Eins og alþjóð veit mun Ísland leika gegn Argentínu í Moskvu á laugardaginn. Hallgrímskirkja ætlar svo sannarlega að taka þátt í stemmingunni en klukkur kirkjunnar munu leika lagið Ferðalok, eða Ég er kominn heim, skömmu áður en leikurinn hefst.
Leikurinn byrjar klukkan 13:00 en klukkan 12:50 mun lagið hljóma í kirkjuklukkunum. Irma Óskarsdóttir, prestur í Hallgrímskirkju, var ánægð með uppátækið þegar DV ræddi við hana í dag.
„Okkur langaði bara að vera með í stemmingunni í þjóðfélaginu og það er gaman að geta notað klukkuspilið okkar í það,“ segir Irma í samtali við DV.
Ferðalok verður ekki eina lagið sem mun óma úr kirkjunni þessa helgina því ákveðið hefur verið að spila þjóðsönginn klukkan 12 á hádegi á þjóðhátíðardaginn, sunnudag. „Þetta er bara tilraun til að kynna þetta skemmtilega hljóðfæri,“ segir Irma.