fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fókus

TÍMAVÉLIN – 6 íslenskar hljómsveitir sem reyndu að meika það: „Við vorum eiginlega bara mjög óheppnir“

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 18. júní 2018 22:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Að „meika“ það á erlendri grundu er orðið Íslendingum eðlislægt. Það mætti segja að Ísland sé „in“ eða „hipp og kúl“ úti í hinum stóra heimi þar sem frægðin og peningarnir eru.

Björk, Sigur Rós, Of Monsters and Men, Kaleo og Jóhann Jóhannsson heitinn eru dæmi um íslenska sigurgöngu erlendis.

En þetta var ekki alltaf svo því að flestar „meik“-tilraunir fyrri áratuga enduðu í vonbrigðum og niðurlægingu, bæði fyrir tónlistarmennina sjálfa og íslenska aðdáendur sem voru þess fullvissir að „meikið“ myndi heppnast.

Hljómar – Bítlalíki

Hljómar voru ein goðsagnakenndasta hljómsveit Íslands, hinir svokölluðu „íslensku Bítlar“ og samkvæmt því áttu þeir tilkall til að verða stórstjörnur á alþjóðavettvangi líkt og hinir raunverulegu Bítlar.

Hljómsveitin var stofnuð árið 1963 í Keflavík, á hápunkti Bítlaæðisins, af meðlimum úr hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar og meðal liðsmanna voru Gunnar Þórðarson og Rúnar Júlíusson. Eftir tónleika í Háskólabíói þann 4. mars árið 1964 slógu þeir í gegn. Í frétt Morgunblaðsins segir:

„Þegar hávær strengjasláttur hljómsveitanna og skerandi óp söngvaranna, dundu við sem hæst, missti mikill hluti áheyrendanna stjórn á sér og klappaði af sefjun, æpti og stappaði niður fótunum, sumir í gólfið, en aðrir dönsuðu á stólsetum eða jafnvel stólbökum. Sumir drengjanna drógu af sér jakkana og hentu þeim í loft upp í hita leiksins.“

Hljómar voru orðnir stórstjörnur á einni nóttu og spiluðu um allt land í kjölfarið. En það dugði ekki og því var haldið út til Liverpool og spilað á sjálfum Caven-klúbbnum þar sem fyrirmyndirnar urðu til. Stefnan var sett á heimsyfirráð.

Enn var leitað í viskubrunn Bítlanna og ákveðið að framleiða kvikmynd. Kom hún út árið 1966 og hét á íslensku Sveitaball en á ensku Umbarumbama. Hljómsveitin gekk þá undir nafninu Thor’s Hammer, sterk vísun í sögulega arfleið, og spilaði nokkur af sínum helstu lögum á ensku í myndinni enda var hún hugsuð fyrir breskan markað.

Upptökurnar haustið 1965 voru teknar upp í hljóðveri EMI á vegum Parlophone, sem einnig gaf út Bítlaplöturnar.

En Umbarumbama floppaði allharkalega og Íslendingar höfðu ekki einu sinni áhuga á að sjá hana í kvikmyndahúsi.

Við hljómsveitina bættist söngkonan Shady Owens sem gaf henni alþjóðlegan blæ og tilboð bárust frá hermönnum frá Keflavíkurstöðinni um að fljúga vestur um haf til að spila víðs vegar í sjálfri Ameríku en einhvern veginn raungerðist það aldrei.

Fyrsta hljómplatan kom svo út árið 1967 en þá höfðu Hljómamenn misst trúna á „meikinu“ og ákváðu að einbeita sér að Íslandsmarkaði.

Hljómar, sem hættu árið 1969, náðu þó vissri erlendri frægð löngu síðar því á tíunda áratug síðustu aldar uppgötvuðu plötusafnarar Thor’s Hammer og rauk Umbarumbama-platan upp í verði.

Tíminn 16. desember 1987

Strax eða Aldrei

Partísveitin og flippgeltirnir í Stuðmönnum eru á sama tíma jafn íslenskir og lambakjöt en einnig með útlandaþrá sem varað hefur frá því að sveitin var stofnuð á áttunda áratug síðustu aldar.

Fyrsta plata þeirra ber þess greinilega merki en hún innihélt tvö lög, Honey Will You Marry Me? og Whoops-Scoobie-Doobie frá árinu 1974.

Árið 1982 komu Stuðmenn og Grýlurnar fram í kvikmyndinni Með allt á hreinu sem var þýdd sem On Top fyrir erlendan markað. Útlendingum þótti hins vegar ekki mikið til hennar koma og í L.A. Times stóð að myndin fjallaði um „íslenska furðufugla í skrýtnum fötum.“

Verslunarfulltrúi kínverska alþýðulýðveldisins sá myndina og bauð Stuðmönnum og Ragnhildi Gísladóttur út en þau komu þá fram undir heitinu Strax og sungu á ensku. Strax fór til Kína vorið 1986 og hélt fjórtán tónleika og var gerð heimildamynd um þá ferð, Strax í Kína. Hljómsveitin var þá meðal allra fyrstu vestrænu sveitunum sem komu fram í kommúnistaríkinu.

Síðan þá hafa Stuðmenn margsinnis leitað út fyrir landsteinana, til dæmis með tónleikum í Royal Albert Hall í London árið 2005 og Djass fílharmóníusalnum í Sankti Pétursborg ári síðar, en þá passað sig á því að ofmetnast ekki og sungið á hinu ylhýra móðurmáli.

DV 31. ágúst 1991

Sálin hans Jóns míns – Barðir niður

Árið 1988 kom hljómsveit með því undarlega nafni Sálin hans Jóns míns fram á sjónarsviðið og átti eftir að verða óumdeildir konungar hins íslenska sveitaballapopps, krúna sem þeir halda enn nítján plötum seinna.

Á einhvern hátt náðu þeir að klastra saman enn furðulegra nafni þegar þeir ætluðu sér að „meika“ það árið 1991, Beaten Bishops sem sumir töldu vísun í sjálfsfróun. Þetta ár áttu Biskuparnir börðu tvö lög á kynningarsafnplötunni Icebreakers, sem innihélt íslenska úrvalstónlist með enskum textum. Þetta voru Follow My Footsteps (Eltu mig uppi) og Where’s My Destiny (Hvar er draumurinn).

Eftir það var haldið í víking til Skandinavíu og tróð sveitin upp í Danmörku, Noregi og Svíþjóð árin 1991 og 1992. En ljóst var að ekki einu sinni náfrændur okkar kunnu að meta Sálina jafn vel og Íslendingar og var því ákveðið að halda sig við að troðfylla Ýdali og Njálsbúð hvert sumar í staðinn.

En „meikdraumurinn“ dó aldrei og árið 2012 voru Biskuparnir særðir upp fyrir tónleika á Spot í Kópavogi, sömu helgi og tónlistarhátíðin Iceland Airwaves var haldin. Var það gert í þeirri von að erlendir uppþefarar myndu ramba inn og uppgötva snilldina en svo varð auðvitað ekki.

DV 10. janúar 1997

Botnleðja – Á botninum

Sveitin Botnleðja breytti íslensku tónlistarlífi þegar hún sigraði í Músíktilraunum árið 1995 með sínu ofur hressa og næfa pönki. Fyrir hýruna tóku þeir upp frumburðinn Drullumall á aðeins 24 stúdíótímum en síðan tók alvaran við.

Ári síðar þegar þeir voru að taka upp sína aðra plötu römbuðu meðlimir bresku rokkhljómsveitarinnar Blur inn á tónleika hjá þeim og hrifust af. Í kjölfarið buðu Damon Albarn og félagar Botnleðju að hita upp fyrir þá í Laugardalshöllinni og gekk það svo vel að Hafnfirðingunum þremur var boðið á túr um Bretland. Þetta var slegið, heimsfrægðin var handan við hornið.

Botnleðja tók beinþýðinguna á þetta og tók upp nafnið Silt á Blur-túrnum og Haraldur sagði að eftir á hafi það verið mistök. Þeir fengu góðar viðtökur og vilyrði fyrir plötusamning við Island Records en hann kom aldrei. Urðu þeir að láta sér duga samning við norskt fyrirtæki og túr um hina köldu firði þar í landi.

„Við byrjuðum í þessu á algjörlega vitlausum enda. Við höfðum aldrei spilað utan Íslands áður en þarna fórum við í túr með einu stærsta bandi Bretlands og það var uppselt á öll gigg. Þetta var absúrd,“ sagði Haraldur Gíslason trymbill í viðtali við DV í nóvember síðastliðnum.

Önnur atlagan að „meiki“ kom í gegnum Eurovison árið 2003 en Botnleðja hafnaði þá í öðru sæti íslensku sjónvarpskeppninnar. Haraldur og félagi hans, Heiðar Örn Kristjánsson, náðu hins vegar til umheimsins í annarri tilraun, en þá með leikskólabandinu Pollapönki sem vakti mikla athygli í Eurovision árið 2014 og var síðasta íslenska framlagið til að komast upp úr undanriðli.

DV 8. nóvember 2000

Land og synir – Óheppnir

Sumarið 1997 kom fram sjóðheitt band frá Hvolsvelli sem bar heitið Land og synir með vísun í þekkta skáldsögu Indriða G. Þorsteinssonar.

Lag þeirra Vöðvastæltur sat á toppi íslenska listans í margar vikur um sumarið og haustið og hljómsveitin fylgdi velgengninni eftir.

Samkvæmt heimildum DV heyrðu ballgestir í Miðgarði í Skagafirði hljómsveitina spila Vöðvastæltur samanlagt sjö sinnum sama kvöldið.

Árið eftir fylgdu þeir vinsældunum eftir og gáfu út plötuna Alveg eins og þú við miklar vinsældir en svo ákváðu Hreimur Heimisson og félagar að láta taka sig alvarlega.

Platan Herbergi 313 var að hluta tekin upp í Danmörku og horfið var frá hinu glaða og ungæðislega íslenska sveitaballapoppi. Nú skyldi herja í víking og hljóðritaðar voru enskar útgáfur af lögunum.

Sunnlendingarnir komust í kynni við Jive Jones, bandarískan framleiðanda sem staðsettur var hér á landi.

Hann hreifst af og haustið 2000 var Hreimur sendur til Bandaríkjanna á fundi við stórbokka úr upptökubransanum. Árið 2001 fór hljómsveitin til New York eftir að hafa spilað á þorrablóti í Miami og skrifað var undir sex plötu samning. Fyrsta platan var tekin upp en aldrei gefin út og skömmu eftir það lognaðist sveitin út af.

Land og synir hefur starfað með hléum síðan og meðal annars spilað í Færeyjum árið 2006:

„Við vorum eiginlega bara mjög óheppnir,“ sagði Hreimur um „meikið“ í viðtali við Vísi árið 2010.

DV 21. júlí 2006

Næfurþunnt Nylon

Úr hugarheimi Einars Bárðarsonar spratt stúlknasveitin Nylon árið 2004 og nafnið eitt og sér gaf til kynna að landhelgi Íslands átti ekki að verða endimörk frægðarinnar.

Ekki reyndist erfitt að tryggja sér vinsældir innanlands og fljótlega vildu allar ungar stúlkur verða Klara, Alma, Camilla eða Emilía. Fyrstu tvö árin fóru í að leggja grunninn hér heima, með hverju topplistalaginu á fætur öðru, bók og DVD-safni.

Þegar lagið Losing a Friend birtist á breska vinsældalistanum í júlí árið 2006 kom það fæstum á óvart. Hinar íslensku Spice Girls voru fæddar. En síðan hófst biðin langa því önnur lög sem sveitin gaf út náðu ekki í gegn.

Árið 2007 kvarnaðist úr Nylon þegar Emilía kvaddi sveitina fyrir hið rólega líf en mögulega hefur hún séð að „meikið“ var ekki að ganga upp. Engar frekari plötur komu út og árið 2008 lagðist hljómsveitin í dvala.

Eftir þriggja ára svefn kom sveitin endurnærð til baka en þá undir nýju nafni, The Charlies, og með nýja töffaraímynd.

Eins og rjúpa við staur rembdust The Charlies í fjögur ár en gaf ekki út neina breiðskífu og árið 2015 var dauði hljómsveitarinnar staðfestur.

Blessuð sé minning þeirra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Íslendingar nefna jólakvikmyndirnar sínar – „Árið 2010 horfði ég á hana og var þá að bíða eftir því að dóttir mín fæddist, sem hún svo gerði á aðfangadag“

Íslendingar nefna jólakvikmyndirnar sínar – „Árið 2010 horfði ég á hana og var þá að bíða eftir því að dóttir mín fæddist, sem hún svo gerði á aðfangadag“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Pabbarnir eru nánast algjörlega fjarverandi“

„Pabbarnir eru nánast algjörlega fjarverandi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ragnhildur segir valdeflandi að setja erfiðum fjölskyldumeðlimum skýr mörk

Ragnhildur segir valdeflandi að setja erfiðum fjölskyldumeðlimum skýr mörk
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólalestin mun keyra sinn árlega hring um höfuðborgarsvæðið í 30. skiptið

Jólalestin mun keyra sinn árlega hring um höfuðborgarsvæðið í 30. skiptið