fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024
Fókus

Adrift hvorki sekkur né siglir: Þrautseigja og geispi með golunni

Tómas Valgeirsson
Föstudaginn 15. júní 2018 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

NÝTT Í BÍÓ
Leikstjóri: Baltasar Kormákur
Framleiðendur: Shailene Woodley
Handrit: Aaron Kandell, Jordan Kandell, David Branson Smith
Kvikmyndataka: Robert Richardson
Aðalhlutverk: Shailene Woodley, Sam Claflin

Í stuttu máli: Shailene Woodley kemur vel út í mynd sem auðvelt er að dást að en erfiðara að sogast að.

Oft veit maður ekki hversu dýrmætt fyrirbæri lífið er fyrr en móðir náttúra ákveður að láta til sín taka í stórri sveiflu. Í hamfarasögunni Adrift er rekin sönn lífsreynslusaga Tami Oldham Ashcraft og unnusta hennar. Árið er 1983 og halda þau saman í skútusiglinu frá Tahíti til San Diego en á miðri leið lenda þau í fjórða stigs fellibyl og fer allt í rúst. Þegar Tami vaknar er báturinn ónýtur, maðurinn horfinn og litlar líkur á björgun. Þá verður Tami að nota eðlishvötina, vonina, mátt minninganna og grjótharðan baráttuvilja til að sigrast á dvínandi lífslíkum á sjó.

Það er aldrei sjálfsagt mál að stórbrotin raunasaga verði áreynslulaust að stórbrotinni kvikmynd og þar siglir Adrift einhvers staðar á milli bitlausrar, rómantískrar vasaklútamyndar og meiriháttar sterkrar ófarasögu. Stundum er jafnvel eins og aðstandendur séu ekki alveg vissir um hvorn fótinn á að stíga í, því myndin gengur ekki upp sem hvort tveggja. Hún er í flesta staði vönduð á yfirborðinu (og sérstakt hrós til förðunardeildar og kvikmyndatökuliðs) þó grunn sé og skilur álíka mikið eftir sig og síðdegissápa á blautum sunnudegi.

Ólínulegur strúktúr spillir fyrir

Adrift er fyrst og fremst frábært sýnidæmi um leikgetu ungu leikkonunnar Shailene Woodley. Það er nánast ómögulegt fyrir áhorfandann að finnast hana ekki trúverðug í krefjandi aðalhlutverkinu og hennar baráttu. Þau Sam Claflin ná vel saman en verða í sameiningu fyrir bölvun stirðra samtala, yfirleitt í atriðum með kraft að markmiði sem enda í melódramatík. Meira geisp heldur en gasp, því miður. Handritið minnir reglulega á það hvað Woodley og Claflin elska hvort annað og eru ástfangin, en myndin skautar svolítið yfir dýptina í sambandinu þeirra. Oft skrifast þetta á ólínulegan strúktúr myndarinnar.

Myndin fær svo sannarlega prik fyrir að segja stóran hluta sögunnar í tættum endurlitum, en heildin græðir lítið á dýnamískum strúktúr þegar hann hefur áhrif á dramabyggingu og er mestmegnis notaður í þágu stórrar sögufléttu. Stundum eru skiptingar milli sena truflandi og eru kostir og gallar við að nota fellibylinn aftarlega í sögunni. Oft er líka meira sagt upphátt en þörf er á og gengur stóra fléttan ekki alveg upp eða hvernig spilað er með hana.

Kjarnakona í blíðu og stríðu

Adrift er tólfta kvikmynd Baltasars í fullri lengd og fylgir henni ögn meiri áhersla á blíðu og von en hefur yfirleitt örlað fyrir í kvikmyndum Baltasars. Leikstjórinn nær hins vegar að græja eins mikinn náttúrulegan blæ og hann getur. Þegar leikstjórar kippa með sér færasta kvikmyndatökumanni heims (sem sagt Robert Richardson – sem unnið hefur reglulega með Scorsese, Stone og Tarantino) er lítill séns á týpískum Hollywood-glansi yfir áferðinni.

Að mati undirritaðrar hefur Claflin í raun og veru meiri skjátíma en þurfti, enda bestu senurnar oftast þær sem sýna Woodley algjörlega berskjaldaða gegn náttúrunni og þróun hennar, drífanda og áskoranir.

Adrift segir í rauninni og gerir fátt betur en var ekki miklu betur tæklað í til dæmis háskamyndunum All is Lost eða Life of Pi jafnvel á vissan hátt. Annars er alveg skiljanlegt að margir sjái þessa mynd sem „Cast Away fyrir Fault in Our Stars eða Titanic-kynslóðina.“ Þá væri vissulega Sam Claflin blakboltinn í þessu tilfelli, en hann nær ómögulega sama sjarma og Wilson heitinn gerði á sínum tíma.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Umpólun Snorra?

Nýlegt

Umpólun Snorra?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Skipulögð brotastarfsemi mikið áhyggjuefni

Skipulögð brotastarfsemi mikið áhyggjuefni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Dularfull eftirlýsing lögreglunnar á Norðurlandi vestra vekur athygli – „Ætlið þið að vera með skemmtiatriði hjá þeim sem svara?“

Dularfull eftirlýsing lögreglunnar á Norðurlandi vestra vekur athygli – „Ætlið þið að vera með skemmtiatriði hjá þeim sem svara?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“