fbpx
Laugardagur 30.nóvember 2024
Fókus

Íhugar framboð

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 15. júlí 2016 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Páll Magnússon íhugar að bjóða sig fram til þings í næstu kosningum. Þetta kemur fram í viðtali sem Kolbrún Bergþórsdóttir tók við hann. Í viðtalinu er víða komið við, rætt um viðskilnað hans við RÚV, heimildamyndagerð, ný verkefni hans í útvarpi og einnig um pólitík og andrúmsloftið í íslensku samfélagi.

Páll Magnússon er á nýjum vettvangi sem umsjónarmaður þáttarins Sprengisands á Bylgjunni og viðtöl hans þar hafa vakið athygli og iðulega ratað í fréttir enda er Páll laginn við að laða það besta fram úr viðmælendum sínum, þar á meðal fréttnæma hluti. Páll er þaulvanur fjölmiðlamaður, var meðal annars fréttastjóri Stöðvar 2 og útvarpstjóri RÚV á árunum 2005–2013.

Talið berst fyrst að Sprengisandi og Páll er spurður af hverju hann hafi ákveðið að slá til og taka að sér umsjón þáttarins. „Ég var svosem ákveðinn í að þessu skeiði á mínum ferli eða ævi væri lokið. Þegar það var ámálgað við mig fyrst að taka að mér þennan þátt tók ég því fálega. Svo vaknaði ég einn daginn og hugsaði sem svo að þetta yrði kannski bara skemmtilegt. Ég hugsaði með mér: Ef þeir spyrja aftur í dag þá segi ég bara já. Svo var spurt aftur.
Ég hef verið að bisa við það síðustu misserin að gera bara það sem mér þykir skemmtilegt. Þarna reyndist hugboð mitt rétt; mér finnst þetta skemmtilegt. Þetta hefur líka gengið ágætlega, margir eru að hlusta og þá finnst einhverjum fleirum en mér þetta skemmtilegt, sem betur fer.“

„Djöfull tókstu hann!“

Hver er munurinn á því að vera með þátt eins og þennan í útvarpi eða sjónvarpi?

„Fyrir samfélagsumræðu af þessu tagi þá er útvarp að mörgu leyti betri vettvangur en sjónvarp. Útvarpið er ótruflað af öðru en samtalinu, það eru ekki ljóskastarar, myndatökumenn og fyrirgangur í stúdíói. Það er ekkert þarna annað en efni samtalsins. Að þessu leyti er útvarpið einlægari miðill. Samtalið stendur fyrir sjálft sig, ótruflað af ytri umbúnaði. Svo er Sprengisandur tveggja tíma þáttur og það er hægt að dvelja lengur við þá hluta samtalsins sem manni finnst vera áhugaverðastir, maður þarf ekki að flýta sér í næsta atriði.“

Mér sýnist að þú kjósir í þessum þáttum að fara mjúku leiðina að viðmælendum. Ferðu þessa leið mjög meðvitað og hverjir eru kostirnir við hana?

„Á sínum tíma var ég mikið með viðtalsþætti í sjónvarpi, fyrir fleiri árum en ég kæri mig um að muna. Þetta voru svona yfirheyrsluþættir, ekki síst á Stöð 2, Í návígi hét meira að segja einn þeirra. Á þessum tíma var mælikvarðinn á það hvort slíkur þáttur hefði tekist vel eða ekki að sagt væri við mann eftir þáttinn: Djöfull tókstu hann! Og þá var maður ánægður og fannst þátturinn hafa verið góður.

Svo þegar hégóminn lak af manni með árunum, vonandi mjög mikið, þá áttaði maður sig á því að þetta var ekki réttur mælikvarði á það hvort þátturinn hefði tekist vel, heldur það hvort áhorfendur eða hlustendur væru einhverju nær um efni málsins.

Ég hef fylgst með viðtalsþáttum af þessu tagi mjög lengi og minn uppáhaldsmaður þar er breskur, Sir Robin Day, sem vann bæði hjá ITV og BBC. Hann hækkaði aldrei róminn, skipti aldrei skapi, var alltaf yfirmáta kurteis, stundum vandræðalega kurteis. En enginn spyrill í sjónvarpi náði meiru út úr viðmælendum sínum en hann. Stundum stóðu menn upp úr þessum viðtölum og ruku út en hann sjálfur skipti aldrei skapi.

Oftast er leið eins og þessi vænlegust. Ef ég héldi að hlustandinn fengi betri upplýsingar ef ég gengi harðar fram við viðmælandann, eða væri hvassari, þá myndi ég gera það. Og stundum þarf vissulega að gera það. Svo er þetta líka spurning um að sýna viðmælendum sínum virðingu, hvort sem maður er sammála þeim eða ekki. Ég er ekki þarna til að flagga mínum eigin skoðunum heldur til að ná fram skoðunum viðmælandans. Svo notar maður aðrar skoðanir, sem stundum eru manns eigin og stundum ekki, til að prófa skoðanir viðmælandans.“

Hugarástand álitsgjafa

Þú segist ekki flagga þínum eigin skoðunum á Sprengisandi. Nú eru allir á Facebook og að blogga um skoðanir sínar. Eiga fjölmiðlamenn að flagga pólitískum skoðunum sínum?

„Það er ekki hægt að draga alveg hreina línu í þessu. Ég geri til dæmis greinarmun á spjallþáttastjórnendum og fréttamönnum. Ég er bara það gamaldags í þessu að mér finnst að þeir sem eru í harðkjarna fréttamennsku eigi að láta það vera að flagga skoðunum sínum á opinberum vettvangi. Það rýrir trúverðugleika fréttamanna og traust bæði viðmælenda og hlustenda á þeim ef þeir eru mikið að básúna eigin skoðanir. Þá er alltaf grunur um að það sé annað erindi á bak við spurningar viðkomandi fréttamanns en felst í spurningunni sjálfri. Ég held, þótt ekki væri nema í sjálfsverndarskyni fréttamannanna, þá ættu þeir að láta vera að flagga sínum pólitísku skoðunum. Þeir eiga að stilla sig um það og tala um eitthvað annað á samfélagsmiðlum.“

Nú hefur risið upp ný stétt sem er svokallaðir álitsgjafar og þeir hafa skoðanir á öllu. Hvað finnst þér um það?

„Þegar best lætur er þetta fínt. Málsmetandi fólk, sem er vant að virðingu sinni, er kallað til og setur fram undirbyggðar skoðanir af skynsamlegu viti. Það hefur þannig bakgrunn, menntun og lífsreynslu að skoðanir þess á tilteknum málum hafa þýðingu og skýra og hjálpa fólki við að taka sjálfstæða afstöðu til mála. En stór hluti álitsgjafa á Íslandi stendur ekki undir þeirri lýsingu sem ég er að gefa hér en eru samt kallaðir til og fúsir til að koma. Láttu mig þekkja það; það þarf að fylla tiltekið rými í þætti, í blaði, síðufjölda og svo framvegis og hvað gera menn á hart pressuðum íslenskum fjölmiðlum sem hafa ekki mikinn tíma og geta ekki beðið lengi eftir fólki? Það er auðvitað hringt í fólk sem vitað er að er alltaf tilbúið að hafa skoðanir á hverju sem er. Til er orðinn ákveðinn hópur af fólki sem telur sig til þess bæran að hafa skoðanir á öllum mögulegum og ómögulegum hlutum, ekkert sérstaklega undirbyggðar, og hefur svo sem ekkert til málanna að leggja umfram manninn á götunni. Í þessum hópi verður til einhvers konar hugarástand sem fær þetta fólk til að trúa því að það hafi eitthvað meira og merkilegra að segja en annað fólk. Ég er auðvitað ekki að segja að allir íslenskir álitsgjafar séu upp til hópa vitleysingar en stór hluti af þessum hópi er þannig saman settur að það ætti ekki að flagga þeim umfram aðra. En þetta á auðvitað alls ekki við um þá sem ég bið um að koma á Sprengisand!“

Viltu nefna nöfn?

„Nei, ég held að ég láti það vera. Ég er orðinn svo kurteis og hæverskur með aldrinum.“

Ómerkilegheit og undirmál

Páll varð útvarpsstjóri RÚV árið 2005 en í desember 2013, eftir erfiðar niðurskurðaraðgerðir, lét hann af störfum. Hann gaf þá ástæðu að hann nyti ekki lengur nægilegs trausts í stjórn Ríkisútvarpsins til að gegna stöðunni áfram með árangursríkum hætti á erfiðum tímum.

Hann er spurður um þennan tíma og segir: „Nú er talsvert um liðið og ég eyði ekki mikilli orku í að hugsa um þessa hluti. Þetta er eins og annað, þetta var verkefni og því lauk. Það er ekkert harmsefni heldur bara ágætt því ég hef síðan þá getað einbeitt mér að því sem mér finnst skemmtilegt. Hins vegar fannst mér leiðinlegt að þessu skeiði skyldi þurfa að ljúka með þeim ómerkilegheitum og undirmálum sem lágu þarna að baki. En ég er ekkert að ergja mig á því lengur.“

Hvaða ómerkilegheit voru þetta?

„Þau fólust fyrst og fremst í því að meirihluti stjórnarinnar ákvað, reyndar með menntamálaráðherrann í fararbroddi, að flýja frá eigin ákvörðunum og skilja aðra eftir með þær í fanginu. Alþingi ákvað að skera útgjöld RÚV niður um 600 milljónir og af því leiddi auðvitað talsverð fækkun starfsmanna því stærstur hlutinn af breytilegum kostnaði við rekstur RÚV eru vinnulaun. Stjórnin tók endanlega ákvörðun um hvernig þetta yrði gert og útvarpsstjóranum auðvitað falið að sjá um framkvæmdina. Farið var í þessar erfiðu aðgerðir en við fyrsta andstreymi brast flesta stjórnarmenn kjarkur. Þeir lögðu á harðaflótta frá eigin ákvörðunum og fyrst sá undir iljarnar á menntamálaráðherranum.“

Hefurðu einhvern tíma rætt við þetta fólk um þessa framkomu?

„Nei, og ég ætla ekki að gera það. Svona fór þetta bara og ég er löngu hættur að láta þetta bögglast fyrir mér. Þegar þetta gerðist fannst mér ómerkilegheitin og hugleysið ná út yfir allan þjófabálk en núna er þetta bara eins og hvert annað atvik í lífinu og ekki í flokki með þeim merkilegri.“

Hefðirðu átt að þrauka?

„Nei, það hefði ég ekki átt að gera. Ég held að ég hafi tekið hárrétta ákvörðun á þessum tíma og verið trúr sjálfum mér. Dæmigerð afstaða stjórnenda í þessum opinbera eða hálfopinbera geira hefði kannski verið að reyna að lifa af í stöðunni en það hvarflaði aldrei að mér og ég talaði aldrei við nokkurn mann í því skyni. Til þess hefði ég þurft að fórna of miklu af eigin prinsippum og mér þótti bara ekki nógu vænt um starfið til þess. Raunar ættu menn aldrei að leyfa einhverjum störfum að verða svo ríkan þátt í sjálfsmynd sinni að þeir geti ekki gengið frá þeim sér að skaðlausu.“

Uppgjör á ráðningarsamningi

Það hefur komið fram að þú hafir fengið starfslokasamning sem færði þér rúmar 20 milljónir króna. Finnst þér það eðlilegt?

„Ég gerði reyndar alls engan starfslokasamning heldur fór bara fram uppgjör á ráðningarsamningi. Í lagalegu tilliti fólst í ákvörðun stjórnarinnar um að auglýsa stöðu útvarpsstjóra uppsögn á þeim ráðningarsamningi sem var í gildi. Þar var ákvæði um 12 mánaða uppsagnarfrest og uppgjörið var í samræmi við það, ásamt óteknu orlofi og þess háttar. Það var varla hægt að miða við neitt annað en ráðningarsamninginn sjálfan þegar að þessum starfslokum kom.“

Þú varst í virðingarstöðu, var ekki erfitt að missa titilinn útvarpsstjóri?

„Nei, ég var aldrei í þessu til að vera eitthvað heldur til að gera eitthvað, en þetta voru auðvitað ákveðin viðbrigði. Ég hafði um mjög langt skeið verið í stjórnunarstöðum á stórum fjölmiðlum og það var svolítið skrýtið að fara úr því hlutverki eftir marga áratugi. Það hefur hins vegar vanist vel.“

Eftirmaður þinn í stóli útvarpsstjóra lenti síðan í miklum erfiðleikum og baráttu fyrir RÚV, fylgdistu með því?

„Bara úr fjarlægð. Ég er löngu hættur þarna og er ekkert að velta málefnum RÚV fyrir mér, nema hvað ég hlusta auðvitað stundum og horfi stundum. Svo vinnur dóttir mín þarna og ég fylgist auðvitað með því sem hún er að gera.“

Gefandi lífsreynsla

Fyrr á þessu ári var sýnd í sjónvarpi heimildamynd sem Páll gerði ásamt Jóni Gústafssyni í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu um Alzheimer-sjúkdóminn. Þeir eru nú að leggja síðustu hönd á heimildamynd um arfgengt brjóstakrabbamein. Hann er spurður um upplifun sína af vinnunni við þessar myndir.

„Þetta er ótrúlega skemmtilegt. Og það allra skemmtilegasta hefur verið að kynnast nýju fólki með allt öðruvísi vandamál og viðfangsefni í lífinu en maður á að venjast. Þegar maður er búinn að vera í svona störfum eins og ég er búinn að vera í áratugum saman þá er maður að umgangast og tala við fólk sem er að miklu leyti með samstofna viðfangsefni og verkefni. Þegar við fórum að gera þessar heimildamyndir þá kynntist ég allt öðruvísi fólki með allt öðruvísi reynsluheim.

Í þessari fyrstu heimildamynd var fjallað um Alzheimer. Núna erum við að fjalla um það að vera með stökkbreytingu í svokölluðu brakkageni sem gerir að verkum að það geta verið 80 prósent líkur á því að fá brjóstakrabbamein. Hvernig tekst fólk á við vitneskjuna um það að vera í tíu sinnum meiri áhættu en allir aðrir við að fá tiltekið krabbamein og geta dáið úr því? Það þarf meðal annars að taka ákvörðun um hvort það eigi að undirgangast fyrirbyggjandi aðgerð til að forða sér frá þessum örlögum. Fyrir mig var það gefandi lífsreynsla og viss opinberun að kynnast þessu fólki og verða vitni að þeim hetjuskap og æðruleysi sem það sýnir í baráttu sinni.“

Ekki afhuga stjórnmálaþátttöku

Snúum okkur að pólitík. Þú hefur gert eitthvað af því að skrifa blaðagreinar um þjóðfélagsmál sem hafa vakið nokkra athygli. Gætirðu hugsað þér að fara í stjórnmál?

„Þetta hefur stundum verið orðað við mig í gegnum tíðina og ég hef alltaf verið mjög afhuga því. Alveg frá því ég var þingfréttamaður þá hef ég hugsað sem svo: Þetta vil ég ekki gera. Stuðningsmenn tveggja stjórnmálaflokka hafa talað um það við mig núna að fara í framboð í haust. Það hefur svosem gerst áður en þetta er í fyrsta skiptið sem ég hef ekki sagt þvert nei. Ég er að hugsa málið.“

Viltu segja mér hvaða flokkar þetta eru?

„Nei, nú er það mitt að vita og þitt að giska.“

Hefurðu alltaf haft mikinn áhuga á stjórnmálum?

„Já, en fyrst og fremst sem áhorfandi og fjölmiðlamaður en ekki sem þátttakandi. En í fyrsta skiptið núna þá finn ég á sjálfum mér, og það kom mér á óvart eftir allan þennan tíma, að ég er ekki afhuga því.“

Hvar staðsetur þú þig í hinu pólitíska litrófi?

„Ef það ætti að pína mig til að nota eitt orð væri það frjálslyndur, og ég gæti ábyggilega fundið því frjálslyndi stað í fleiri en einum stjórnmálaflokki. Sennilega myndi einhver vilja bæta við: hægra megin við miðju – en þessi vinstri/hægri skali dugar ekki jafnvel og áður til að staðsetja fólk á hinu pólitíska litrófi. Píratar fara með hæstum hæðum núna, eru þeir vinstri flokkur eða hægri flokkur? Ég veit það ekki; held helst að þeir séu hvorugt. Það unga fólk sem ég tala við notar ekki skiptinguna í hægri og vinstri með sama hætti og áður tíðkaðist og hugsar ekki eftir sömu línum og eldri kynslóðin gerir. Smám saman er þessi vinstri-hægri skali ekki lengur að svara spurningum um það hvaða pólitísku afstöðu fólk hefur í þeim mæli sem hann gerði.“

Glatað traust

Það virðist vera ákveðin upplausn í stjórnmálunum hér á landi, hefurðu áhyggjur af því?

„Í haust eru átta ár liðin frá hruninu og okkur hefur að mestu tekist að laga efnahagslegu skemmdirnar sem urðu. Hér er allt í blússandi uppsveiflu; sjávarútvegurinn, ferðamannabransinn og aðrar atvinnugreinar dafna. Lífskjörin eru smám saman að ná sér á strik og kaupmáttur er að aukast. Það urðu hins vegar aðrar skemmdir í hruninu. Traustið, sem á að vera límið í samfélaginu, hvarf að miklu leyti og það hefur nákvæmlega ekkert gengið að endurheimta það. Í öllum mannlegum samskiptum er það sem betur fer þannig að maður treystir þeim sem maður á í samskiptum við þangað til annað kemur í ljós. Traustið er útgangspunkturinn, maður byrjar á að treysta nema maður sé óeðlilega tortrygginn að upplagi. Núna er þessu öfugt farið, menn byrja á að tortryggja og vantreysta þangað til annað kemur í ljós. Og þetta gerist ekki af sjálfu sér.

Ítrekað sér fólk hluti sem sannfæra það um að það sé kannski bara öruggast að tortryggja allt. Alls konar dæmi hafa komið upp á síðustu misserum. Stjórnendur í banka og fyrirtæki sem er að fara á markað, Síminn á sínum tíma, halda að það sé enn í lagi, eftir hrun, að handpikka vini sína sem fá að kaupa hlutabréf á lágu verði og gera þá ríkari áður en fyrirtækið fer á markað fyrir almenning. Fólk sér þetta og því blöskrar.

Það er hægt að taka fleiri dæmi. Forystumenn í atvinnulífinu sitja á fundi í stjórn Samtaka atvinnulífsins, koma út af fundinum og segja grafalvarlegir að það sé ekki svigrúm til að hækka laun á Íslandi meira en tvö til þrjú prósent, annars fari allt til andskotans. Þetta sama fólk fer sama dag á stjórnarfund, til dæmis í Granda eða VÍS, og hækkar eigin laun um 30–40 prósent á einu bretti. Og þessir menn halda enn, eftir hrun, að þetta sé allt í lagi og að það gildi allt önnur lögmál um þá sjálfa en alla aðra.

Núna nýlega sjáum við dæmi um að Kjararáði finnst allt í lagi að hækka ráðuneytisstjóra um 30 prósent í launum meðan aðrir eiga að láta 3 prósentin duga.

Það er þessi hegðan í samfélaginu sem gerir að verkum að traustið er enn í núllpunkti. Fólk er alltaf að sjá dæmi um það aftur og aftur að það borgi sig bara að gera ráð fyrir því í upphafi að rangt sé haft við – og reikna með því þangað til annað kemur í ljós. Þetta held ég að sé miklu meiri vandi en þau efnahagslegu áhrif sem urðu af hruninu.“

„Þarna líður mér best“

Að lokum, þegar ég ræddi við þig um að koma í viðtal frestaðist það vegna þess að þú vildir vera í Vestmannaeyjum og sigla á báti þínum. Er þetta einhver stórútgerð?

„Þessi útgerð mín er stórlega orðum aukin en viljandi geri ég lítið til að leiðrétta það. Ég reyni að vera eins mikið í Vestmannaeyjum og ég mögulega get og á litla tuðru sem ég þvælist um á þegar veður leyfir. Eini gallinn við það að sjá um Sprengisand á sunnudagsmorgnum er að langar helgar sem ég vil helst eiga alltaf í Vestmannaeyjum, sérstaklega yfir sumartímann, hafa orðið styttri en efni stóðu til.“

Þú ert alinn upp í Vestmannaeyjum, hefurðu sterkar taugar til þess staðar?

„Ég hef alltaf sótt mikið þangað og eftir því sem ég hef elst sæki ég enn meira þangað, í æsku minnar spor, eins og Ási í Bæ sagði. Það er eitthvað við samfélagið, náttúruna og fólkið sem gerir það að verkum að þarna finnst mér alltaf að ég eigi heima og þarna líður mér best. Bók eftir Stefán Jónsson byrjar á þeirri staðhæfingu að hann sé veiðimaður. Það skipti engu hvaða störf hann hefði unnið sér til viðurværis; aðspurður gæti hann ekki sannara sagt en að hann væri veiðimaður. Þetta er spurningin um það hvernig maður upplifir sjálfan sig. Ef ég væri spurður eins og Stebbi á löppinni: hvað ertu? þá er fyrsta svarið sem mér dettur í hug: Ég er Vestmannaeyingur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

In Flames til Íslands í sumar

In Flames til Íslands í sumar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Háklassa vændiskona útskýrir af hverju hún myndi aldrei fara í vinnuferð til Dúbaí

Háklassa vændiskona útskýrir af hverju hún myndi aldrei fara í vinnuferð til Dúbaí
Fókus
Fyrir 3 dögum

Varpa ljósi á síðustu augnablik Liam Payne – Pantaði vændiskonur og fíkniefni

Varpa ljósi á síðustu augnablik Liam Payne – Pantaði vændiskonur og fíkniefni
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segist vera hársbreidd frá því að hefja kynferðislegt samband með systur sinni

Segist vera hársbreidd frá því að hefja kynferðislegt samband með systur sinni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fór að leita að norðurljósum á Íslandi en fann nokkuð enn sjaldséðara

Fór að leita að norðurljósum á Íslandi en fann nokkuð enn sjaldséðara
Fókus
Fyrir 4 dögum

Opinbera kyn fyrsta barnabarns auðkýfingsins Róberts Wessman

Opinbera kyn fyrsta barnabarns auðkýfingsins Róberts Wessman