fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
FókusKynning

Hjúkrun er líka starf fyrir karla

Karlar hvattir til að læra hjúkrunarfræði – Hlutfall karlmanna í hjúkrun á Íslandi er aðeins um 2 prósent

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 21. ágúst 2016 14:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga setti í sumarbyrjun af stað átak til að efla þátt karlmanna í hjúkrun með því meðal annars að fjölga karlmönnum í hjúkrun undir yfirskriftinni Karlmenn hjúkra. Hlutfall karlmanna í hjúkrun á Íslandi er um 2 prósent sem er heldur lægra en í nágrannalöndum okkar. Þar hefur verið unnið markvisst að því að kynna hjúkrun sem áhugaverðan starfsvettvang fyrir konur, og ekki síður karla, með góðum árangri.

Víða á Norðurlöndum hefur verið unnið markvisst að því að fjölga karlmönnum í hjúkrunarstéttinni og til þess farið í kynningarherferðir, þá einkum og sér í lagi á samfélagssíðunni Facebook. Þó nokkuð fleiri karlmenn vinna við hjúkrun á hinum Norðurlöndunum. Flestir eru þeir í Svíþjóð eða um 10 prósent. Í Noregi eru þeir 9 prósent, Finnlandi 6,7 prósent og í Danmörku um 3,5 prósent.

Þrátt fyrir að skortur sé á hjúkrunarfræðingum um allan heim, hefur hlutfall karlmanna sem fara í hjúkrun haldist óbreytt. Fjölgun karla í hefðbundnum kvennastörfum hefur þannig ekki haldist í hendur við fjölgun kvenna í hefðbundnum karlastörfum. Minna er um það rætt, en ástæðurnar má meðal annars rekja til launa, staðalímynda kynjanna og skilgreiningar á karlmennsku. Það viðhorf að hjúkrun sé kvennastétt er rótgróið fyrirbæri sem á rætur að rekja til menningarlegra og sögulegra þátta.

50 ár eru síðan fyrstu karlkyns hjúkrunarfræðingarnir útskrifuðust en í dag leggja ellefu karlmenn stund á hjúkrun við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri.

Facebook-síðan fær frábærar undirtektir

Einn af liðum átaksins til að fjölga karlmönnum í stéttinni var eins og áður sagði stofnun Facebook-síðu undir nafninu Karlmenn hjúkra. Þar eru að sjálfsögðu karlmenn í faginu í aðalhlutverki en þar verða birt viðtöl við karlmenn í hjúkrun í bland við annan fróðleik og áhugavert og skemmtilegt efni sem rekur á fjörur forsvarsmanna síðunnar. Helga Ólafs, ritstjóri tímarits hjúkrunarfræðinga, segir að Facebook-síðan hafi gengið vonum framar og fengið miklar og góðar undirtektir. Nú þegar hefur síðan fengið 2.000 „læk“. Að mati Helgu var svo sannarlega orðið tímabært að setja kynningu sem þessa í loftið. Nokkrir hefðu nú þegar ákveðið að fara í hjúkrunarnámið eftir viðtöl við karlmenn í hjúkrun á Facebook-síðunni.

Hvað segja karlmenn í stéttinni um starfið, ákvörðunina um að læra hjúkrun og margt annað tengt starfinu?

Róbert Lee Tómasson er 55 ára og útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur árið 1988 og starfar sem söluráðgjafi lækningatækja hjá Fastus. Hann starfaði í björgunarsveit á yngri árum en stefndi á að vinna við hjálparstörf erlendis á vegum Rauða krossins. Hjúkrun varð þá fyrir valinu enda góður undirbúningur fyrir hvers konar hjálparstörf.

„Heilt yfir er umhverfið í starfinu samt afskaplega gefandi og heillandi.“

Námið opnar fyrir marga aðra möguleika

„Ástæðuna fyrir því að ég ákvað að fara í hjúkrunarnám má sennilega rekja til þess að á þessum árum var ég í björgunarsveit og skyndihjálp var ofarlega í huga mínum. Mig langaði alltaf að fara út í hjálparstarf og mér fannst kjörin leið til þess að komast í hjúkrunarstarf. Ég þóttist vita að þetta nám myndi opna fyrir marga möguleika,“ segir Róbert.

Aðspurður hvernig ættingjar og vinir hefðu tekið því að hann ákvað að fara í hjúkrunarnám segir Róbert Lee að þeir hefðu tekið því bara vel. „Allavega var mér ekkert strítt. Þeim fannst þetta bara sniðug hugmynd en í mínum huga er þetta ákvörðun sem ég sé aldrei eftir að hafa tekið, ekki í eina mínútu.“

  • Varðstu var við einhverja fordóma á þessum tíma?
    „Ekki beint fordóma vil ég segja. Ég fann þó þegar ég var að vinna uppi á spítala stundum að þetta var skrítið en ekki beint neinir fordómar í gangi. Þegar ég byrjaði í náminu vorum við tveir strákarnir en í kringum 80 stelpur. En eins og ég segi þá varð ég aldrei var við fordóma. Ég var þó meðvitaður þegar ég fór í þetta nám að tekjumöguleikarnir voru ekki miklir. Heilt yfir er umhverfið í starfinu samt afskaplega gefandi og heillandi,“ segir Róbert Lee.
    Róbert Lee lauk námi 1988 og vann á þriðja og fjórða árinu í hlutastarfi með náminu. Strax eftir nám fór hann að vinna á slysadeild og vann þar í rúmlega tvö ár. Síðan bauðst honum annað starf í öðrum geira í heilbrigðisstétt.

  • Hefur karlmönnum fjölgað í náminu hin síðustu ár?
    „Mér sýnist að karlmönnum í hjúkrun sé að fjölga af því að ég er í miklum tengslum við spítalana og maður er alltaf að sjá fleiri stráka. Það má segja að þeim sé að fjölga hægt og rólega. Ég hvet karlmenn til að skoða með opnum huga nám í hjúkrun. Þetta er gott nám og opnar fyrir afar marga möguleika. Það er alls ekki svo að maður sé að skeina rassa það sem eftir er ævinnar. Það er hægt að vinna við svo mörg fjölbreytileg störf tengdri hjúkruninni. Kröfurnar í náminu eru miklar og maður þarf svo sannarlega að hafa fyrir þessu, þetta er langt frá því gefið.“

Laun hjúkrunarfræðinga hafa lengi verið í umræðunni og segir Róbert Lee að launin hafi ekki verið góð lengi vel. Hann segir að hægt sé að hafa ágætlega upp úr starfinu með því að taka aukavaktir og komast í stjórnunarstöður. Grunnlaunin eru aftur á móti, eins og í mörgum ríkisstörfum, alls ekki nógu góð.

Tilganginn með átakinu Karlmenn hjúkra segir Róbert hafa verið að vekja karlmenn til umhugsunar um að skoða þann möguleika af alvöru að fara í hjúkrunarnám. Erlendis fara miklu fleiri karlmenn í þetta nám og þar af leiðandi eru þeir töluvert fleiri að störfum á spítölum þar en hér heima. Hann segir brýnt að á þessu verði breyting og vonandi gerist það á næstu árum.

Ingi Þór Ágústsson er 44 ára gamall og útskrifaðist úr hjúkrunarfræði árið 1997 og síðar úr MPA-námi (Master of Public Administration). Hann hefur verið viðskiptastjóri hjá Icepharma frá árinu 2009. Eftir útskrift úr hjúkrunarfræðinni hóf hann störf á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað og starfaði þar á almennri deild. Árið 1998 hóf hann störf fyrir Friðargæsluna og starfaði í tæplega ár í breska hernum í Bosníu-Hersegóvínu. Að því loknu hóf hann störf á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og vann bæði á skurð- og slysadeild sem og almennum deildum í fimm ár.

„Ég hef svo gaman af mannlegum samskiptum og ætli það hafi ekki verið meginástæðan fyrir því að ég valdi hjúkrun. Ég sá líka fyrir mér að þetta gæti orðið skemmtilegt starf í fjölbreyttu umhverfi. Það þarf ekki endilega að vinna á sjúkrahúsi eins raunin hefur orðið í mínu tilfelli. Ég tók mér frí í eitt ár eftir menntaskólann og í kjölfarið tók ég þá ákvörðun að fara í hjúkrunarnám. Ég sé aldrei eftir þeirri ákvörðun en launin hefðu mátt vera betri á þessum tíma. Maður er búinn að kynnast mörgu góðu og skemmtilegu fólki og hefur búið víðs vegar um landið og erlendis,“ sagði Ingi Þór.

Ingi Þór segist ekki hafa svör á takteinum um af hverju karlmenn hafi ekki sýnt þessu fagi áhuga. Kannski að einhverju leyti vissir fordómar, lág laun og lengstum hefur þetta verið kvenmannsstétt. „Þetta eru ástæðurnar að mínu mati sem hafa aftrað karlmönnum að fara út í hjúkrunarnámið.“

Að starfa á sjúkrahúsi er skemmtilegt

„Ég er nokkuð viss um að á þessu verður breyting á næstu árum þegar ungt fólk áttar sig á því að starfið er mjög fjölbreytilegt á allan hátt. Að starfa á sjúkrahúsi er skemmtilegt, þar vinnur meginþorri í hjúkrunarstétt, en ýmsir aðrir möguleikar eru í boði. Það má ekki gleyma því í þessari umræðu að námið er krefjandi og það þarf að leggja hart að sér. Námið er umfram allt áhugavert og eitthvað sem maður býr að alla ævi. Launin og vaktavinnan heillar ekki einhverja og svo hefur umræðan um umönnunarstéttir í samfélaginu ekki verið beinlínis hvetjandi og hamlað því að karlmenn leggi þetta fag fyrir sig. Það eru hins vegar margir kostir í starfinu og ég hvet karlmenn til að skoða þennan möguleika af alvöru. Ekki loka dyrum, vertu heldur jákvæður því starfið er gefandi í góðu umhverfi. Þetta hefur verið gríðarlega góður skóli hvað mig varðar og ég sé aldrei eftir að hafa gengið þennan veg,“ segir Ágúst Þór.

Birgir Örn Ólafsson er 36 ára Hvergerðingur, kvæntur og tveggja barna faðir. Hann útskrifaðist úr hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2004, lauk diplómanámi í skurðhjúkrun frá HÍ árið 2008 og var að útskrifast úr meistaranámi í júní síðastliðnum. Birgir er skurðhjúkrunarfræðingur og starfar á skurðstofum Landspítala við Hringbraut og hefur gert meira eða minna síðan hann var hjúkrunarnemi. Einnig er hann í hlutastarfi á heilbrigðis- og upplýsingadeild Landspítala sem klínískur ráðgjafi.

„Hugmyndin að stofnun þessarar Facebook-síðu þar sem við erum að hvetja karlmenn til að fara í hjúkrun kemur frá Helgu Ólafs sem er ritstjóri Tímarits hjúkrunarfræðinga. Hún heldur utan um síðuna og skrifar inn á hana. Það er stefna Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga að fjölga hjúkrunarfræðingum og þá ekki síst karlmönnum í stéttinni og hefur umfjöllun um þetta efni birst af og til í Tímariti hjúkrunarfræðinga. Liður í þessari vakningu var að stofna síðuna Karlmenn hjúkra,“ segir Birgir Örn.

Var ákveðinn sem unglingur í að verða hjúkrunarfræðingur

Birgir Örn segir að hann hafi sem unglingur verið ákveðinn í að verða hjúkrunarfræðingur. Það var það sem hann langaði til að gera og hann sjái ekki eftir því. Starfið er skemmtilegt, fjölbreytt og ekki síður fyrir karlmenn en konur.

„Það sem hefur kannski haldið aftur af karlmönnum að fara í hjúkrunarfræði er að þetta hefur af mörgum verið talið kvennastarf. Við verðum að koma því meira á framfæri hvað hjúkrunarstarfið felur í sér og hvað það er fjölbreytt. Með því væri hægt að fjölga hjúkrunarfræðingum og þá sér í lagi karlmönnum í stéttinni. Margir hafa kannski einnig skakka mynd af vinnutímanum og við séum alltaf að vinna á þrískiptum vöktum og mikil kvöld- og næturvinna sé þar að baki. Þetta er bara alls ekki þannig því ég held að allt að helmingur hjúkrunarfræðinga á Íslandi vinni nær eingöngu dagvinnu. Mikið af hjúkrunarstörfum er unnið á daginn eins og í skurð- og svæfingarhjúkrun, vinna á göngu- og dagdeildum og í heilsugæslunni. Einnig er hægt að benda á kennslu og rannsóknarvinnu sem hjúkrunarfræðingar eru að sinna af miklum dug. Ef við gerum fleirum það ljóst að þetta er fjölbreytt starf gætum við snúið þessari þróun við. Flestir sem á annað borð hafa áhuga á störfum í þessum geira geta örugglega fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir Birgir Örn.

Birgir Örn segir að heilbrigðisráðherra hafi gefið það út nýlega að það þyrfti að fjölga hjúkrunarrýmum um 400. Það þýðir að það vantar hjúkrunarfræðinga af báðum kynjum á næstu árum. Karlmenn eiga ekki síst að skoða hjúkrun sem hugsanlegan starfsvettvang.

„Það er hugsanlegt að launin hafi fælt karlmenn frá hjúkrunarfræðinni.“

„Það er hugsanlegt að launin hafi fælt karlmenn frá hjúkrunarfræðinni. Laun hjúkrunarfræðinga hjá hinu opinbera eru ekki mikið síðri en hjá öðrum starfsstéttum, hvort sem um er að ræða viðskipta- eða lögfræðinga svo eitthvað sé nefnt. Launin hafa svo sannarlega skánað hjá hjúkrunarfræðingum og launin eiga því ekki að fæla frá fólk sem er að hugsa um að leggja hjúkrunina fyrir sig. Ég er ánægður í mínu starfi, vinn mikið í teymisvinnu sem skurðhjúkrunarfræðingur sem hentar mér vel. Svo eru aðrir sem velja sér að vinna á hjúkrunardeildum og allt þar á milli. Starfið er fjölbreytt og ég skora á alla að skoða þennan möguleika til hlítar,“ segir Birgir Örn.


Starf hjúkrunarfræðingsins

Laun:

Algeng dagvinnulaun nýútskrifaðs hjúkrunarfræðings eru um 359 þúsund kr. á mánuði miðað við fullt starf og heildarlaun í kringum 467 þúsund. Meðal dagvinnulaun hjúkrunarfræðinga eru 488 þúsund kr. og heildarlaun um 679 þúsund miðað við fullt starf. Hjúkrunarfræðingar eru að meðaltali í 80 prósent starfshlutfalli. Flestir hjúkrunarfræðingar vinna vaktavinnu en einnig vinnur talsverður hluti hjúkrunarfræðinga dagvinnu. Mun á dagvinnulaunum og heildarlaunum hjúkrunarfræðinga má að stórum hluta rekja til greiðslu fyrir vaktaálag vegna vinnu á kvöldin, um helgar og á stórhátíðardögum en einnig vegna yfirvinnu sem til kemur vegna álags og manneklu á vinnustöðum hjúkrunarfræðinga.

Álag í starfinu:

Hjúkrunarfræðingar starfa á mismunandi stöðum í heilbrigðiskerfinu. Flestir hjúkrunarfræðingar vinna á Landspítala og öðrum heilbrigðisstofnunum en einnig vinna hjúkrunarfræðingar á heilsugæslustöðvum, öldrunarstofnunum, endurhæfingarstofnunum, dvalarheimilum og ýmsum öðrum stofnunum innan heilbrigðiskerfisins. Einnig vinnur talsverður hluti hjúkrunarfræðinga hjá einkaaðilum eins og lyfjafyrirtækjum, fyrirtækjum sem starfa að vinnuvernd og fyrirtækjum sem selja hjúkrunar- og lækningavörur. Álag í starfi hjúkrunarfræðinga er misjafnt eftir því hvar innan heilbrigðiskerfisins þeir starfa. Flestir hjúkrunarfræðingar þurfa að vinna undir miklu vinnuálagi í starfi vegna fjölda veikra skjólstæðinga, fjölgunar aldraðra og skorts á hjúkrunarfræðingum til starfa. Forgangsatriði flestra hjúkrunarfræðinga er þó öryggi skjólstæðinga sinna og einnig að veita þeim sem besta hjúkrun. Það tekst sem betur fer oft en vegna álagsins þurfa hjúkrunarfræðingar oft að forgangsraða í störfum sínum til að tryggja að skjólstæðingar þeirra fái góða og örugga hjúkrun.

Námið

Hjúkrunarnámið er fjögurra ára, 240 eininga nám. Hjúkrunarfræði er kennd í hjúkrunarfræðideild HÍ og HA. Það byggir á bæði bóklegu og verklegu námi og lýkur með BS-gráðu. Hægt er að bæta við sig bæði meistara- og doktorsnámi í hjúkrun við hjúkrunarfræðideild HÍ auk þess sem deildin býður upp á diplómanám á ýmsum sérsviðum hjúkrunar. Má þar nefna gjörgæsluhjúkrun, svæfingarhjúkrun, skurðhjúkrun, öldrunarhjúkrun, geðhjúkrun, hjúkrun aðgerðarsjúklinga og viðbótarnám í hjúkrunarstjórnun. Háskólinn á Akureyri býður einnig upp á framhaldsnám. Þar er boðið upp á þverfaglegt diplóma og meistaranám í heilbrigðisvísindum. Í HA er hægt að stunda hjúkrunarnám í fjarnámi.

Námið er fjölbreytt og nýtist vel bæði innan og utan heilbrigðiskerfisins. Atvinnumöguleikar hjúkrunarfræðinga erlendis eru einnig miklir og fjölbreyttir. Að námi loknu geta hjúkrunarfræðingar valið sér starf á ýmsum sviðum hjúkrunar, í heilsugæslu, á sjúkrahúsum, á öldrunarstofnunum, í kennslu og stjórnun.

Skólarnir

Tveir háskólar bjóða upp á nám í hjúkrunarfræði, Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri. Grunnnám hjúkrunarfræðinga er fjögur ár og eftir námið útskrifast hjúkrunarfræðingar með B.Sc.-gráðu í hjúkrunarfræði. Til að mega starfa sem hjúkrunarfræðingur þarf viðkomandi að hafa gilt hjúkrunarleyfi og öðlast hann það eftir að hafa lokið námi í hjúkrunarfræði. Hjúkrunarfræðingar geta bætt við sig námi að loknu grunnámi og geta þá farið í meistaranám í hjúkrunarfræði sem er tveggja ára nám eða diplómanám í ýmsum sérgreinum hjúkrunar. Einnig er algengt að hjúkrunarfræðingar bæti við sig námi í öðrum greinum eins og viðskiptafræði, lögfræði eða opinberri stjórnsýslu.

Mikil ganga

Sem dæmi má nefna að vaktstjóri á bráðamóttöku gengur um ellefu kílómetra á annasamri átta klukkustunda vakt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
14.05.2024

Vodafone gerir tímamótasamning um internettengingar í bíla

Vodafone gerir tímamótasamning um internettengingar í bíla
Kynning
09.05.2024

UAK 10 ára – Ráðstefna á laugardaginn

UAK 10 ára – Ráðstefna á laugardaginn
Kynning
27.03.2024

Dreymir þig um lúxussiglingu um fallegustu eyjur Króatíu? – Gerðu drauminn að veruleika 

Dreymir þig um lúxussiglingu um fallegustu eyjur Króatíu? – Gerðu drauminn að veruleika 
Kynning
27.03.2024

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“
Kynning
28.12.2023

Gefa bretti af flugeldum að verðmæti 243.500kr

Gefa bretti af flugeldum að verðmæti 243.500kr
KynningMatur
22.12.2023

Skúbblerone er nýr hátíðarís hjá Skúbb

Skúbblerone er nýr hátíðarís hjá Skúbb
Kynning
06.11.2023

Æfinga eða keppnisferð íþróttafélaga í útlöndum

Æfinga eða keppnisferð íþróttafélaga í útlöndum
Kynning
29.10.2023

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“