Jón Guðmundsson vert á Sjómannastofunni Vör í Grindavík hefur rekið Vör með glæsibrag síðan árið 2009. Það ár tók hann við á ný eftir 20 ára hlé. Jón vann einnig sem kokkur á ýmsum skipum í gegnum tíðina og er því öllum hnútum kunnugur þegar kemur að því að elda hollan heimilismat sem gefur kraft í dagsins önn.
„Ég var hér áður frá 1981-1990,“ segir Jón, en sjómannafélagið sem á húsnæðið óskaði eftir því í bæði skiptin að Jón tæki við rekstrinum á Vör. Fyrirtækið er fjölskyldurekið og stendur Jón þar sjálfur vaktina, ásamt konu sinni og fleirum.
Boðið er upp á ekta íslenskan heimilismat í hádeginu, hlaðborð með bæði kjöti og fiski.
„Það opnar kl. 8 um leið og ég mæti og er opið til kl. 14,“ segir Jón, sem segir matseðilinn ekki ákveðinn fyrirfram. „Sumir hringja og spyrja hvað er í matinn, en yfirleitt mætir fólk bara og borðar, bæði ferðamenn, Grindvíkingar og verktakahópar, sem eru að vinna bæði hér innanbæjar og í kringum Grindavík. Hér sitja allt að hundrað manns í hverju hádegi.“
Jón keyrir einnig matarbakka til verktakahópa sem eru að vinna á Reykjanesinu ef óskað er eftir því.
Nafnið Vör tengist sjónum og á veggjum veitingasalarins eru myndir af bátum og sjómönnum og fleiru sem minnir á sjóinn, enda Grindavík einn af fengsælustu og aflahæstu útgerðarbæjum landsins.
Jón biður alla hjartanlega velkomna á Sjómannastofuna Vör og það er vel þess virði fyrir þá sem ekki búa eða starfa í Grindavík að gera sér ferð í hollan heimilismat á Vör.
Sjómannastofan Vör er að Hafnargötu 9 í Grindavík, síminn er 426 8570.