Áhersla á Tantra jóga – Safna fyrir framkvæmdum
Magdalena og Serafim í jógaskólanum NATHA Yogacenter tóku nýlega við veglegri gjöf frá einum nemanda sínum. Það er vart hægt að hugsa sér veglegri gjöf fyrir Jógaskóla en fallegt eigið húsnæði en það var einmitt það sem Ágúst Shi Jin ákvað að gefa jógaskólanum.
Magdalena og Serafim hafa lagt ríka áherslu á Tantra jóga í sinni kennslu.
Húsnæðið er að Smiðjuvegi 4b og er ætlað sem miðstöð fyrir andlega starfsemi á Íslandi, sérstaklega jógakennslu. En hvað fær manneskju til að gefa svona stóra gjöf einhverjum sem er ekki nánir vinir eða fjölskylda?
„Jú, það er þannig“ útskýrir Serafim „að þegar maður fer að iðka ekta jóga, þá tekur líf manns stakkaskiptum til hins betra og við upplifum hamingju og vellíðan sem við vissum ekki að væri möguleg. Gefandinn var einungis að tjá það þakklæti sem við öll finnum fyrir þegar við komumst í nánd við okkar eigin innsta kjarna.“
Hann viðurkennir þó að það er óvenjulegt að einhver taki upp veskið og gefi gjafir af þessari stærðargráðu og bætir við -„En þessi tiltekni maður er afar sérstakur og hafði möguleika á að gefa svona stórt, aðrir sem ekki hafa sömu mögueika á að gefa peninga geta sýnt þakklæti sitt í verki í staðinn, eins og ég geri, ég á ekki peninga til að gefa skólanum en ég hef mig, og ég hef gefið skólanum vinnu mína í meira en 20 ár sem kennari við skólann.“
Serafim segir ómögulegt að þegja þegar maður býr yfir aðferð eða þekkingu sem getur hjálpað fólki í átt að hamingjuríkara lífi. „Þegar maður hefur fundið eitthvað svona mikils virði, þá er ómögulegt að þegja um það, við verðum að básúna yfir alla sem vilja heyra, að jóga er aðferðarfræði sem skapar hamingju og samhengi í lífi manns“.
Ágúst Shi Jin er ættaður frá Kína en hefur dvalið á Íslandi í áratug. „Hann talar málið reiprennandi og þykir afar vænt um Ísland og Íslendinga. Honum var mikið í mun að hjálpa okkur, en það var líka mikilvægt fyrir hann að við héldum áfram að vera á Íslandi, til að kenna Íslendinum það sem hafði gefið honum svona mikið, með gjöfinni náði hann báðum þessum markmiðum sínum.“
Og hvað er planið?
„Núna erum við komin í loftið með söfnunarsíðu hjá Karolina Fund, því það kostar óskaplega mikið að breyta eigninni svo hún henti fyrir jógakennslu. Við erum nú þegar vel á veg komin en okkur vantar ennþá stóra jógasalinn þar sem mest af kennslunni á að fara fram.“
Serafim og Magdalena hafa sett sér það markmið að safna 15000 evrum. Það mun þó ekki duga fyrir öllu, en þau segjast ætla að taka eitt skref í einu og sjá hvert það leiðir þau.
Þeir sem vilja vita meira um verkefnið og söfnunina geta lesið meira um það á Karolinafund.is.