Helgi Freyr Sævarsson hljóp út úr brennandi íbúð sinni með þriggja ára gamla dóttur sína, Aþenu Rós, síðastliðinn föstudagsmorgun. Dóttir Helga bjargaði lífi þeirra beggja þegar hún vakti föður sinn með því að troða kexi upp í hann.
Helgi og Aþena búa ásamt foreldrum hans á þriðju hæð í fjölbýlishúsi á Akureyri og þegar fyrstu fréttir bárust um eldsvoðann var talið að íbúðin væri mannlaus.
„Ástæðan fyrir því að við vorum bæði heima er að sú litla átti tíma hjá lækni um tíuleytið,“ segir Helgi í samtali við Morgunblaðið sem greindi fyrst frá atvikinu í morgun.
„Sú litla hafði laumast fram um nóttina og skriðið upp í hjá þeim. Mamma og pabbi vöktu mig áður en þau fóru en þar sem Aþena Rós var steinsofandi lagði ég mig aftur. Ég vaknaði svo við að hún var að troða kexi upp í mig. Þá áttaði ég mig á því að hún hefði verið frammi að dunda sér, eins og hún gerir stundum; hún fer stundum fram án þess að vekja mig.“
Feðginin lágu um stund saman uppi í rúmi að spjalla áður en Helgi fer á fætur til þess að gera sig klárann.
„Það fyrsta sem ég sé á leiðinni á klósettið er að eldhúsið stendur í ljósum logum. Ég sá að ástandið var orðið þannig að ég gat ekkert gert. Eldurinn var allt of mikill.“
Dóttir Helga hafði um morguninn fiktað í eldavélinni og kveikt á hellu. Pítsukassi lá ofan á hellunni og kviknaði því fljótt í honum. Við hlið eldavélarinnar var djúpsteikingarpottur og þegar eldurinn barst í hann varð ástandið mjög slæmt.
„Ég greip stelpuna, reif af henni símann, stökk með hana út úr íbúðinni og náði að hringja í 112.“
Slökkvilið Akureyrar kom fljótt á svæðið og réði niðurlögum eldsins.
Helgi segir þau feðgin mjög heppin að hafa komist út úr íbúðinni en miklar eiturgufur mynduðust og er íbúðin gjörónýt.
Ef ekki hefði verið fyrir það að dóttir Helga tók upp á því að troða upp í hann kexi eru miklar líkur á því að feðginin hefðu ekki komist heil út.
„Ég veit bara að við vorum mjög heppin. Ég hefði hugsanlega ekki vaknaði í tæka tíð nema vegna þess að hún gerði þetta.“