Bílfang.is, Malarhöfða 2
„Hér áður fyrr sagðist ég alltaf hafa verið jafnlengi og Alex Ferguson en ég gerðist bílasali sama ár og hann byrjaði að þjálfa Man. Utd, sem sagt árið 1986, en svo hætti hann en ég er hér ennþá,“ segir Gunnar Halldór Gunnarsson glaðlega, en hann hefur starfað sem bílasali í 30 ár. Bílasala hans, Bílfang, Malarhöfða 2, er líka komin með langan starfstíma en hún var stofnuð árið 1994. Gunnar státar sannarlega af löngum og farsælum ferli sem bílasali enda leggur hann mikla áherslu á traust, heiðarleika og góða þjónustu.
Bílfang er bæði með nýlega og eldri bíla til sölu. Úrvalið er mikið og aðspurður segist Gunnar ekki geta bent á neinar tilteknar bílategundir sem þær vinsælustu, þetta sé mjög fjölbreytt. Hins vegar sé fólk farið að kaupa nýrri bíla í seinni tíð og bílafloti landsmanna aftur farinn að yngjast en hann eltist mjög hratt eftir hrun.
„Fólk er líka farið að koma með bíla til okkar sem það hefur keypt eftir hrun. Endurnýjunin er orðin hraðari. Það er fyrst núna sem við verðum varir við að einstaklingar komi með bíla sem þeir hafa keypt nýja – en fyrst eftir hrun þá bara duttu út ein fjögur ár, því það var sáralítið keypt af nýjum bílum eftir hrun þó að sala í eldri bílum væri góð,“ segir Gunnar. Hann segir að gott sé að sækja fjármögnun vegna bílakaupa:
„Bankarnir eru með bílafjármögnun í sérdeildum og hér er hægt að kaupa bíla upp að milljón á VISA-raðgreiðslum.“
Bílfang leggur mikið upp úr traustum viðskiptum þar sem viðskiptavinir eru upplýstir vandlega um hvað felst í kaupunum:
„Þegar menn eru að kaupa bíl hjá mér legg ég höfuðáherslu á að fara með hann í ástandsskoðun. Þá vita þeir að hverju þeir eru að ganga.“
Sem fyrr segir er Bílfang til húsa að Malarhöfða 2 og þar er gaman að koma og skoða úrvalið.
Opið er virka daga frá kl. 10 til 18. Einnig er hægt að skoða bíla og fá gagnlegar upplýsingar á vefsíðunni www.bilfang.is og á Facebook-síðu Bílfangs.