls kyns furðulegar aukaverkanir af þessu. Sumir missa hárið en það er alls ekki versta aukaverkunin þegar upp er staðið.“

Varstu hrædd?

„Ég var skíthrædd,“ segir Anna Kolbrún án þess að hika. „Alveg ofboðslega hrædd í nokkur skipti. Læknarnir vissu lítið um þetta þar sem það er sjaldgæft að fólk fái þessa tilteknu tegund af krabbameini, sem kallast HER-2, svona ungt. Þetta er prótín krabbamein en ekki hormóna eins og langflestar konur með brjóstakrabbamein fá. En á móti er ég heppin að þessi líftæknilyf séu til.“

Hefur þetta haft andleg áhrif á þig?

„Já, þetta hefur áhrif á sálarlífið. Maður fer í gegnum eiginlegt sorgarferli, afneitun, reiði og allan þann pakka. Síðan kemur að þessari hugsun um að deyja. Verri er samt hugsunin um það hvernig maður sé þegar maður er að deyja. Alls konar hugsanir fara í gegnum kollinn og það er nauðsynlegt að leyfa góðum hugsunum að fá að fljóta með. Verst eru þau áhrif sem þetta hefur á fjölskylduna en ég reyni að vera sterk.“

Hvernig ertu í dag?

„Ég er mjög góð í dag og finn ekki neitt. Ég fer reglulega í myndatökur og er búin að panta slíka eftir þrjár vikur. Ég og læknirinn minn fylgjumst vel með þessu saman og hann veit að ég get greint hvort einhverjar bólgur eða annað sé í gangi. Ég þarf að hlusta á líkamann og vera meðvituð um að vera virk. Fara á fætur, fara í bað, vera að gera eitthvað.“

Anna Kolbrún segir að hún hafi hugsað um það hvort hún ætti að taka sæti á lista Miðflokksins í ljósi veikinda sinna og hvort hún ætti að vera svona ofarlega.

„Hvað ef ég veikist eftir viku, eða mánuð? En þá var mér sagt að varamaðurinn yrði alltaf til staðar ef ég þyrfti frá að víkja. Ég tek daginn eins og hann er og verkefnið eins og það er.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“