Haustið kallar á gríðarleg fjárútlát hjá barnafjölskyldum – „Á ekki að vera tímabil sem einkennist af álagi og stöðugum áhyggjum“
„Að eiga börn á Íslandi er ógeðslega dýrt og fyrir marga ekki gerlegt nema með utan að komandi hjálp. Ég og eiginmaður minn erum háskólamenntuð og eigum því að flokkast sem svona ágætlega sett fólk en ég skal fúslega viðurkenna það hér, ég get ekki leyft þeim allt það sem ég myndi kjósa að veita þeim,“ segir Margrét Gauja Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og varaþingmaður. Í pistli sem birtist á Eyjunni á dögunum gerir hún „haustkvíðann“ svokallaða að umfjöllunarefni.
Margrét segir að eftir að hún sjálf varð foreldri tveggja grunnskólabarna og eins framhaldsskólanemanda hafi hún skilið hvers vegna foreldrar hennar voru „alltaf nett teygð, toguð og stressuð á haustin“ vegna gríðarlega fjárútláta.
„Að kaupa ritföng, skólatösku, regngalla, kuldagalla, föt, æfingarföt, borga íþróttagjöld, keppnisferðir, takkaskór, borga tónlistarnám, kaupa bækur fyrir tónó, afmæli, hollan mat, hádegismat í skóla, frístundarheimilið, gríðarlegan bókarkostnað fyrir framhaldsskóla, fartölvu, skólagjöld, klæðnaður og gaman væri að reikna inní þetta tekjutapið við að fara í fæðingarorlof og dráttarvextirnir af yfirdráttaheimildunum sem voru teknar til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með gríðarlega háum kostnaði við að vera með barn hjá dagforeldri, sé ekki minnst á leikskólagjöld, sem eru býsna há miðað við meðaltekjur einstaklinga.
Fyrir utan gríðarlega hátt bensínverð, matarkostnað og húsnæðisverð sem bara hækkar og hækkar og hækkar.“
Þá bendir Margrét á að samkvæmt skýrslu Seðlabanka Íslands eru barnafjölskyldur þær skuldsettustu af öllum.
„Við getum gert svo miklu betur, við höfum margar leiðir til þess t.d að gera grunnskólann algerlega gjaldfrjálsan, ritföng og mat, að auka niðurgreiðslur til íþrótta- og tómstundariðkunar, að lækka gjaldskrár tónlistarskóla, að gera barnabætur þannig að við getum keppt við hin Norðurlöndin þegar að þeim kemur, að bæta húsnæðismarkaðinn og vera stanslaust vakandi yfir því hvernig þessum hóp vegnar,“ ritar hún jafnframt og bætir við að þannig fá öll börn jöfn tækifæri á því að blómstra og vera þau sjálf, óháð efnahag foreldra sinna.
Hér má lesa pistil Margrétar í heild sinni.