fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Geimfarinn Gregory Johnson heimsótti Ísland: „Þetta snýst ekki um landamæri, heldur hnöttinn“

Tómas Valgeirsson
Laugardaginn 26. maí 2018 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Manneskjan er könnuður að eðlisfari og við viljum öll skilja eftir fótspor okkar út fyrir mörk plánetunnar.“

Svo mælir geimfarinn og fyrrverandi herþotuflugmaðurinn Gregory Harold „Box“ Johnson, en hann hefur farið um víðan völl í sínu fagi. Gregory var staddur á Íslandi í rúman sólarhring þegar DV greip hann og ræddi við hann um næstu skref í geimferðarmálum, litla Ísland og stóra drauma.

Gregory var meðlimur áhafnarinnar í hinstu för geimskutlunnar Endeavor árið 2011 og hefur sinnt viðhaldsvinnu við alþjóðlegu geimstöðina. Geimferðastofnunin NASA hefur unnið að verkefni með fyrirtækinu Space Nation.

„Ef þú skoðar hvernig flugiðnaðurinn hefur þróast síðastliðin hundrað ár, þá sérðu að fyrst voru það aðeins þeir ríku eða fyrstu flugmennirnir sem fóru í loftið. Í dag er fátt hversdagslegra en að stíga um borð í flugvél og ferðast um loftin blá. Með tímanum munum við sjá sambærilega
þróun í geimferðalögum, fleiri og fleiri tækifæri til þess að ferðast út í geim. Það er og verður einfaldara en þig grunar.“

Milljón evra á 43 mínútum

„Ég gerðist hluti af Space Nation núna fyrir skömmu. Ég heyrði hvað þau voru að gera, sem er að auka meðvitund fyrir geimferðalögum, að gera geiminn í raun að aðgengilegra fyrirbæri fyrir hverja einustu manneskju á hnettinum.“

Space Nation var stofnað árið 2013 og í upphafi síðasta árs fór fyrirtækið af stað með netfjármögnun. Strax á fyrstu 43 mínútunum söfnuðust milljón evrur sem var nýtt met í slíkri fjármögnun, en í heild söfnuðust 3,2 milljónir evra.

Space Nation opnaði lífstílsvef í október 2017 sem nefnist Space Nation Orbit og eru áætlanir á teikniborðinu um að framleiða sjónvarpsþætti sem munu snúast um þjálfunarbúðir fyrirtækisins, en líklegt þykir að þeir verði frumsýndir vorið 2019.

„Þú hleður niður appinu sem kallast Space Nation Navigator og skoðar vefinn og öðlast þá betri skilning á því sem er í gangi í heiminum, hvað geimurinn getur gert fyrir þig og hvernig þú getur gerst þátttakandi og komist út í geiminn.“

„Þetta snýst ekki um eitt land sem aðskilur okkur eða lokar okkur af, heldur alla plánetuna sem við búum á, með engum landamærum. Öllum löndum er boðið og þetta er geimur allra. Þetta verkefni snýst ekki bara um að allir viti af þessu verkefni, heldur það að allir geta verið þátttakendur í því,“ segir hann. „Ekki missa af ferðalaginu. Stökktu um borð og vertu þátttakandi í þessu,“ segir Johnson en hægt er að byrja geimfaraþjálfun í gegnum Space Nation Navigator appið sem er hannað í samstarfi við NASA og á næsta ári mun síðan fyrsti þátttakandinn verða sendur út í geim eftir ítarlegan valferil.

Vakinn af foreldrum og blossinn kviknaði

Aðspurður hvernig áhuginn á geimferðalögum kom til honum var Johnson fljótur að grípa til svars, enda man hann nákvæma dagsetningu og tímann þegar stjörnuglampinn og stóri draumurinn varð honum ljós.

„Það var þegar ég var sjö ára og bjó í Michigan. Dagurinn var 20. júlí árið 1969 í kringum níuleytið að kvöldi til. Það var komið fram yfir háttatíma en foreldrar mínir vöktu mig. Þau settu mig fyrir framan svarthvítt sjónvarpið og þá rann draumurinn upp fyrir
mér“, segir Gregory sem vísar hér í hinn sögulega atburð þegar Neil Armstrong steig fyrstur manna fæti á tunglið.

„Mér datt aldrei í hug að þessi draumur minn væri raunsær og enn síður að þetta væri möguleiki, en ég vissi bara að þetta var það magnaðasta sem ég hafði séð. Ég hljóp beint út, horfði á tunglið og hugsaði: „Vá, akkúrat núna er einhver gangandi á þessum hnetti. Einhverjum tókst að stíga á yfirborð tunglsins. Það tók mig 40 ár en ég gerði það að markmiði mínu að sækjast í þau verkefni sem ég elskaði og vildi sinna og það voru allt þættir sem leiddu að þeim möguleika að ég gæti orðið geimfari. Einhvers staðar á leiðinni þarna opnuðust dyr og ég steig í gegnum þær.“

Kallaður „Box“

Gregory útskrifaðist úr Air Force Academy í Bandaríkjunum í maí 1984 og sótti flugþjálfun hjá Reese-flugstöðinni í Texas. Hann gegndi þar starfi flugkennara til ársins 1989. Í desember 1990 var hann svo sendur til Sádí-Arabíu og flaug 34 árásarferðir í „Eyðimerkurstorms-aðgerðinni“ (Operation Desert Storm) í Persaflóastríðinu. Gregory gekk til liðs við NASA árið 1998 og flaug sína fyrstu ferð árið 2008 sem stjórnandi vélarms flaugarinnar. Hann var síðan flugmaður Endeavour geimskutlunnar í síðasta flugi hennar árið 2011.

„Ég geri mér grein fyrir heppni minni og ég vissi að það væru 100 manns í kringum mig með sama draum, sem voru alveg jafn hæfir og ég. Svo var ég valinn og allt gekk upp í kjölfarið. Ég skemmti mér konunglega á meðan á öllu þessu ferli stóð og þetta varð síðan allt betra og betra.“

Gælunafnið sem Johnson hlaut í flughernum var „Box“. Segir hann að tilurð þess og slíkra nafna hafi ekki komið með eins svölum hætti og sést venjulega í Hollywood-myndum og vitnar hann í Maverick og Iceman úr Top Gun. „Yfirleitt fylgja svona nöfnum mjög kjánalegar sögur og mín er engin undantekning.“

Gregory segir nafnið hafa orðið til þegar hann þjónaði í Persaflóastríðinu. Hann hlaut bakmeiðsli sem leiddi til þess að hann var sendur heim fyrr en áætlað var. Allir munir hans voru settir í kassa og honum stillt upp fyrir utan tjaldið hans þar sem þeir biðu eftir að hann kæmi til baka. Ekki leið á löngu þar til ekki var talað öðruvísi um hann heldur en sem „Box“ Johnson, sem var áletrunin á kassanum, og nafnið festist við hann.

Tilfinningaskalinn sprakk

Í mars 2008 tókst geimskutlan Endeavour á loft frá Kennedy-geimferðarmiðstöðinni í Flórída. Verkefnið var að flytja búnað fyrir japönsku rannsóknarstofuna í Alþjóðlegu geimstöðinni (ISS) og sinna viðhaldsvinnu svo stöðin yrði áfram starfhæf.

Gregory segir tilfinninguna að vera skotið upp í geim í fyrsta sinn vera ævintýri líkasta og aðspurður hvað hafi verið það fyrsta sem hann hugsaði við flugtak svaraði hann kátur á móðurmálinu með einföldum hætti: „Holy shit!“

Segir Gregory að skilningarvitin hafi farið í kerfi, að tilfinningaskalinn hafi hreinlega sprungið. „Ég hafði þjálfað mig fyrir þetta í næstum 10 ár í hermum, en enginn hermir getur nokkurn tímann skapað tilfinninguna þegar sjö milljón punda sprenging þrýstir þér í loftið á svipstundu,“ bætir hann við. „Það var spenna, það var titringur, það var kvíði, það var ljós. Flugtakið átti sér stað um miðja nótt og lýsti upp Flórída-ströndina og endurkastaðist ljósið af skýjunum. Þetta var eins og eitthvað úr kvikmynd.“

Um leið og Gregory jafnaði sig á þessu fyrsta „sjokki“ snérist þetta um að fara aftur í vinnugírinn. „Við vorum öryggir, kannski örlítið hræddir en að sama skapi vorum við vel þjálfaðir, spenntir að vera þarna en höfðum ekki hugmynd um hvað það var sem beið okkar,“ segir hann. „Þetta var vægast sagt ótrúlegt allt saman. En það sem ég vissi ekki, aftur á móti, var að ég myndi endurtaka þennan leik aðeins þremur árum seinna.“

Geimfarinn vitnar í seinni ferð sína árið þegar geimskutlan Endeavour flaug sína síðustu för árið 2011.
„Þarna var skotið upp að morgni til. Við settumst í skutluna og fylgdumst með sólarupprásinni áður en við héldum af stað. Það var kyrrð yfir sjónum, kyrrð og ró yfir öllu í augsýn, þangað til að allt fór af stað. Um leið og vélarnar fóru í gang fór ég að hugsa: „Hvað er ég að gera hérna? Þetta er klikkun. En svo rann það af mér og ég var aftur kominn í vinnugírinn, en bæði flugtökin eru með bestu lífsreynslum ævi minnar, án efa.“

Píparinn, brytinn, þernan og verkfræðingurinn

Samsetning alþjóðlegu geimstöðvarinnar hófst árið 1998 með samvinnu 15 þjóða. „Þessi stöð hefur verið starfandi samfleytt í næstum því 18 ár, frá nóvember 2000,“ segir hann. „Krakkar sem eru að útskrifast úr menntaskóla í dag hafa lifað allt sitt líf á meðan fólk er statt í geimnum að vinna allan sólarhringinn,“ segir Gregory.

Að sögn geimfarans taka leiðangrar og verkefni hjá geimstöðinni hátt í þrjá til sex mánuði að jafnaði, jafnvel heilt ár. Ferðir Gregorys stóðu í tvær vikur, sem hann segir vera óvenju þjappaðan tímaramma fyrir verkefni af þessari stærðargráðu.

„Þetta var meira spretthlaup heldur en maraþon, þannig að tíminn var afar naumur og sama sem enginn frítími, hvorki til að slaka á né fá taugaáfall. Við héldum okkur uppteknum allan tímann. Sem flugmaður var mitt starf að stjórna geimskutlunni og stýra henni að stöðinni. Ég sá um stjórnkerfin og fleira.“

„Þegar við vorum komin í geimstöðina voru starfsheiti mín mörg. Ég var píparinn, ég var þernan, brytinn, kokkurinn, verkfræðingurinn. Ég gerði við leka og stjórnaði róbotaörmunum. Ég gekk aldrei á neinu yfirborði í geimnum en það var svolítið undir mér komið að halda öllu gangandi, halda öllum heilum, passa að verkefnunum yrði sinnt á réttum tíma og ganga í það sem þurfti að gera.“

Snjór um sumar og gamall hamborgari

Gregory lét fara vel um sig þennan stutta tíma sem hann dvaldi á Íslandi. „Ísland er gullfallegt, þrátt fyrir grimmt veðurfar. Þetta er í fyrsta sinn sem ég kem hingað og á þessum sólarhring er ég búinn að upplifa vind, rigningu, slyddu og jafnvel snjó og það um sumar.“

Þá bætir hann við: „Ég sá reyndar síðasta hamborgarann sem var keyptur á McDonalds á Íslandi. Hann var hátt í níu ára gamall og lítur nákvæmlega eins út og nýr, jafnvel franskarnar líka. Ég veit ekki hvort það sé góður eða slæmur hlutur,“ segir hann og vitnar í hamborgarann á Bus Hostel í Skógarhlíð þar sem hann er nú til sýnis fyrir gesti og gangandi.

Hjörtur Smárason var sá sem keypti síðasta McDonalds-hamborgarann og lánaði staðnum hann þegar Þjóðminjasafnið hafnaði gripnum. Nú vinnur Hjörtur hjá Space Nation og segir við DV að framundan séu bjartir tímar í geimferðamálum.

Hjörtur og Gregory.

Byltingarkennd tækninýjung

„Það var rosalegur áfangi í fyrsta lagi að senda mann út í geim, sem gerðist 1961, og í öðru lagi að ná að lenda á tunglinu og koma heim aftur. Væntingarnar voru gríðarlegar, næst er það bara mars eða einhver önnur pláneta,“ segir hann og nefnir að myndir eins og Star Trek og Star Wars hafi ýtt mikið undir þennan áhuga.

„Spenningurinn fyrir áframhaldandi geimferðum var enn til staðar þegar ég var krakki en svo held ég að hann hafi dvínað því það hefur í rauninni ekkert stórt gerst,“ segir Hjörtur.

„Geimstöðin var vissulega byggð en hún er ekki nýtt svæði sem við erum að komast inn á. Það er ekki fyrr en Elon Musk byrjar með sín ævintýri og fyrst voru það bara nördarnir sem fylgdust með honum og höfðu tiltölulega litla trú á honum. Svo er það ekki fyrr en í byrjun árs þegar Musk sendir upp geimskutluna sína með Tesluna innanborðs með Space Oddity með David Bowie á fullu í útvarpinu, og stóð Don’t Panic á skjánum og það var fullkomið, algjörlega fullkomið og endurvakti aftur áhuga á geimferðum og sýndi fólki að það væri aftur eitthvað að gerast, að mannkynið væri að ná nýjum áfanga.“

Hjörtur segir að Musk telji líklegt að við getum byggt nýlendur á Mars í kringum árið 2030. „Það eru enn ákveðnar hindranir sem koma í veg fyrir að það sé hægt, ekki bara hvað varðar tíma og peninga, heldur líka varðandi geislun, sem er stærsta vandamálið. Hitt er hægt að leysa.
Ég veðja á að við munum fyrst byggja búðir á tunglinu áður en við höldum til Mars, en allt í einu er þetta orðið raunhæft aftur.“

Þá fullyrðir Hjörtur að mikilvæg þróun í nýrri tækni hafi verið þrívíddarprentarinn. „Ef þú spyrð geimfara hvað hefur verið stærsta byltingin í geimtækni nýlega, þá er það 3D-prentarinn. Við sjáum í dag slíka prentara sem geta prentað hús og bíla og allt slíkt. Þá getum við sett upp búðir á tunglinu og byggt stærri og þyngri geimskutlur þar í einum sjötta af þyngdarafli jarðarinnar. Þá er tunglið mögulega orðin höfn fyrir frekari kannanir út í geim. Með endurnýtanlegum eldflaugum sem lækkar kostnaðinn við geimferðir gríðarlega erum við komin inn í allt annað reikningsdæmi við kostnað við geimkönnun og uppbyggingu á nýlendum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hjón fóru á kaffihús í miðbænum – Fengu áfall þegar reikningurinn kom

Íslensk hjón fóru á kaffihús í miðbænum – Fengu áfall þegar reikningurinn kom
Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 
Fókus
Fyrir 3 dögum

Lára og lyfjaprinsinn eiga von á erfingja

Lára og lyfjaprinsinn eiga von á erfingja
Fókus
Fyrir 3 dögum

Örlagarík reynslusaga Evu Gunnarsdóttur komin út – Hefur tekist á við mikla erfiðleika

Örlagarík reynslusaga Evu Gunnarsdóttur komin út – Hefur tekist á við mikla erfiðleika
Fókus
Fyrir 4 dögum

Nýfæddu tvíburarnir fengu óhefðbundin nöfn

Nýfæddu tvíburarnir fengu óhefðbundin nöfn
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sigmar um móður drengs sem kemur að lokuðum dyrum – „Öll fjölskyldan er í því að passa upp á að drengurinn deyi ekki“

Sigmar um móður drengs sem kemur að lokuðum dyrum – „Öll fjölskyldan er í því að passa upp á að drengurinn deyi ekki“