Kettir hafa fylgt mér alla ævina, og ég veit ekki hvernig veröldin eiginlega væri ef það væru engir kettir til. Þar til fyrir fáum árum var hér á heimilinu grátt fress sem hét Bangsi og var hjá okkur í tæp átján ár. Og mikill sjónarsviptir að honum þegar hann dó eins og nærri má geta. Þá einhvern veginn myndaðist sú stemning að við tækjum ekki að okkur annan kött, að minnsta kosti ekki fyrst um sinn, því að Bangsi heitinn var svo mikill karakter að manni fannst sem aðrir og yngri kettir myndu verða léttvægir fundnir í samanburði við hinn aldna höfðingja. En enginn ræður sínum næturstað, og innan skamms voru hér komnir tveir kettir sem hafa fylgt okkur síðan. Dóttir af heimilinu hafði farið að búa með kærasta úti í bæ og þau höfðu fengið sér þessar tvær kisur, fress og læðu, en svo skildi leiðir dótturinnar og kærastans og hún flutti aftur heim með sínar kisur og síðan eru liðin tvö ár; dóttirin reyndar að mestu farin að nýju en kisurnar eru hér enn, una vel hag sínum og á þeim er ekkert fararsnið að sjá.
Það er mikið gaman að stúdera ólíkan karakter bæði fólks og dýra sem maður kynnist, og víst á það við um kettina. Þessi tvö sem dóttirin kom með og eru síðan mínir heimiliskettir eru mjög ólík. Fressið er að mestu hvítt en með svörtu ívafi og heitir John Stuart Mill, eins og heimspekingurinn kunni, en dóttirin var semsé í heimspekinámi í Háskólanum þegar hún eignaðist hann sem kettling og var þá upptekin af skrifum áðurnefnds heimspekings sem var enskur og uppi á nítjándu öld; meðal annars þekktur sem málsvari kvenréttinda á sinni tíð. Nafni hans, kötturinn okkar, sem yfirleitt er bara kallaður Stúi, er reyndar ekki mjög heimspekilegur, en ég er þó feginn að hann kom ekki inn í líf dóttur minnar skömmu síðar þegar hún var farinn að skrifa lokaritgerð um Friedrich Nietzsche og orðin heltekin af hans skrifum og hugmyndum. Kisinn okkar, sú hreina sál, hefði einhvern veginn alls ekki risið undir því nafni.
Stúi köttur er stór og hraustlegur; hann er með svo stórar klær og öflugar loppur að þegar hann tekur sig til og fer að brýna klærnar á húsgögnum þá liggur við að hann sundri viðkomandi mublu. Hann væri með öðrum orðum vel útbúinn til ýmissa illverka, en hins vegar er ekkert illt til í hans fari og einhvern veginn þá er erfitt að ímynda sér hann setja klóna í fólk eða dýr, nema þá eingöngu í áminningarskyni þegar hann vill fá harðfisk. Hann fagnar öðrum köttum sem koma í garðinn eða upp á tröppurnar, nema þeir sýni af sér fjandskap; þá er Stúi fljótur að taka til fótanna og láta sig hverfa.
Kjarkleysi stóra fresskattarins okkar hefði stundum verið kennt við „merarhjarta“, en það er annað uppi á teningnum með læðuna litlu; hún er með ljónshjarta. Læðan er að mestu svört en með hvítu ívafi, og trúlega var dóttirin að lesa hina frægu spænsku skáldsögu „Don Kíkóta“, eftir Miquel Cervantes, því að kisa heitir eftir draumadís riddarans sjónumhrygga úr nefndri bók: „Dúlsinea“ – oftast bara kölluð Dúlla. Dúlla kisa er lítil og grönn; kannski ber stærð hennar þess einhver merki að hún fékk aldrei móðurmjólk en mun hafa fundist nýfædd og yfirgefin í skafli, en verið bjargað til lífs af góðu fólki. Það er fleira í fari Dúllu kisu sem kannski bendir til þessa uppruna hennar, eins og að hún mjálmar stundum eins og nýfæddur kettlingur, stutt og mjög veikt, líkist meira tísti; þetta gerir hún helst ef hún er að biðja um klapp og gott atlæti; en svo ræður hún líka yfir fleiri hljómtilbrigðum. Kisa er mjóslegin eins og ég nefndi, er með vaxtarlag sem minnir á síamsketti, og eflaust rennur eitthvað þannig blóð í æðum hennar, augun verða til dæmis næstum alveg blá í vissum birtuskilyrðum. En þessi litla mjóa kisa er kjörkuð eins og áður sagði; ef nágrannakettir, jafnvel stærðar slöttólfar, koma of nálægt húsinu, inn á svæði okkar katta, og jafnvel með ógnandi tilburðum þá pillar stóra fressið Stúi sér í burtu, en litla Dúlla er hvergi bangin, sveiflar kló á móti þeim nýkomnu með með miklum og ógnandi hljóðum, og það þótt aðvífandi köttur sé á engan hátt með ýfingar. Og þá er ekkert kettlingatíst í minni!
Kettir eru, eins og flestir vita, mjög hændir að sínum heimilum. En það er mikil vitleysa sem stundum heyrist að þeir bindist ekki fólki. Þvert á móti hefur reynsla mín af nánum samgangi við þessa dýrategund í meira en hálfa öld fært mér heim sanninn um hvað þeir eru félagslyndir, og elskir að sínum eigendum. Vissulega eru þeir mjög bundnir heimaslóðum, eins og sést meðal annars á því að ekkert myndi köttum þykja óþarfara en ferðalög. Eða tilbreyting yfirleitt; þegar Bjartur í Sumarhúsum fékk sér fressið þá vildi kötturinn helst hjá engum öðrum vera en þeirri karlægu kellingu Hallberu, þar á bænum, enda kunni kisi „að meta höfuðkost ellinnar, sem er uppáfinningarleysið,“ eins og segir í Sjálfstæðu fólki. Mínir kettir halda sig mest á garðblettinum hér fyrir framan húsið þegar þeir fara út og sjá lítinn tilgang með lengri ferðalögum. Að vísu eru nákvæmlega eins litlir garðblettir fyrir framan næstu hús bæði ofar og neðar í götunni, og kannski má segja að það sé lítil meining með því að fara úr einum þeirra í annan; þetta er allt eins. Önnur dóttir mín, sem býr ekki langt frá, er líka með fresskött sem er ákaflega hændur að sínu fólki og sínu heimili; hún sótti hann á sínum tíma fullorðinn og heimilislausan á Kattholt, og hann er svo ákveðinn í að týna ekki þessu „nýja“ heimili sínu (þar sem hann er búinn að vera í meira en fimm ár) að þegar hann fer út þá stillir hann sér upp fyrir utan eldhúsgluggann og horfir inn, með hlýju í augum.
Auðvitað er sálarlíf svona dýra miklu ríkara og flóknara en margir gera sér grein fyrir, og hugtak eins og „skynlaus skepna“ að sjálfsögðu verstu öfugmæli. Eins og margir hafa upplifað þá gleyma dýr eins og hundar eða kettir mjög seint því sem þeim er vel eða illa gert; vinum sínum sem vikið hafa að þeim góðu fagna þau ævina á enda. Ég upplifði hve vel kettir muna mjög eftirminnilega fyrir hálfum öðrum áratug, og þurfti svosem ekki að koma á óvart því að þar var um að ræða sjálft heimili hans og ekki var liðið nema rúmt ár. Þá fluttumst við fjölskyldan til Berlínar til ársdvalar en þurftum að koma einhvers staðar fyrir á meðan gráa hálfpersneska kisanum okkar sem ég gat um hér í upphafi og hét Bangsi. Honum stóð til boða að vera hjá tengdaforeldrum mínum suður í Kópavogi, og var þar svosem ekki í kot vísað, hjá gegnheilum dýravinum. En eins og mig grunaði varð hann því lítt feginn að vera tekinn út af sínu ástkæra heimili og settur upp í bíl og ámátleg voru hljóðin þegar hann sá húsið sitt fjarlægjast og ég fann að hann myndi vera að hugsa að nú myndi hann aldrei rata heim á ný. Svo var hann kominn inn á nýja staðinn, stífur af skelfingu eftir ökutúrinn og þær hremmingar, og flúði umsvifalaust inn í skáp þar sem hann hélt sig að mestu næstu tvær vikur; hætti sér bara út til að sinna frumþörfum á meðan fólkið svaf. En smám saman fór hann að treysta sér til að hitta sitt nýja heimafólk enda mætti hann engu nema elskusemi, og brátt varð „gistiheimilið“ honum mikil paradís; hann fékk að sitja á matmálstímum við borðið með heimilisfólkinu, honum var strokið og klappað, og þegar tengdapabbi varð þess áskynja að Bangsa þótti notalegt að fá rjómaís á nóttum þá vaknaði hann alltaf að minnsta kosti einu sinni per nótt þar á eftir, til að gefa Bangsa ís; hann sagði mér síðar að Bangsa hefði þótt best að sleikja ísinn ef hann var örlítið búinn að mýkjast og þiðna á mannsfingri.
Tæpum þrettán mánuðum seinna komum við og sóttum hann; aftur var lagt á hann það sem honum þótti verst af öllu, sem var bílferð; aftur sá hann heimili þar sem honum leið vel hverfa eitthvert út í buskann. Og maður var alveg búinn undir að hann yrði aftur smeykur er hann kæmi til baka eftir allan þennan tíma. Hann var stífur og með hraðan hjartslátt þegar ég bar hann inn eftir bílferðina, og leit í uppnámi í kringum sig eftir að ég setti hann niður á stofugólfið heima, og mér fannst eins líklegt að hann myndi finna skáp til að fela sig í á meðan hann jafnaði sig. En það tók hann ekki nema nokkrar sekúndur að átta sig á hvert hann væri kominn, og hann varð svo glaður að hann tímdi ekki að sofa í meira en sólarhring, heldur gekk hann um íbúðina með sælusvip og nuddaði sér malandi upp við allt og alla.
Kattardýr eru eins og fólk veit lýrískari en flest önnur, enda hafa skáld heimsins ort um þau ljóð. Einhvern tíma var Steinn Steinarr spurður hvað honum þætti um brautryðjanda franskrar nútímaljóðlistar, snillinginn Charles Baudelaire. Og Steinn á að hafa svarað eitthvað á þessa leið: „Já, hann orti svo laglega um ketti“. Annað höfuðskáld íslenskt, Jón Helgason, orti ljóðið „Á afmæli kattarins“. Það er tíu erindi, og meðal annars þessi fjögur:
Viðsjárverð þykir mér glyrnan gul, geymir á bak við sig marga dul, óargardýranna eðli grimmt á sér í heilanum fylgsni dimmt. Alla tíð var þó með okkur vel, einlægt mér reyndist þitt hugarþel, síðan ég forðum þig blindan bar, breiddi á þig sæng þegar kaldast var. Mjúkur, með kirfileg kampahár kemurðu að dyrum í morgunsár upp þig úr munnvatni allan þværð, augunum lygnir í sæld og værð. Ólundin margsinnis úr mér rauk er ég um kverk þér og vanga strauk, ekki er mér kunnugt um um annað tal álíka sefandi og kattarmal. (Úr landsuðri, 1939)