Samkvæmt könnuninni fá jafnaðarmenn 28,3 prósent atkvæði og tapa 4,3 prósentustigum frá síðustu kosningum. Fylgi Svíþjóðardemókratanna mælist nú 18,5 prósent en það er 3,7 prósentustigum meira en í síðustu kosningum.
Núverandi ríkisstjórnarflokkar mælast með 32,6 prósenta stuðning en fjórir borgaralegir og miðflokkar, sem hafa myndað bandalag, mælast með 38,6 prósent. Vinstriflokkurinn mælist með 7,4 prósent og aðrir flokkar með 2,9 prósent.
Svíþjóðardemókratarnir hafa verið einangraðir á þingi þar sem hinir flokkarnir sammæltust um að hafa ekkert saman við þá að sælda til að gera þá áhrifalausa. Það er gagnrýnin stefna Svíþjóðardemókratanna á innflytjendastefnuna sem hefur farið illa í hina flokkana. En svo er að sjá sem kjósendur kunni vel að meta stefnu Svíþjóðardemókratanna og nú er svo komið að hinir flokkarnir eru farnir að ræða innflytjendastefnuna í kosningabaráttunni en þeir hafa veigrað sér við það í gegnum tíðina.
Þátttakendur í könnuninni voru spurðir hvaða flokk þeir myndu kjósa ef gengið væri til kosninga á næstu dögum.