Afplánar eftirstöðvar dómsins undir rafrænu eftirliti – Hlaut þriggja ára dóm í september 2015 fyrir kynferðisbrot gegn níu drengjum
Sigurður Ingi Þórðarson, sem þekktur er undir nafninu Siggi hakkari, hefur lokið afplánun í fangelsi og hefur fengið að snúa heim til sín. Þar mun hann afplána það sem eftir er af þriggja ára dómi sem hann hlaut fyrir kynferðisbrot gegn níu piltum. Þar verður honum gert að sæta rafrænu eftirliti með svokölluðu ökklabandi. Siggi hakkari var dæmdur í fangelsi í september fyrir tæpu ári. Ástæða þess að hann er nú laus eru nýjar reglur um fullnustu refsinga en stefna fangelsismálayfirvalda er að koma föngum sem fyrst á rafrænt eftirlit og eru þeir nú þar lengur en áður tíðkaðist. Telja yfirvöld að það hjálpi til að gera fanga að góðum og gildum samfélagsþegnum.
Sigurður Ingi hefur hlotið þrjá fangelsisdóma með skömmu millibili, samtals til 5 ára og 8 mánaða. Í febrúar 2014 var hann dæmdur í átta mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir að tæla 17 ára dreng til kynferðismaka með blekkingum. Þann 13. mars sama ár undirgekkst Sigurður Ingi sektargreiðslu vegna þjófnaðar. Þá var hann dæmdur í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi í desember 2014 fyrir umfangsmikil fjársvik gegn fyrirtækjum og einstaklingum. Alls var hann dæmdur til að greiða um átta milljónir í miskabætur.
Þann 23. september 2015 var Sigurður Ingi dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir að hafa brotið kynferðislega gegn níu piltum. Þá var honum gert að greiða 8,6 milljónir í miskabætur og rúmar sex milljónir króna í sakarkostnað. Sigurður Ingi hafði samskipti við drengina á netinu og lofaði þeim peningagreiðslum og að þeir fengju margs konar vörur, til dæmis símtæki, tölvur, bifreiðar og jafnvel fasteignir, í skiptum fyrir munn- og endaþarmsmök. Þá lofaði hann því að hann gæti lagfært námsferil sumra drengjanna með tölvukunnáttu sinni. Flestir piltanna voru á aldrinum 15 til 16 ára þegar brotin áttu sér stað. Í niðurstöðum geðrannsóknar yfir Sigurði Inga, sem kom fram í gæsluvarðhaldsúrskurði undir lok árs 2014, kom fram að hann væri siðblindur og að vandi hans fælist í hömluleysi og erfiðleikum við að fresta fullnægingu hvata. Þá iðrist hann ekki gjörða sinna og geti ekki sýnt merki um djúpa sektarkennd.
Á meðfylgjandi mynd sést Sigurður Ingi þvo ótilgreindan bíl en myndasmiðnum var brugðið að sjá manninn lausan úr fangelsi eftir svo stuttan tíma á bak við lás og slá. Á því eru skýringar en fangelsismálastofnun vill með þessu reyna að betra menn.
Ekki liggur fyrir hvenær Sigurður Ingi var látinn laus úr haldi. DV hafði samband við Fangelsismálastofnun en svörin þar á bæ voru á þá leið að hvert og eitt mál væri einstakt og því engin algild formúla til um hvenær fangar fá að hefja afplánun á Vernd. Ljóst er að Sigurður Ingi hefur afplánað innan við ár af þriggja ára dómnum sem hann hlaut á síðasta ári og hann fór beint úr fangelsi í rafrænt eftirlit án viðkomu á Vernd.
Rúmlega 150 manns hafa lokið fangelsisvist með rafrænu eftirliti og eru ýmis skilyrði sem fangar þurfa að uppfylla. Í umfjöllun DV árið 2014 um rafrænt eftirlit kom fram að svokölluðu heimatæki, sem minnir á gamalt myndbandstæki, er komið fyrir á heimili fangans. Þá er ökklabandið sett upp og „talar“ það við heimastöðina og lætur vita ef fanginn skilar sér ekki heim á réttum tíma. Ekki er um GPS-tæki að ræða og veit Fangelsismálastofnun ekki hvar menn hafast við á daginn. Fangar í rafrænu eftirliti stunda sína vinnu, geta farið í sund eða æft aðrar íþróttir. Þá er ökklabandið ekki áberandi.
Böðvar Einarsson, sem hefur umsjón með rafrænu eftirliti, sagði í viðtali í þættinum Samfélagið á á Rás 1 að til stæði að lengja tímann sem menn væru með ökklaband. Einstaka fangar gætu þannig jafnvel sloppið alveg við fangelsisvist.
Frelsi þeirra sem eru með ökklaband er skert en þeir þurfa að skila sér heim fyrir klukkan ellefu á kvöldin en mega fara aftur út klukkan sjö á morgnana. Um helgar eiga menn að skila sér heim klukkan níu á kvöldin.
„Þegar menn komast á rafrænt [eftirlit] eru þeir búnir að vera í fangelsi, þeir eru búnir að vera á Vernd. Við þekkjum þá vel. Að því leyti finnst okkur við ekki þurfa að hafa eins mikið eftirlit með þeim því þeir eru búnir að hafa ákveðið frjálsræði á Vernd en svo heldur þetta frjálsræði áfram því við viljum reyna að aðlaga menn að samfélaginu smátt og smátt,“ sagði Böðvar.
Við eftirgrennslan hjá Fangelsismálastofnun kom í ljós að ekki er langt síðan kynferðisafbrotamenn voru útilokaðir frá rafrænu eftirliti af því að stjórn Verndar heimilaði þeim ekki að afplána dóm sinn á stofnuninni en það var skilyrði fyrir því að eiga möguleika á rafrænu eftirliti. Í nýjum reglum var þessu ákvæði breytt þannig að ef kynferðisbrotamaðurinn hefur verið metinn hæfur til þess að nýta sér úrræði Verndar en ekki getað það af ástæðum sem eru ekki af hans völdum þá geti hann fengið að ljúka afplánun undir rafrænu eftirliti.