Björg Kristín Sigþórsdóttir, oddviti Höfuðborgarlistans, reiddist þegar Fréttablaðið hringdi í hana og vildi kanna hvað myndi taka við eftir kosningarnar.
Höfuðborgarlistinn fékk sögulega slæma útreið í kosningunum og er nú í tíunda sæti yfir þau framboð sem hafa hlotið lökustu úrslit flokka í Reykjavík. Að vísu eru eru fjögur önnur framboð úr nýliðnum kosningum ofar á lista en Höfuðborgarlistinn, sem hlaut 365 atkvæði.
Líkt og fyrr segir leitaði Fréttablaðið til nokkurra oddvita þeirra framboða sem náðu ekki kjöri. Flestir tóku því vel, ef marka má greinina, en það átti ekki við um Björgu Kristínu. Hún lýsti því yfir að henni fyndist það hræsni af Fréttablaðinu að hringja í hana eftir ósigur.
„Þið hafið hingað til ekki haft mikinn áhuga á að tala við okkur hjá Höfuðborgarlistanum. Þið hafið ekki sýnt okkur neinn áhuga í þessari baráttu. Ég vil ekki svara neinum spurningum, en þú mátt hafa það eftir mér, þessa hræsni sem þið eruð að bjóða upp á hérna núna,“ hefur Fréttablaðið eftir oddvitanum.
Skemmst er að minnast þess að framkvæmdastjóri listans sagði af sér í aðdraganda kosninga vegna samsæriskenninga frambjóðenda flokksins, einmitt vegna fjölmiðla. Björg sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 þann 8. maí að hún tæki lítið mark á skoðanakönnunum Gallup, Fréttablaðsins og Morgunblaðsins. Hún gaf sterklega í skyn að fjórflokkurinn hefði keypt þær kannanir.