Hvað á að gera um helgina?
„Á föstudaginn ætla ég að heimsækja heldri borgara okkar á Nesinu sem verða með kynningu á félagsstarfi sínu á Skólabrautinni í tilefni af Menningarhátíð Seltjarnarness en hún stendur yfir nú um helgina. Einnig mun ég hlusta á leikskólabörn syngja á Eiðistorginu og skoða sýningu þeirra á bókasafninu sem er á annarri hæð á torginu. Kvöldinu mun ég verja með fjölskyldunni en hefð er fyrir því hjá okkur að borða góðan mat í helgarlokin, gjarnan indverskan. Kannski kveikjum við líka upp í arninum fyrst það er tekið að hausta.
Á laugardaginn verður nóg að gera. Ég mun byrja daginn á því að undirbúa morgunverðarborð á Eiðistorgi fyrir bæjarbúa með systrum mínum í Soroptimistaklúbbi Seltjarnarness. Í tilefni menningarhátíðarinnar hefur skapast sú hefð að bjóða bæjarbúum til morgunverðar og gleðja gesti og gangandi með ljúfum tónum. Þar verður líka margt í boðið fyrir yngri kynslóðina, til dæmis andlitsmálun og blaðrarar. Að þessu loknu er ætlunin að kíkja á glæsilega dagskrá sem verður á Bókasafni Seltjarnarness fram eftir degi, meðal annars tækni og tónlist með Kóder og DJ flugvél og geimskip sem verða með tónlistaratriði. Því næst verður haldið í Lækningaminjasafnið þar sem fram fara tónleikar – Fuglakabarett eftir Daníel Þorsteinsson og Hjörleif Hjartarson sem Söngfjelagið flytur. Hápunktur kvöldsins verður svo tónleikarnir með Lay Low og Pétri Ben í Félagsheimili Seltjarnarness en ég er mjög spennt fyrir þeim. Við hjónin ætlum ekki að missa af þessum tónleikum.
Á sunnudögum erum við fjölskyldan gjarnan með „brunch“, eða dögurð, eins og það heitir á íslensku og það stendur til að vera með góðan dögurð næsta sunnudag að lokinni Listgöngu um Nesið þar sem Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur ætlar að leiða hóp listunnenda í fróðlegri göngu um útilistaverkin á Nesinu. Eftir dögurðinn mun leið okkar liggja í Félagsheimili Seltjarnarness þar sem heiðursdagskrá um Jóhönnu Kristjónsdóttur rithöfund fer fram.
Lokahnykkurinn á helginni verður spuni og söngur sem er framlag Nínu Daggar Filippusdóttur bæjarlistamanns en hún ánafnaði verðlaunafénu sínu í Improv-námskeið sem stóð öllum nemendum Valhúsaskóla til boða. Þegar dimma tekur á sunnudagskvöld ætla ég að leggjast upp í sófa og slaka á við kertaljós með mínum uppáhalds, vonandi með bros á vör eftir að hafa upplifað og drukkið í mig alla þessa menningu og skemmtun.“